05.11.1986
Neðri deild: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í B-deild Alþingistíðinda. (510)

107. mál, eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins

Iðnaðarráðherra (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Hv. 5. þm. Austurl. hefur mælt fyrir frv. á þskj. 110. Er það frv. til laga um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlináum hafsbotnsins.

Frv. þetta lýtur eins og þar segir að eignarrétti ríkisins að auðlindum á hafsbotni. Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir að allir sem slíkar auðlindir vilja nýta skuli sækja um leyfi til iðnrh.

Það er að sjálfsögðu þýðingarmikið að íslenska ríkið hafi óskoraðan umráðarétt yfir þeim auðlindum hafsbotnsins sem með réttu tilheyra Íslandi og að ríkisstjórnin hafi á hverjum tíma nægar lagaheimildir til að sá umráðaréttur sé virkur en ekki bara orðin tóm. Umráðarétturinn þarf að ná til allra þeirra auðlinda sem rannsóknir kunna að leiða í ljós á íslensku yfirráðasvæði. Einkum og sér í lagi er þýðingarmikið að halda skynsamlega á þessum málum hvað varðar olíuleit og hugsanlegar auðlindir á hafsbotni.

Meginverkefnið í könnun á hugsanlegum auðlindum á hafsbotninum umhverfis Ísland undanfarin ár hefur verið samvinnuverkefni, eins og kom fram hjá hv. 1. flm., með Norðmönnum sem felur í sér rannsóknir á setlögum á Jan Mayen-hryggnum suður af Jan Mayen. Þetta verkefni er unnið í samræmi við samkomulag Íslendinga og Norðmanna frá 1981 um sameiginlega nýtingu hafsbotnsins suður af Jan Mayen. Gagnasöfnun fór fram á árinu 1985, en úrvinnsla fer fram á yfirstandandi ári og því næsta. Af hálfu Íslands er framkvæmd þessa verkefnis í höndum Orkustofnunar, en af hálfu Norðmanna í höndum olíustofnunarinnar í Stavanger.

Auk þessa verkefnis fór fram á sama tíma könnun á setlögum úti fyrir Norðurlandi í nágrenni við Flatey á Skjálfanda og er úrvinnsla þeirra mælinga einnig í gangi. Sérstök fjárveiting, nálægt 5 millj. kr., var veitt til þessara verkefna á árinu 1985 þegar gagnasöfnunin stóð yfir. Á yfirstandandi ári eru veittar til þessara verkefna 2 millj. kr. og í fjárlagafrv. fyrir árið 1987 er gert ráð fyrir 1 millj. kr. til verkefna á þessu sviði.

Á vegum iðnrn. hefur starfað undanfarin ár ráðgjafarnefnd á sviði hafsbotnsrannsókna og hefur hún m.a. fjallað um óafgreidd verkefni og fjárveitingar til þeirra. Starfstími nefndarinnar rann út í maí s.l. og hefur umboð hennar ekki enn verið framlengt, en eins og ég hef í prívatsamtölum við hv. 1. flm. sagt honum mun starfstími þessarar nefndar verða framlengdur og endurnýjaður en ekki lagður niður. Það eru sérstök mistök ráðherra iðnaðarmála að starfstími nefndarinnar hefur ekki verið framlengdur eins og til hefur staðið. Það hefur dregist af ástæðum sem ég tel ekki nauðsynlegt að telja hér.

Það er ljóst af því sem hér hefur verið rakið að málið er nokkuð yfirgripsmikið og þarf athugunar við. Efni þess frv. sem fyrir liggur líst mönnum ekki illa á, en hins vegar er ljóst að þær rannsóknir sem lýst var hér að framan hafa enn ekki borið árangur eða ekki þann árangur að skjótra aðgerða sé þörf í málinu. Ríkisstjórnin mun hins vegar taka málið upp jafnskjótt og þörf krefur, enda tel ég þörf á að afstaða ríkisstjórnarinnar til efnisatriða frv. sé þekkt áður en þingið afgreiðir svo þýðingarmikla lagasetningu sem hér um ræðir.

Ráðgjafarnefnd iðnrn. hefur kannað á síðustu árum áhuga erlendra aðila á að leita á eigin kostnað að olíu og gasi á íslensku umráðasvæði. Ekki virðist sem mikill áhugi sé á þessu nú og kann þar að hafa sín áhrif lágt olíuverð á alþjóðavettvangi.

Annað atriði, sem dregur úr áhuga, er skortur á íslenskri löggjöf sem tilgreinir réttindi slíkra aðila eftir að þeir hafa fjárfest í olíuleit á íslensku yfirráða- eða hafsvæði.

Á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar hefur verið í gangi s.l. tvö ár samvinna um rannsóknir og námskeiðahald á sviði olíujarðfræði. Íslendingar hafa notið mjög góðs af þessu og m.a. tekið þátt í nokkrum námskeiðum þar sem norskir og danskir fyrirlesarar hafa annast kennsluna. Einn Íslendingur dvelst nú við Oslóarháskóla við rannsóknir á sjávarbotninum norður af landinu með sérstöku tilliti til hugsanlegra orkulinda. Dvöl hans þar er kostuð af ráðherranefndinni. Þessi vísindamaður er Karl Gunnarsson eðlisfræðingur.

Enn fremur má geta þess að á vegum ráðherranefndarinnar verður haldinn hér í Reykjavík um miðjan þennan mánuð fundur um olíu- og gasvinnslu á vestanverðum Norðurlöndum. Þar verður megináhersla lögð á að ræða málin frá sjónarhóli Grænlendinga, Íslendinga og Færeyinga. Þótt líkur séu e.t.v. ekki miklar á þessari stundu á að vinnanleg olía finnist í íslenska hafsbotninum ber okkur þó að kanna sem best þá möguleika sem hugsanlegir eru þar fyrir hendi. Olíuleit er dýr og tækifæri til samvinnu við aðra aðila ætti því að nýta eftir því sem þau gefast. Ég vil að hv. flm. skilji þessi orð mín sem jákvæðar undirtektir við fram komið frv.

En varðandi þá þál. sem hann greindi frá í máli sínu verð ég að segja alveg eins og er að ég minnist þess ekki að hún hafi komið fyrir á fundum þeirrar ríkisstjórnar sem ég hef setið í. Sú þál. var samþykkt áður en þessi ríkisstjórn kom til starfa og eins og fram kemur í frv. endar álit allshn. með því að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar, dags. 9. mars 1983. Það getur verið og ég efast ekkert um að þessi mál og þáltill. hafi verið rædd þegar að afstaðinni þeirri samþykkt í ríkisstjórninni sem þá sat. En ég endur tek: Ég minnist þess ekki að þetta mál hafi komið fyrir ríkisstjórnina sem ég hef setið í og ég staðfesti að nefndin sem hefur verið ráðgjafarnefnd iðnrn. er ekki lögð niður. Það hefur dregist að endurskipa hana, en það mun verða gert innan fárra daga.