05.11.1986
Neðri deild: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í B-deild Alþingistíðinda. (507)

94. mál, almannatryggingar

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég kem inn í þessa umræðu til að lýsa stuðningi við það að á þessu máli verði tekið. Það vildi svo til á árunum 1981-1982 að ég lenti í því fyrir nokkra mína skjólstæðinga að eiga við mál sem tengjast þessu og fór í gegnum það staðnaða kerfi sem við búum við eða óeðlilega kerfi að mínu mati sem við búum við í þessum málum og átti m.a. fundi með ýmsum aðilum í Tryggingastofnuninni sem um þetta fjalla. Ég komst að því þar að útilokað er að una við þetta kerfi til lengdar.

Ég minnist þess að á þingi sem haldið var á vegum Öryrkjabandalagsins flutti fyrrv. heilbrinrh. Magnús heitinn Kjartansson einhverja kröftugustu ræðu sem ég hef heyrt mann flytja á slíkum samkomum. Þar rakti hann sögu þessara mála í mjög myrku máli og deildi á það kerfl sem fyrir var. Auðvitað sannfærðist ég síðar um að hann hafði að mestu leyti alveg rétt fyrir sér. Þetta væri óeðlilegt og skapaði mikið misræmi og óeðlilegan mismun milli þeirra sem þurfa á þessu mati að halda og þurfa þar af leiðandi að fá þær tryggingabætur sem þeim ber miðað við þá aðstöðu sem það fólk kemst í sem lendir í þeirri óhamingju að missa vinnuþrek af ýmsum ástæðum. Þar af leiðandi styð ég að þetta mál nái fram að ganga. Ég tek undir með hæstv. heilbrmrh. að það þarf að skoða fleiri leiðir í sambandi við þetta, en aðalatriðið er að það verði hægt að finna lausn á því þannig að fólk losni út úr þeim óeðlilegu kringumstæðum, sem ég tel að í mörgum tilfellum blasi við svo til í hverjum einasta mánuði, að fólk fær þá afgreiðslu í gegnum þetta mat sem ekki er í raun og veru nein sanngirni á bak við miðað við þau vandamál sem það á við að stríða.