05.11.1986
Neðri deild: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í B-deild Alþingistíðinda. (504)

94. mál, almannatryggingar

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Það er orðið æðilangt síðan efnisatriði þessa frv. hafa komið með einhverjum hætti til umræðu hér á Alþingi og það á ýmsum tímum, ýmist í sambandi við heildarendurskoðun tryggingalaga eða í öðru sambandi. Það ákvæði tryggingalaga sem fjallaði um tryggingadómstól tók m.a. mið af því sem um ræðir í þessu frv. Í þessu frv. er þó stungið upp á heldur einfaldari leið en þar er um að ræða. Ég get játað að ég er ein af þeim sem var alltaf í nokkrum vafa um að það ætti að búa til sérstök lög um sérstakan tryggingadómstól. Mér þótti vera um að ræða mál sem varða svo marga einstaklinga og svo algenga hluti að þar ætti fremur hið almenna dómstólakerfi að fá einhvers konar sérfræðihjálp til að leysa úr álitaefnum sem réttarstöðu manna gagnvart almannatryggingum varðar eins og um önnur réttarálitaefni í þjóðfélaginu.

Hitt er svo annað mál að ég kannast mjög vel við þann vanda sem flm. þessa frv., hv. 3. þm. Reykv., nefnir og ég er sammála því, sem hann segir, að það verður að taka á þessu máli. Það eru til ýmsar leiðir sem kannske ekki er ástæða til að ræða í smáatriðum á þessu stigi. Það hafa komið fram fleiri hugmyndir. En með því að segja þetta er ég síður en svo að hafna þeirri leið sem nefnd er í þessu frv. Ég tel það rétt vera að þetta mál eigi að fá þinglega umfjöllun og við eigum að taka afstöðu til þess arna. Þau verkefni sem tryggingayfirlæknir hefur eru geysilega umfangsmikil og vandasöm og ég get ekki ímyndað mér annað en það væri jákvætt frá sjónarmiði hans embættis að fá slíkan bakhjarl eða skírskotunaraðila hvort sem það væri í þessu formi eða öðru.

Í stuttu máli: Ég vil skýra frá því, því að hér er um mál að ræða sem flutt hefur verið oft, að ég er mjög fýsandi þess að þetta verði vandlega athugað, fái bæði góða athugun í heilbr.- og trmrn. eins og ég þykist vita að það fái í heilbr.- og trn. þingsins.

Ég ætla ekki að fara út í sögulegar útlistanir eða söguskoðun á því sem ég ekki þekki nægilega vel. Mér er ekki alveg ljóst hvort tillaga í þessa veru kom frá hv. flm. þegar hann var ráðherra heilbrigðis- og tryggingamála og ef svo hefur ekki verið þá hvers vegna það var ekki gert. Það skiptir í raun og veru ekki máli í þessu sambandi, a.m.k. ekki lengur. Aðalatriðið er að málið fái þá skoðun sem vert er og afgreiðslu.