05.11.1986
Neðri deild: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í B-deild Alþingistíðinda. (509)

107. mál, eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, en flm. þessa máls eru hv. þm. Alþb. í þessari deild og ég þar sem 1. flm.

Meginefni þessa frv. kemur fram í 1. gr. þar sem gert er ráð fyrir að því sé slegið föstu í lögum að íslenska ríkið sé eigandi allra auðlinda á og í hafsbotninum utan netlaga og svo langt til hafs sem fullveldisréttur Íslands nær samkvæmt lögum, alþjóðasamningum eða samningum við einstök ríki. „Auðlindir samkvæmt lögum þessum“ - þ.e. tilvitnun í 1. gr. - „taka til allra ólífrænna og lífrænna auðlinda á og í hafsbotninum.“

Þá er gert ráð fyrir því að leyfi til hagnýtingar á efnum í hafsbotni til leitar og að efnum í eða á hafsbotni megi ekki fara fram nema með leyfi iðnrh. og sama gildi um hagnýtingu. Leyfi til hagnýtingar má ekki vera lengra en 30 ár í senn og gert er ráð fyrir því að iðnrh. setji nánari ákvæði um framkvæmd laganna.

Frv. þetta var flutt á síðasta þingi og þá vísað til hv. allshn. þessarar deildar, en hún afgreiddi það ekki frá sér. En saga þessa máls er raunar eldri því að frv. sama efnis kom fram sem stjfrv. á 105. löggjafarþingi 1982, þá lagt fram í Ed., og var þá vísað til ríkisstjórnar, eins og það var orðað í nál. allshn. Ed., til skjótrar en ítarlegrar athugunar hæfustu sérfræðinga og þar var einnig lögð áhersla á að skynsamleg skipan þessara mála verði fundin sem skjótast og málið lagt fyrir næsta þing. En nú er málið statt í þeirri stöðu sem hér er mælt fyrir óafgreitt og ekkert frá hæstv. ríkisstjórn heyrst um þetta mál frekar.

Við undirbúning þessa frv. var á sínum tíma vönduð málsmeðferð og það var Benedikt Sigurjónsson, fyrrv. hæstaréttardómari, nú nýlega látinn, sem kom að þessu máli með nefnd sem starfaði á vegum iðnrn. og kallaðist nefnd um hagnýtar hafsbotnsrannsóknir ef ég man rétt og var til ráðuneytis ráðherra um meðferð þessara mála.

Aðdragandi þessa máls var einnig sá að fram höfðu farið nokkrar rannsóknir á landgrunninu umhverfis Ísland fyrst á árunum 1972-1973 og síðan á árinu 1978. Það voru bergmálsmælingar m.a. til þess að leiða í ljós útbreiðslu setlaga á landgrunni Íslands og það var unnið úr þessum upplýsingum á þeim tíma sem ég var iðnrh. og í tengslum við þær upplýsingar var ákveðið að bora kjarnaholu sem kölluð er í Flatey á Skjálfanda vegna þess að í ljós hafði komið veruleg setlagamyndun þar á allgóðu svæði í eins konar sigdal úti fyrir Eyjafirði og Skjálfanda. Þessari borun var ekki lokið í rauninni þegar menn þurftu að staldra við af sérstökum ástæðum og mér er ekki kunnugt um að fram hafi verið haldið því verki.

Þessum málum tengist það samkomulag sem gert var milli Íslands og Norðmanna um skiptingu Jan Mayen-svæðisins og rannsóknir og hugsanlega hagnýtingu auðlinda á því svæði, annars vegar varðandi hlut Íslands og hins vegar Noregs á þessum svæðum, og í tengslum við það var undirritaður samningur milli íslenskra stjórnvalda og norskra um frekari leit og mælingar á Jan Mayen-svæðinu og úti fyrir Norðurlandi. Þær fóru fram sumarið 1985 og eru nú í úrvinnslu með aðild íslenskra sérfræðinga, en niðurstaðna af því verki mun ekki að vænta fyrr en á næsta ári. Þetta voru m.a. ítarlegri mælingar en áður höfðu verið gerðar á þessari nefndu setlagasigdæld úti fyrir Norðurlandi.

Ég nefni það, sem einnig kemur fram í grg., að sovéskir aðilar óskuðu eftir að fá að gera mælingar á íslenska landgrunninu með hliðstæðum hætti og gert hafði verið á vegum annarra erlendra rannsóknaraðila hér. Beiðni um þetta kom fram 1985, en var hafnað á fyrri hluta þessa árs að frumkvæði utanrrn. sem mun hafa óttast að Rússarnir færu þarna inn á áhrifasvæði sem ekki væri æskilegt að þeir gerðu rannsóknir eða mælingar á. Ég skal ekki leggja mat á þann þátt mála, en hef heyrt á íslenskum sérfræðingum, sem að þessum undirbúningi stóðu, að þetta hafi verið ástæðulaus tortryggni, en ég hef ekki sett mig sérstaklega inn í það efni.

Meginatriðið er það, og það felst í texta þessa frv. , að setja skýr ákvæði um það í lög að íslenska ríkið sé eigandi auðlinda á og í hafsbotninum og það er auðvitað lagt til vegna þess að nauðsynlegt er að þarna verði mun meira aðhafst en verið hefur til að rannsaka okkar yfirráðasvæði. Það er ein af þeim skyldum sem Ísland tekur að sér með tilkalli til landgrunnsins og eftir að hafa helgað sér landgrunnið með þeim hætti sem kveðið er á um í lögum nr. 41 frá 1979, að við stundum rannsóknir og öflum upplýsinga um þetta stóra svæði.

Ég heyrði það þegar ég var að undirbúa þetta mál til endurflutnings hér að sérfræðingar kvörtuðu undan því að enginn aðili væri lengur til staðar til að ráðfæra sig við um þessi efni þar sem nefnd um hagnýtar hafsbotnsrannsóknir hefði verið lögð niður. Ég hygg að það sé hins vegar ekki rétt mat á stöðu mála, en hæstv. iðnrh. mun væntanlega greina frá því hér hvað rétt er í þeim efnum.

Ég ítreka að þessi lagasetning er fyllilega tímabær. Undir þetta mál var á sínum tíma eindregið tekið af Ólafi heitnum Jóhannessyni fyrrum utanrrh., sem hafði góða þekkingu á alþjóðalögum eins og íslenskum lögum, og hann var mjög hvetjandi lagasetningar af þessu tagi og með þeim hætti sem hér er lagt til. Ég vænti þess að þetta mál fái nú efnislega athugun á vegum hv. allshn., sem ég legg til að fái málið aftur til meðferðar, og fái þinglega meðferð og afgreiðslu á þessu þingi. Ég vænti þess að það verði hægt að ráða úr ef einhverjir meinbugir teljast á þessu máli, formlegir eða með öðrum hætti, og er sjálfsagt að athuga það, en aðalatriðið er að setja slíka löggjöf og auka rannsóknir á vegum Íslendinga, eftir atvikum í samvinnu við erlenda aðila, á þessu stóra svæði sem Ísland hefur helgað sér með löggjöf.