06.11.1986
Sameinað þing: 13. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í B-deild Alþingistíðinda. (528)

17. mál, lífeyrissjóður allra landsmanna

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Ég tek undir orð síðasta ræðumanns, hv. þm. Stefáns Valgeirssonar, um að það sem skiptir meginmáli þegar verið er að ræða þessi mál er að markmiðið hlýtur að vera það sama hjá okkur öllum, nr. 1, 2 og 3, að við viljum tryggja öllum landsmönnum mannsæmandi lífeyrisréttindi og útrýma því ranglæti sem er nú ríkjandi í því kerfi sem við búum við á Íslandi í dag. Þetta held ég að sé grundvallaratriði í allri umræðu um þetta mál. Síðan koma auðvitað upp önnur atriði: Hvernig getum við náð þessu markmiði? Hvaða leiðir eru tiltækar til þess að tryggt verði að allir njóti þessara sjálfsögðu nútímamannréttinda?

Ég þakka hv. flm. þessarar þáltill. fyrir að hafa lagt till. fram. Ég get lýst því yfir að ég er sammála því markmiði sem felst í framkominni þáltill. um að tryggja öllum landsmönnum sama rétt til lífeyris í einu og samfelldu kerfi. Hins vegar er ég ekki sammála því sjónarmiði að fyrsta skrefið eigi að vera þannig að því eigi að vísa til þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég geri þær kröfur til Alþingis í þessu máli sem öðrum að hv. alþm. geti átt ákveðið frumkvæði í samstarfi við aðra aðila um það eins og ég mun víkja að hér á eftir.

Hins vegar vil ég taka undir það, sem fram hefur komið, að það ber að virða forsögu og frumkvæði Alþfl. í þróun almennrar tryggingalöggjafar á Íslandi. Á sínum tíma var af hálfu þess flokks unnið mikið og merkilegt starf. Síðan hefur, því miður, almenna tryggingakerfinu hnignað mjög, en við þá þróun hafa svonefndir lífeyrissjóðir komið til skjalanna. Þessir sjóðir, sem eru fjarri því að vera af hinu vonda, hafa þróast með ýmsum hætti. Það hefur gerst í samningum aðila vinnumarkaðarins, í samningum ríkisvaldsins við opinbera starfsmenn, í samningum sveitarfélaga við sína starfsmenn o.s.frv. Þess vegna hefur þróast mjög flókið og ég vil segja að mörgu leyti ófullkomið tryggingakerfi á þessu sviði. En flestir ef ekki allir, sem hafa staðið að þessari samningsgerð. hafa gert það í góðri trú og með góðum vilja um að þeir væru að bæta kjör umbjóðenda sinna á tryggingasviðinu. Vil ég því biðja hv. þm. um að ræða þessi mál með þeim hætti að gera sér grein fyrir að þeir sem að þessu hafa staðið utan þings hafa gert það með þeim góða og einlæga ásetningi að þeir væru að betrumbæta það tryggingakerfi sem hv. Alþingi hefur ekki getað séð þjóðinni fyrir með almennri tryggingalöggjöf.

Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson skýrði upphaf og aðdraganda þess þegar sjálfstæðismenn tóku upp baráttuna fyrir fullkomnara og betra eftirlaunasjóðakerfi á Íslandi sem kom m.a. fram í frv. til laga um Lífeyrissjóð Íslands sem lagt var fram árið 1975. Það er óþarft að rekja nánar hvað í því frv. felst, en staðreynd er að við það að þetta frv. var lagt fram árið 1975, sem var fimm árum eftir að almennu verkalýðsfélögin höfðu gert sína samninga um lífeyrissjóði, komst veruleg hreyfing á þessi mál. Aðilar vinnumarkaðarins tóku þá upp samninga um frekari réttindi í sambandi við sína lífeyrissjóði sem m.a. fólst í alls konar auknum tryggingum með tilliti til verðbólguþróunar o.fl.

En síðan þetta kerfi var upp tekið, þ.e. almenna lífeyrissjóðakerfið, sem gert var í samningum 1969 og tók til starfa 1970, og frá því að umrætt frv. var lagt fram árið 1975 hafa orðið allmiklar breytingar á Íslandi. Það var ekki eins auðvelt nú og var árið 1975 að fjalla um þetta mál og þróa það með þeim hætti sem fullnægir því markmiði sem við erum að ræða um í sambandi við umrædda þáltill. Það er flóknara og erfiðara en það var fyrir ellefu árum. Hér er um mjög stórt mál að ræða vegna þess að það grípur mjög sterkt inn á samningssvið íslenskrar verkalýðshreyfingar, þ.e. frjálsra samninga. Þessir samningar tryggðu að þetta kerfi hefur nú þróast í sextán ár. Árið 1975 voru þessir samningar að vísu fyrir hendi, en þá voru lífeyrissjóðirnir á algeru bernskuskeiði. Síðan hafa verið gerðar margar og miklar kröfur til lífeyrissjóðakerfisins. Ég nefni sem dæmi húsnæðismál þjóðarinnar. Þegar við erum að fjalla um þessi mál verðum við því að gera okkur grein fyrir um hvað við erum að ræða.

Ef við ætlum að stofna, sem við stefnum að, lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn verðum við að gera okkur grein fyrir eftirfarandi atriðum: Í fyrsta lagi: Á að vera um að ræða svokallað gegnumstreymiskerfi? Í öðru lagi: Á að vera um að ræða uppsöfnunarkerfi? Í þriðja lagi: Á að vera um að ræða sambland af uppsöfnun og gegnumstreymi? Þá kæmi einnig til greina, sem ég held að hljóti að verða næst í umræðunni, fjórða leiðin. Það er uppsöfnun sem er óhjákvæmileg á næstu árum vegna þeirrar löggjafar sem hv. alþm. hafa verið að samþykkja í sambandi við íbúðamál þjóðarinnar. Þeir eru raunverulega búnir að festa þá svokölluðu uppsöfnun sem verkalýðshreyfingin framkvæmir með sínum lífeyrissjóðum. Þá held ég að fjórða leiðin hljóti að vera nærtækust, en það er ákveðin uppsöfnun plús grundvallarendurskoðun á almannatryggingakerfinu þannig að um væri að ræða að hluta til gegnumstreymi í sambandi við endurskoðun þess tryggingakerfis sem við stefnum að á næstu árum. En niðurstaðan hlýtur að verða fyrr en síðar eitt heildarkerfi á nýjum sameinuðum grundvelli.

Málið er sem sagt ekki eins einfalt og það var fyrir ellefu árum, en það er unnt að framkalla þær grundvallarbreytingar sem hér um ræðir. Til þess að það sé unnt þarf í fyrsta lagi góðan vilja ríkisvaldsins, í öðru lagi Alþingis og í þriðja lagi samningsaðila vinnumarkaðarins og síðast en ekki síst alls almennings í landinu. Ég trúi því að almenningur í landinu muni taka afstöðu til þessa máls í næstu kosningum með tilliti til þess hvernig íslenskir stjórnmálaflokkar hafa staðið að þessum málum bæði í orði og æði. Ég efast ekki um að hv. flm. ásamt þm. Sjálfstfl. muni finna leiðir til að hrinda þessu nauðsynjamáli í framkvæmd í næstu framtíð. Ég fyrir mitt leyti vænti góðs samstarfs við Alþýðuflokksmenn í þessum efnum. Markmiðið er að það ber að endurskipuleggja lífeyrismálin með þeim hætti að allir landsmenn njóti sama réttar í sambandi við eftirlaun og ellilífeyri.