05.11.1986
Efri deild: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í B-deild Alþingistíðinda. (494)

89. mál, grunnskóli

María Jóhanna Lárusdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka frummælanda fyrir þann skilning sem kom fram í framsögu hennar í garð kennara og þess starfs er þeir inna af hendi. Ég vil ítreka að vandi skóla- og menntamála hér á landi verður ekki aðskilinn frá því vandamáli sem kennarastéttin á við að etja. Flótti kennara úr skólum landsins stafar einkum af kjörum kennara, lélegra launa, aukins álags og óviðunandi vinnuaðstöðu.

Í greinargóðu svari hæstv. menntmrh. hér í gær við fsp. minni um endurmat á störfum kennara kom fram að hann hafði skilning á að slíkt endurmat færi fram. Fyrir liggur skýrsla nefndar, er frú Ragnhildur Helgadóttir, fyrrv. menntmrh., skipaði og sátu fulltrúar menntmrn. og kennara í þessari nefnd. Nefndin skilaði áliti í febrúar 1985 og kom þar fram að brýnnar endurskoðunar er þörf á málum kennara og kjörum. Vona ég að hugur fylgi máli hjá hæstv. menntmrh. og að kjör kennara verði raunverulega bætt áður en óbætanlegt tjón hefur hlotist af í menntamálum þjóðarinnar.

Í grg. þess frv., er hér er til umtjöllunar, segir að það sé flutt í beinu framhaldi af tillögu vinnuhóps er ætlað var að athuga tengsl fjölskyldu og skóla og gera tillögur um hvernig mætti bæta þau tengsl. Hv. þingkona Kvennalistans, Guðrún Agnarsdóttir, átti sæti í þessum vinnuhópi og styðjum við Kvennalistakonur heils hugar þetta frv. og þær hugmyndir er liggja að baki. Það er löngu orðið tímabært að endurskoða stjórn skólamála hérlendis, efla tengsl starfsmanna skóla og foreldra og draga úr þeirri miðstýringu er hefur einkennt allt skólastarf hér á landi. Við hefðum þó viljað að skólaráði væri falið lögformlegt valdsvið en væri ekki eingöngu stjórn skólans til ráðgjafar. Ef skólar eiga að geta haft frumkvæði að starfi sínu er einnig nauðsynlegt að auka fjárhagslegt sjálfstæði þeirra og því hefðum við viljað að frv. gengi lengra í þá átt að auka fjárhagslegt valdsvið skólaráðs. Með því móti gæti skólastjórn sérhvers skóla mótað stefnu hans á raunhæfan hátt er varðar þau mál er skólaráði er ætlað að fá til umfjöllunar skv. þessu frv.

Samkvæmt frv. eiga átta fulltrúar rétt til setu í skólaráði auk skólastjóra, þar af einn fulltrúi skólanefndar. Í grg. með frv. segir að þar sem ein skólanefnd sé fyrir marga skóla eins og í Reykjavík sé eðlilegra að fræðsluráð tilnefni fulltrúa í ráðið úr hverfi viðkomandi skóla. Við Kvennalistakonur höfum margoft lýst þeirri skoðun okkar að það sé algerlega óviðunandi að á öllu höfuðborgarsvæðinu sé eingöngu ein skólanefnd, þ.e. fræðsluráð, er fari með mál 26 skóla eins og nú er. Höfum við ásamt minnihlutaflokkunum í borgarstjórn gert það að tillögu okkar að Reykjavík verði skipt upp í skólahverfi og í hverju þeirra verði skólanefnd skipuð af borgaryfirvöldum er fari með mál skólanna. Þessi tillaga var felld í borgarstjórn. Sýnist mér að þetta frv. styðji tillögu okkar um hverfaskiptingu skólastarfs í Reykjavík, þar sem kveðið er á um að fræðsluráð skipi fulltrúa í skólaráð úr viðkomandi hverfi.

Það er því skoðun okkar Kvennalistakvenna að þetta frv. sé skref í þá átt að efla sjálfstætt skólastarf með því að stofna skólaráð við hvern skóla. En til þess að slíkt skref sé stigið til fulls er nauðsynlegt að auka fjárhagslegt sjálfstæði skólanna, auka valdsvið skólaráðs og draga úr miðstýringu skólamála.