06.11.1986
Sameinað þing: 13. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í B-deild Alþingistíðinda. (533)

17. mál, lífeyrissjóður allra landsmanna

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Tilefnið var nú kannske m.a. og ekki síst það að mér fannst hv. flokksbróður minn og samþingsmaður Karvel Pálmason, kvarta undan því að ég hefði ekki tekið nógu vel eftir því að hann styddi þetta mál. Það getur vel verið að í hita umræðunnar hafi það ekki komið nægilega skýrt fram hjá mér, en ég tók nú samt eftir því. Mér fannst líka að það væri svona eins konar ábending frá hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni, sem hv. þm. Karvel Pálmason ítrekaði, um það að þeir sem hafa unnið í þessu hafi reynt að gera eins vel og þeir hafi getað. Ég vil bara benda á að sú skoðun mín kemur fram í grg., þar sem segir m.a.: „Ekki er þó að efa að ýmsir starfsmenn sjóðanna hafa kappkostað eftir mætti að gera eins vel og unnt er.“ Gagnrýni mín á kerfið beinist ekki að einstökum starfsmönnum heldur á kerfið sem slíkt. Gagnrýni mín beinist náttúrlega líka gegn þeim sem hafa staðið gegn því að endurbætur væru gerðar. Og nú upplýsir hæstv. ráðherra að það nál. sem sé í vændum muni líklega vera 4, 6, 8 eða 10 hugmyndir, og það er þá af sama sauðahúsinu og áður, og ekki veit ég hverja af hugmyndunum hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson ætlar að velja ef þetta reynist vera rétt hjá ráðherra.

En sannleikurinn er sá að það er búið að reyna þessa leið í tíu ár. Og auðvitað hafa menn glaðst fyrir hvert lítið skref. En þau hafa alltaf verið svo agnarlítil og menn hafa rekið sig hver á annars horn í þessu og það verður eins í framhaldinu. Þess vegna verður að taka á þessu.

Það var athyglisvert að heyra það hjá hæstv. félmrh. að í ljós hefði komið núna að þrátt fyrir öll lagafyrirmæli væri fjöldi fólks utan við kerfið. Ráðið er vitaskuld, til þess að hægt sé að hafa eftirlit með þessu, að menn séu í einum sjóði. Meðan við erum með þetta fjölsjóðakerfi og uppálöppun á því þá mun það ekki ganga upp.

Ég vil að lokum einungis segja það að auðvitað verður Alþingi að taka af skarið í þessum efnum. Það getur gerst með tvennum hætti, annaðhvort með þeim hætti að menn taki af skarið núna á þessu þingi, ellegar að menn fari í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem gefur Alþingi þann bakhjarl að það er skuldbundið til þess að taka af skarið og ákveða löggjöf um þetta efni á þinginu þar á eftir.