05.11.1986
Neðri deild: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í B-deild Alþingistíðinda. (511)

107. mál, eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir undirtektir hans varðandi þetta frv. Ég vænti þess að hæstv. ráðh. fylgi þeim sjónarmiðum eftir sem fram komu í máli hans, þ.e. að á þessu máli verði tekið einnig af hæstv. ríkisstjórn þannig að vilji hennar í þessu efni liggi fyrir og þeim sjónarmiðum komið á framfæri við þá þingnefnd sem fær málið til meðferðar þannig að hún viti um afstöðu ríkisstjórnar til lagasetningar um þetta efni. Eins og ég gat um í framsögu minni er ég auðvitað og við flm. reiðubúnir að líta með velvild á hugmyndir um breytingar, ef uppi kynnu að vera, á þeim texta sem hér liggur fyrir til umræðu.

Ég vil einnig lýsa ánægju með að hæstv. ráðh. ætlar að endurskipa eða framlengja starfstíma þeirrar ráðgjafarnefndar sem á að fjalla um hafsbotnsmálefni á vegum iðnrn. Auðvitað er það alltaf matsatriði hversu lengi nefndir eru látnar starfa, en í faglegu máli sem þessu hygg ég að það sé réttmætt á meðan einhver hreyfing er á því að hafa möguleika á aðstoð og ráðgjöf frá nefnd sérfræðinga, en ég hygg að það séu einkum sérfræðingar sem sitja í þessari ráðgjafarnefnd. Þannig var það a.m.k. á þeim tíma sem ég starfaði sem ráðherra iðnaðarmála.

Varðandi rannsóknir að undanförnu, sem hæstv. ráðh. vék að, er það eins og í máli hans kom fram frekar lítið sem hefur verið á döfinni alveg upp á síðkastið. En mér finnst það ekki geta verið rök fyrir því að setja ekki lög um þessi efni. Það er betra að vera búinn að móta íslenska löggjöf með tilliti til þess sem kann að gerast í þessum efnum en ekki taka fyrst á málinu ef einhverjar sérstakar ástæður koma upp sem kalla á lagasetningu. Málið er það almenns eðlis og það víðtækt að full ástæða er til að marka skýra stefnu. Hæstv. ráðh. nefndi réttilega að einnig þarf auðvitað að setja reglur ef um er að ræða einhverjar leyfisveitingar til erlendra aðila til leitar eða hagnýtingar á verðmætum og það er einnig með tilliti til þess sem svona undirstöðulöggjöf þarf að vera til staðar um þessi mál. Ég vænti þess því að á þessu verði tekið.

Varðandi ályktun allshn. Ed. frá mars 1983 þar sem frv. um þetta efni var vísað til ríkisstjórnar, þá var það í lok starfstíma þáv. ríkisstjórnar og kosningar hlupu af stokkunum um það leyti sem þessi samþykkt var gerð, þannig að ég man ekki eftir því að þetta mál hafi komið frá þinginu inn á mitt borð áður en ný ríkisstjórn tók við. Þetta skiptir kannske ekki máli efnislega í þessu samhengi, en það lá fyrir vilji og viljayfirlýsing þessarar þingnefndar að á málinu yrði tekið og mótaðar tillögur um það fyrir næsta þing. Þarna kom fram vilji allra í allshn. og það sjónarmið að réttmætt væri að setja löggjöf um þetta efni og ríkisstjórn hvött til að taka á málinu milli þinga.