05.11.1986
Efri deild: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 620 í B-deild Alþingistíðinda. (497)

89. mál, grunnskóli

Flm. (Salome Þorkelsdóttir):

Herra forseti. Ég skal reyna að vera stuttorð því það er farið að styttast í fundartíma að þessu sinni. En ég vil byrja á því að þakka þeim hv. þm. sem hér hafa tekið til máls, þakka þá ágætu umræðu sem hér hefur farið fram um þessi þýðingarmiklu mál. Ég vil einnig og sérstaklega þakka hæstv. menntmrh. fyrir hans undirtektir og þá ekki síst varðandi þann þátt sem ég fjallaði um sem varðar slysahættuna í kringum skólana sem kemur óhugnanlega niður á börnum og unglingum á skólaaldri.

Hv. 5. landsk. þm. tók undir þessi orð og svaraði því raunar á sama hátt og ég hefði viljað gera, minna á þau frv. sem við höfum flutt hér í þessari hv. deild um umferðarmálin og hafa verið kæfð eða felld í Nd. eftir að hafa fengið jafnvel alla hv. þdm. til að samþykkja þau í þessari hv. deild.

Ég vil einnig láta þess getið að mér finnst sjálfsagt að haft verði samráð við þá endurskoðunarnefnd sem hæstv. ráðherra minntist á að væri nú að endurskoða grunnskólalögin. Hv. 5. landsk. þm. kom hér og lýsti efasemdum sínum um ágæti þessa meginþáttar í frv., þ.e. stofnun skólaráða. Hann hefur ekki skipt um skoðun frá því í fyrra. Hann lýsti einnig þessum efasemdum þá svo að það kom mér að sjálfsögðu ekkert á óvart, en ég er ekkert viss um að svo verði, eins og hann reyndar gaf í skyn, að hugsanlega ætti hann eftir að skipta um skoðun þegar ítarlegar yrði fjallað um þetta mál.

Ég vil ítreka það, sem ég reyndar sagði hér í minni framsöguræðu, að þessi tillaga vinnuhópsins var sett fram að mjög vel athuguðu máli og eftir ítarlegar umræður við fjölmarga aðila, þar sem menn lýstu því yfirleitt að þeir teldu að þetta gæti verið til bóta. Auðvitað getur maður aldrei fullyrt slíkt fyrir fram. En þetta er í raun og veru það ráð sem vinnuhópurinn sá til þess að koma á í einhverjum þætti skólastarfsins raunhæfu sambandi eða ábyrgð foreldra í stjórnun skóla. Og varðandi það atriði að hér sé verið að auka bákn og búa til nýtt þrep, þá held ég að þar sé kannske aðeins byggt á misskilningi vegna þess að eins og lögin eru nú er gert ráð fyrir að skólastjóri hafi samráð við kennara og/eða kennararáð, þar sem þau eru starfandi, auk þess að hafa samráð við yfirstjórn menntmrn., fræðsluráð, fræðslustjóra og skólanefndir, en einnig er gert ráð fyrir að kennararáð séu starfandi við fjölmennari skóla svo að þarna er aðeins verið að bæta inn þessum fulltrúum sem eru fulltrúar foreldranna og barnanna, þ.e. nemenda. Og af því að hv. 5. þm. Vesturl. minntist á nemendur og að gera þá virkari, þá er gert ráð fyrir að nemendur eigi einmitt fulltrúa í skólaráðum. En þetta munum við væntanlega geta fjallað ítarlegar um þegar þetta verður rætt í hv. menntmn.

Hv. 5. landsk. þm. minntist á að það væru mörg brýnni mál að flytja og ég get vel tekið undir það að það eru fjölmörg mjög brýn mál sem brenna á í skólamálum. Hann nefndi sérkennslu, skólaakstur og kjör kennara. En ég vil aðeins benda hv. þm. á að hér er einungis verið að flytja frv. vegna þess að það vantar lagabreytingu til þess að það sé hægt að koma þessum fulltrúum inn í stjórnun skólanna. Eins og nú háttar lögum er það ekki hægt. Þess vegna er þetta frv. flutt. Það eru fjölmörg atriði, fjölmargar tillögur sem vinnuhópurinn gerði um úrbætur í þessum ýmsu málum sem okkur var falið að vinna að, en þær tillögur kalla ekki á lagabreytingu. Þess vegna er ekki fjallað um þær hér.

Aðeins varðandi kjör kennaranna, þá vil ég geta þess að kjör kennara gengu eins og rauður þráður í gegnum allar umræður, næstum því á hverjum einasta fundi nefndarinnar þegar hún var að fjalla um þessi mál.

Ég sé að menn eru farnir að líta hér á klukkuna. Hún er orðin 5 mínútur yfir 4. Nú er 4. þm. Reykn. í þeirri stöðu að standa hér í ræðustóli og ætti nú sennilega síst af öllu að verða til þess að lengja hér fundi vegna annarrar stöðu sinnar í þessari hv. deild, en það eru hér fjölmörg atriði önnur sem mig hefði langað að minnast á. Mig langar að minna á, af því að hv. 5. landsk. þm. nefndi máltíðir skólabarna, að ýmislegt hefur verið gert í þeim efnum.

Herra forseti. Ég er alveg að ljúka máli mínu og forseti hefur nú ekki hringt endilega á menn í miðri ræðu, ekki fyrr en hún er orðin aðeins einni eða tveim mínútum lengri en nú er. (Forseti: Væri ekki full ástæða til þess að fresta þessu máli? Hv. frummælandi gat þess að það væri allnokkuð eftir og ég veit ekki nema það væri eðlileg málsmeðferð? Forseti er tilbúinn í það.) Má spyrja hæstv. forseta hvort fleiri eru á mælendaskrá? (Forseti: Nei. Samkvæmt síðustu athugun mun hv. 4. þm. Reykn. vera einn á mælendaskrá.) Óskar forseti eftir að málinu sé frestað? (Forseti: Hann gerir það ekki.) Ef forseti óskar eftir því að ég fresti þessari ræðu minni, mér var orðið nokkuð mikið niðri fyrir, það tekur kannske nokkurn tíma að hita sig upp aftur á næsta fundi, en ég vil gjarnan fá tækifæri til að ræða þessi mál ofurlítið ítarlegar og þar af leiðandi mun ég þá hætta nú með það fyrir augum að aðeins sé ræðunni frestað en ekki lokið.

Umræðu frestað.