06.11.1986
Sameinað þing: 13. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 647 í B-deild Alþingistíðinda. (525)

17. mál, lífeyrissjóður allra landsmanna

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það er kannske ekki ástæða til að hafa mjög mörg orð um þetta mál, en þó þykir mér rétt að leggja nokkur orð í belg við þessa umræðu. Ég fagna því í rauninni að hér skuli margir hv. alþm. hafa tekið þátt í þessari umræðu því að hér er vissulega um mikilsvert og mikilvægt mál að ræða. Engu að síður ber að hafa í huga að hér er um flókið mál að ræða og hér er um mál að ræða sem allt of lengi hefur verið látið dankast, ef þannig má til orða taka, og sem menn hafa heykst á að taka á og finna viðunandi lausn á.

Hér hefur verið lögð fram þáltill. sem er vel grunduð og vandlega undirbúin. Til þess hefur verið varið verulegum tíma. Auðvitað ekki nálægt því eins miklum tíma eins og margar og fjölmennar stjórnskipaðar nefndir hafa lagt af mörkum í þessum lífeyrissjóðamálum, en engu að síður hefur verið unnið vandað undirbúningsverk og hér eru að vissu leyti farnar nýjar leiðir þar sem tillagan gerir ráð fyrir að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort koma skuli á fót einum sameiginlegum lífeyrissjóði fyrir alla landsmenn samkvæmt þeim hugmyndum sem nánar eru tilteknar í tillögunni.

Þetta er mál sem búið er að tala um árum saman og hér er gerð tilraun til þess að nálgast það frá nýju sjónarhorni ef vera mætti að unnt yrði að skapa breiðari samstöðu en tekist hefur til þessa. Í rauninni held ég að þetta sé ekki ágreiningsmál og við sem stöndum að flutningi þessarar till. viljum mikið á okkur leggja til þess að þetta geti orðið samkomulagsmál vegna þess að þetta er stórmál sem skiptir alla þjóðfélagsþegnana verulegu máli.

Vissulega er okkur öllum ljóst, að ég hygg, og hefur komið fram í þessum umræðum að á núverandi kerfi eru margvíslegir annmarkar sem öllum eru ljósir. Það hefur í för með sér ranglæti á fjölmörgum sviðum sem er okkur í rauninni til vansa að skuli hafa verið svo lengi við lýði sem raun ber vitni.

Vissulega má líka sjálfsagt með rökum benda á annmarka við það að koma á einum lífeyrissjóði og ég veit að víðs vegar úti um land er viss ótti í hugum fólks við að þessi hugmynd hafi það í för með sér og af sjálfu leiði að allt fjármagn úr heimabyggðinni, sem rennur til lífeyrissjóðs sem þar er kannske nú, verði flutt hingað suður til Reykjavíkur. Ég held að þetta þurfi alls ekki að leiða af sjálfu. Þetta þurfi alls ekki að vera svo. Það sé hægt að fara þarna aðrar leiðir og tryggja að byggðir landsins verði ekki rúnar þessu fjármagni svo sem ýmsir óttast.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um gallana sem eru á núverandi kerfi. Það hafa komið hér fram ýmsar líkingar og verið minnt á hvernig þetta kerfi hefur vaxið. Auðvitað gefur auga leið að við sameiningu og við sameiginlegt lífeyriskerfi er hægt að ná fram margvíslegri hagkvæmni og örugglega sparnaði sem lífeyrisþegum kæmi þá til góða.

Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa um þetta öllu fleiri orð, en ég vona eindregið að við sem skipum Alþingi berum gæfu til að ná samstöðu um að láta nú til skarar skríða í þessum efnum. Vissulega er þetta vandasamt og kannske að sumu leyti sums staðar viðkvæmt mál. Mér er fullkunnugt um það. En ég held samt, eins og 1. flm. sagði hér, að af þeim kostum sem við blasa í þessum efnum sé kannske sá verstur sem við höfum lengst við unað í þessu efni. Hann er sá að gera ekki neitt.