05.11.1986
Efri deild: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í B-deild Alþingistíðinda. (496)

89. mál, grunnskóli

Davíð Aðalsteinsson:

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð. Ég vil taka undir orð hv. alþm. sem hafa komið inn á hversu brýnt er að auka samstarf heimila og skóla. Og ég vil sömuleiðis taka undir hversu brýnt það er að foreldrafélög starfi með blóma. Það er kannske ekki síst hlutverk foreldrafélaganna að efla þessi tengsl.

Það sem af er þessari umræðu hefur fremur verið vikið að þéttbýlinu. Sannleikurinn er náttúrlega sá að aðstaðan er ekki sambærileg í þéttbýli og dreifbýli, a.m.k. að mínum dómi. Þar sem ég þekki til í dreifbýli, þá er mér kunnugt um að áhugi foreldra er mjög vakandi fyrir skólanum. Það er mín reynsla sem fyrrv. skólanefndarformanns. Það sem hefur e.t.v. skort á og skortir enn á í sambandi við skólastarfið, þrátt fyrir góð samskipti aðila, er að óskir og þarfir berist með skjótum hætti til þeirra sem eiga raunverulega að taka ákvarðanir. Ég er ekki sannfærður um það, enda þótt ég viðurkenni að samráðsvettvangur geti verið af hinu góða eins og hér er lagt til með því frv. sem hér er til umræðu, þ.e. að stofnuð verði skólaráð, þá óttast ég að slík skólaráð verði lítið meira en aðeins umræðuvettvangur. Jú, þar skýra menn málin hver fyrir öðrum en þar eru engar ákvarðanir teknar.

Það er gert ráð fyrir því að skólastjóri stjórni starfi grunnskóla í samráði við kennara og skólaráð ef skólaráðum verður komið á fót. Nú ber að gæta að því að samráð við kennara eru í raun með allt öðrum hætti heldur en samráð við skólaráð. Samráð af hálfu skólastjóra við kennara eru dags daglega. Í frv. er gert ráð fyrir því að skólaráð komi saman til fundar eigi sjaldnar en þrisvar á ári. Það liggur náttúrlega í augum uppi að skólaráð getur gert sínar samþykktir og sendir þær til annarra aðila, allra þeirra aðila sem eiga aðlld að ráðinu, skólanefnd, skólastjóra o.fl. Væri ekki að mörgu leyti skynsamlegra með þátt nemendanna í huga í því að hafa áhrif á umhverfi sitt, sem er nú kannske mergurinn málsins í þessu sambandi, að nemendaráðin fái aukin tækifæri innan ríkjandi fyrirkomulags í grunnskólum? Það er heimild til þess að koma á fót nemendaráðum í grunnskólum í dag, að vísu aðeins í efri bekkjum grunnskólans, en eftir því sem ég veit best eiga nemendaráðin ekki aðild að öðrum samkomum eða stjórnunarfyrirbærum í grunnskólanum. Það væri athugandi að mínum dómi að nemendaráðið ætti til að mynda áheyrnarfulltrúa á skólanefndarfundum og jafnframt væri gert ráð fyrir því í lögum að fulltrúi foreldrafélags ætti áheyrnarfulltrúa á skólanefndarfundum. Skólanefndin er jú sá aðili sem fer með málefni grunnskólans fyrir hönd sveitarfélaganna og þar eru ákvarðanir teknar. Ég held að ósk um breytingar og upplýsingar um þarfir kæmust fyrr til skila og fyrr til framkvæmda ef upplýsingastreymið yrði með þessum hætti.

En ég tel þakkarvert að hreyfa þessu máli og vafalaust verður frekar um það fjallað í nefnd.