06.11.1986
Sameinað þing: 13. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í B-deild Alþingistíðinda. (532)

17. mál, lífeyrissjóður allra landsmanna

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á að segja það um hv. síðasta ræðumann að það er kannske rétt sem formaður Alþfl. kallaði til hans áðan úr salnum að hann talaði ekki nógu skýrt. Ég hef alltaf haldið að hann talaði skýrt og álitið hann þannig og ekki efast um að það sem hann hefur sagt væri það sem hann meinti, en e.t.v. hefur formaður Alþfl. eitthvert annað álit á hans máli. (JBH: Nei, nei, nei, nei.)

Hann ræddi um orlofsféð og vörslu þess og var að senda mér litla sneið. Hann talar um kerfiskarla í því máli, að þeir hafi lagst gegn lausn þessa. En ég hef alltaf skilið það þannig og ég get ekki lesið annað úr lögum um orlof en að það hafi verið aðilar vinnumarkaðarins sem ákváðu þá stefnu sem þar var tekin og hafi staðið vörð um hana. Ég hef aldrei heyrt það fyrr að þeir aðilar, bæði aðilar launþega og atvinnurekenda, væru kallaðir kerfiskarlar í þessu máli. Ég vil líka taka fram að hv. þm. Karvel Pálmason hefur verið þarna innan dyra og haft tækifæri til að hafa góð áhrif á þetta mál. Það hefur ekki staðið á félmrh. að leiða það til réttrar áttar. Ég bíð eftir tillögum aðila vinnumarkaðarins og frá þeirri nefnd sem fjallar um þetta mál.

En það sem hér er til umræðu get ég tekið undir að er eitt af þýðingarmestu málum, þ.e. lífeyrissjóðamál landsmanna. Það er enginn vafi. Það vill svo til að fjöldi þm. úr öllum stjórnmálaflokkum á hv. Alþingi hefur flutt árum saman þáltill. um endurskoðun á tryggingakerfinu og þar með þeirri hugmynd að koma á lífeyrissjóði fyrir alla landsmenn þó að það sé ekki nema að litlum hluta til tilgreint í grg. þáltill. sem hér er til umræðu. Ég held að það hafi flestallir, a.m.k. stjórnmálamenn, látið þá skoðun í ljós að þeir væru sammála um að þetta ætti að gera. En sjálfsagt vita allir sem eru viðstaddir a.m.k. þessa umræðu að auðvitað hefur þetta alltaf strandað á því að núverandi fjöldasjóðakerfi hefur gert málið svo viðkvæmt að það hefur aldrei verið hægt að ná viðunandi samkomulagi um lausn þessa máls. Árin hafa liðið. Erfiðleikarnir við að finna sameiginlega lausn hafa vaxið með hverju ári sem liðið hefur.

Það er þessi stóra nefnd sem skipuð var á sínum tíma. Ég las með mikilli athygli þá skýrslu sem hún skilaði af sér 2. maí 1985. Ég verð að viðurkenna að ég var jafnnær eftir lestur þeirrar skýrslu um hvernig væri hægt að framkvæma þetta mál. Að sjálfsögðu var ég búinn að frétta af því, sem hv. 7. þm. Reykv. var að segja áðan, að nefndin undir forustu Hallgríms Snorrasonar væri nú að koma með ákveðnar tillögur, en einhvern veginn býður mér í grun að það verði sama uppi á teningnum þar. Það verði kannske 2, 4, 6, 8, 10 hugmyndir á lofti en engin þannig að það sé hægt að ganga beint að verkinu eins og þyrfti að gera að mínu mati.

Ég tek undir mál hv. þm. sem hafa talað í þessu máli. Það er Alþingi sem verður að taka þetta mál til alvarlegrar meðferðar og reyna að sameinast um að finna framtíðarlausn. Það er það eina rétta í þessu máli. Ég held að það sé augljóst mál, sem hefur komið fram í umræðunni, að aðalatriðið, a.m.k. eins og ástandið er, er að jafna réttindi fólks í landinu þannig að allir þegnar þessa lands nálgist það að búa við öryggi í þessu blessaða velferðarríki sem við státum okkur af að búa í, en allir hv. þm. vita hvað þarna er mikið misræmi, mikið óréttlæti á öllum sviðum. Ég tel að þetta sé kjarni málsins í dag ef hv. þm. geta í gegnum svona tillöguflutning og málsmeðferð hér á hv. Alþingi fundið einhverja nýja leið til þess að skapa þetta öryggi. Tryggingalöggjöfin gerir það því miður ekki í dag. Við höfum allir verið sammála um að vernda almannatryggingakerfið og að reyna að betrumbæta það í gegnum tíðina, en samt er það svo að núna, á árinu 1986, þá getum við auðveldlega flett upp óréttlætinu sem þetta tryggingakerfi býr yfir. Það bætir ekki stöðu þeirra sem fyrst og fremst þurfa á samtryggingu að halda, heldur þvert á móti. Það eru aðrir, sem síður þurfa, sem njóta þess miklu meira. Þetta held ég að sé ákaflega alvarlegt mál sem svona umræða þarf að fjalla um.

Við höfum rekið okkur illilega á það í sambandi við nýsamþykkt lög um Húsnæðisstofnun ríkisins, þar sem fjármagn lífeyrissjóðanna kemur inn í það kerfi og lánsréttur fólks miðast við þann lífeyrisrétt sem það hefur. Þá kemur vel í ljós hvernig þessi lánsréttur kemur út. Og því miður verður að segja það alveg eins og er að það kemur manni á óvart hversu margir, sem maður hafði haldið að væru örugglega í lífeyrissjóðum a.m.k. frá 1980 eða 1982, hafa gjörsamlega lent utan við þetta lífeyrissjóðakerfi þrátt fyrir ströng lög og reglur og kynningu o.s.frv. Þetta er náttúrlega eitt atriði sem sýnir það öryggisleysi sem við höfum ekki áttað okkur á á undanförnum árum. Við héldum að almannatryggingakerfið og lífeyrissjóðakerfið væri búið að ganga þannig fram að það væri nokkurn veginn ljóst að allir þegnar þjóðfélagsins væru tryggðir. En það er svo langt, langt í frá og hefur komið hér fram í umræðum á undanförnum dögum um ýmis mál sem hér eru að koma upp.

Ég tel að það sé ákaflega mikilvægt og gagnlegt að umræður um þessi mál fari fram hér á hv. Alþingi og menn fletti upp sem flestum svona vanköntum á því velferðarþjóðfélagi sem við erum öll sammála um að hér eigi að ríkja. Og þá er náttúrlega næsta atriðið að sameinast um aðgerðir sem væru framkvæmanlegar. Ég tek hins vegar undir það sem hér hefur komið fram að ég hef vissar efasemdir um það að þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta mál á næsta vori skili málinu í höfn. Ég held að við þurfum að ræða þetta miklu betur og flokkarnir ættu að sameinast um það að takast á við þetta mál og reyna að finna viðráðanlegt kerfi, sem a.m.k. gengur út á það að tryggja þetta öryggi sem ég tel að sé vantryggt, það er númer eitt, að finna leið út úr þessum vanda sem allir geti verið nokkurn veginn sáttir við. Ég tel að það sé aðalmálið. En við getum ekki haldið áfram ár eftir ár að ræða þessi mál, hver flokkurinn á fætur öðrum frá fyrstu tíð hefur lýst yfir stuðningi við stefnuna um það að settur verði upp sameiginlegur lífeyrissjóður og það tryggingasjóður án þess að láta það vera nema orðræðuna eina. Það er löngu, löngu tími kominn til að takast á við þetta mál í alvöru.