06.11.1986
Sameinað þing: 13. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 664 í B-deild Alþingistíðinda. (534)

17. mál, lífeyrissjóður allra landsmanna

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að munnhöggvast hér við einstaka hv. þm. en ég get þó ekki orða bundist út af því sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson hefur sagt hér í tvígang í þessum umræðum. Hann vill halda því fram að við, sem höfum staðið að þessu lífeyrissjóðakerfi, höfum staðið í vegi fyrir því að nauðsynlegar breytingar gætu átt sér stað. Og raunverulega vildi hv. þm. halda því fram að við hefðum komið í veg fyrir það. Þetta er ekki rétt. Ég held að hv. þm., eins og aðrir hv. þm., verði að þola það að fólkið í landinu verður að fá að fjalla um sín eigin mál á meðan hv. Alþingi hefur ekki gert betur. Það er ekki hægt að sakast hér úr ræðustóli í hv. Alþingi við þá sem vinna sín störf úti í þjóðlífinu fyrir það að gera sitt besta.

Það vill svo til að ég hef verið þátttakandi í því að þróa upp einn lífeyrissjóð, og það hefur verið gert á grundvelli þess frelsis sem við eigum, ég get nú ekki sagt við af því ég er staddur hér í dag, sem það fólk á sem er utan við sali Alþingis. Það er þessi frjálsi samningsréttur. Við höfum getað þróað þessi mál utan sala Alþingis og utan stjórnmála í frjálsum samningum. Stjórnmálamenn hafa því miður brugðist í þessu máli í gegnum árin. Þeir glötuðu góðu tækifæri til frumkvæðis á árunum í kringum 1970. Það er ekki hægt að sakast við okkur hin, sem höfum verið þátttakendur í verkalýðshreyfingunni, fyrir það sem við höfum reynt að gera í þessum grundvallarréttindum fólks, sem eru tryggingaréttindi í nútímaþjóðfélagi. Sem sagt, verkalýðshreyfingin og aðilar vinnumarkaðarins, sem og opinberir starfsmenn og aðrir, gripu til sinna ráða og reyndu að tryggja sér þessi réttindi eftir bestu getu miðað við samningsaðstæður. Svo er það annað mál að samhliða því létu hv. alþm. undir höfuð leggjast á þessum tveim áratugum, sem verkalýðshreyfingin var að vinna fyrir sína umbjóðendur, að gæta þess að einhver yrði ekki út undan í þessari þróun, og það er sá fjöldi manna sem hæstv. félmrh. gat um hér áðan, það eru þær þúsundir manna sem eru utan við öll réttindi í lífeyrissjóðakerfinu og verða að treysta á almenna tryggingakerfið. Það fólk hefur orðið gjörsamlega út undan í umræðunni. Réttindi þess eru orðin sáralítil og fyrir neðan allar hellur að ekki skuli hafa verið athugað hér á hv. Alþingi að laga réttindi þessa fólks. Þess vegna sagði ég áðan í minni ræðu að það þyrfti að endurskoða hvort tveggja samhliða, þ.e. lífeyriskerfið og almannatryggingakerfið. Það er grundvallaratriði. Og menn ættu ekki að ræða um þessi mál án þess að samtengja þetta hvort tveggja í umræðu.

En það er ekki eins einfalt að fjalla um þetta eins og það lítur út fyrir. Það er hægt að koma með alls konar þáltill. o.s.frv., en menn verða að ræða þessi mál á þeim grundvelli sem þetta byggist allt á. Og þá kem ég að því atriði þegar hv. þm. Kjartan Jóhannsson segir að átta manna nefndin svonefnda og sautján manna nefndin hafi ekki gert nokkurn skapaðan hlut. „Það hefur ekkert gerst“, sagði hv. þm. Þetta er alrangt. Það hefur mikið gerst á þessum tíu árum, en ekki nægilega mikið, (Gripið fram í.) en ekki nægilega mikið, það er bara kjarni málsins. En það eru tvö meginatriði sem valda því hversu erfitt hefur verið fyrir þessa nefnd, ég er einn af nefndarmönnum, hversu erfitt hefur verið fyrir þessa nefnd að skila áliti. Og það er þetta grundvallaratriði: Hvernig á að ákveða grundvallarréttindi? Þ.e. hver á grunnur tryggingabóta að vera? Og hvernig á síðan að haga verðbreytingum eða vísitölum í tengslum við þessar grunnbætur sem almannakerfið á að veita í samræmdu lífeyriskerfi? Þetta er ekkert einfalt mál. Þetta grípur inn í samninga. Þetta grípur líka inn í það hvað á að gera við þá sem ekkert hafa fengið eða lítið fá í almannatryggingakerfinu. Og þetta grípur líka mjög sterklega inn í samninga opinberra starfsmanna. Vill hv. þm. lýsa því hér yfir nú í umræðunni að hann sé reiðubúinn til þess að gera það sem gera þarf til að samræma réttindi þeirra sem eru annars vegar úti á almenna vinnumarkaðnum og svo hinna sem hafa lífeyrisréttindi skv. samningi við opinbera starfsmenn? (KJóh: Lestu grg. Það er tekið á því þar.) Það er ekki tekið á því þar. Ég er búinn að renna yfir grg., það vantar mikið á það. Ég vil sjá það skýrt og skorinort af hálfu hv. alþm. Kjartans Jóhannssonar að hann taki á þessu með þeim hætti að íslenska þjóðin hafi greiðslugetu innan þess tryggingakerfis sem við erum að tala um fyrir næstu áratugi. Það er það sem skiptir máli.

Við skulum hafa það í huga að aldursskipting þjóðarinnar eftir stéttum er afar mismunandi. Í hinum almennu verkalýðsfélögum er aldrað fólk. Í þjónustugreinum er ungt fólk, verkfræðingar hafa allt önnur tryggingakjör heldur en hinn almenni verkamaður o.s.frv. Þetta er það sem þarf að huga að þegar maður er að ræða um þessi mál. Ég veit að hv. þm. Kjartan Jóhannsson vill laga þetta og leiðrétta en við skulum ekki einfalda það og við skulum ekki gagnrýna þá sem hafa unnið að þessu og reynt að leysa það.

Það er sem sagt mjög þýðingarmikið að þetta sé rætt efnislega en ekki eftir þessum gömlu pólitísku línum, að kenna öðrum um eða reyna að búa sér til stöðu á-kostnað annarra sem eiga það ekki skilið. Mér finnst það ómaklegt gagnvart þeim sem ekki hafa tækifæri til að fjalla um sín mál hér á hv. Alþingi. Ég legg þess vegna áherslu á það að við þróum þessi mál upp á efnislegum rökum og í samræmi við greiðslugetu íslensku þjóðarinnar í framtíðinni. Við skulum ekki gefa of miklar vonir. Við skulum líka gera það upp við okkur, sem er mjög þýðingarmikið og ég vona að hv. þm. muni ræða það síðar: Ættum við að skapa fólki rétt á grundvelli ævitekna, 100%, eða ætlum við að hafa ákveðið hámark og ákveðið lágmark? Ætlum við að hafa uppsöfnun samtengt gegnumstreymi, eða hvernig ætlum við að fara í þetta? Þetta er það sem átta manna nefndin hefur m.a. verið að fjalla um.

Ég á ekki von á því, því miður, að nefndin geti skilað því áliti að allir geti orðið sammála. Ég fyrir mitt leyti er ekki sammála öllum þeim atriðum sem nefndin hefur svona hér um bil komið sér saman um. Þannig að í sambandi við störf átta manna nefndar hef ég áskilið mér ákveðinn rétt til þess að koma með brtt., bæði í sambandi við störf nefndarinnar og svo væntanlega hér á Alþingi Íslendinga ef ég á hér sæti.

En sem sagt, ég legg áherslu á það að við skulum ekki einfalda þetta. Við skulum ekki gera þetta að pólitísku uppboðsmáli í kosningum. Við skulum frekar standa við það sem máli skiptir fyrir tryggingaþega, þ.e. að skapa þeim mannsæmandi lífeyrisréttindi.