15.10.1986
Neðri deild: 3. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í B-deild Alþingistíðinda. (54)

18. mál, kosningar til Alþingis

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Frv. til l. um breytingar á lögum um kosningar til Alþingis hefur legið fyrir Alþingi á undanförnum tveimur þingum, en eigi hlotið afgreiðslu. Er frv. nú endurflutt.

Í framsögu fyrir frv. á fyrri þingum hefur verið gerð grein fyrir helstu breytingum er í því felast. Eru þær flestar lagfæringar til samræmis við breytingar sem gerðar voru á kosningalögum vorið 1984 samfara stjórnarskrárbreytingunni þá. Voru tillögur þessar undirbúnar í tengslum við meðferð þess frv. í nefnd, en eigi vannst tími til að afgreiða þær þá og var gert ráð fyrir að þær yrðu lagðar fyrir næsta Alþingi.

Frv. hefur sem fyrr segir legið tvisvar fyrir Alþingi án þess að hljóta afgreiðslu. Undir lok síðasta þings skilaði kosningalaganefnd, er hafði frv. til meðferðar, þó áliti og lagði til að frv. yrði samþykkt með breytingu á einni grein þess, en talið var að ákvæði 4. mgr. 112. gr. gildandi kosningalaga samrýmist ekki stjórnarskránni.

Þetta frv. er nú flutt óbreytt frá fyrri gerð með þeirri breytingu einni er leiðir af brtt. kosningalaganefndarinnar. Frv. fjallar að öðru leyti ekki um reglur kosningalaganna né heldur reglur um tilhögun persónukjörs, en umfjöllun um þau atriði varð ekki lokið á þinginu 1984 og var gert ráð fyrir því að áfram yrði unnið að því máli milli þinga og hefur nefnd sú, sem um frv. hefur fjallað hér á Alþingi, hugað að því atriði.

Ég tel ekki þörf á að fylgja frv. þessu úr hlaði með frekari orðum, en vísa til fyrri framsögu minnar með frv. og athugasemda með því.

Herra forseti. Er frv. þetta hefur verið til meðferðar á Alþingi hefur verið kosin sérstök nefnd til að fjalla um efni þess. Var það gert með hliðsjón af því að líklegt þótti að við athugun frv. kæmu til skoðunar önnur atriði kosningalaganna. Tel ég rétt að sama tilhögun verði nú viðhöfð og að kosin verði sérstök þingnefnd til að fjalla um efni frv. og önnur atriði kosningalaganna sem þá kunna að koma til álita. Jafnframt legg ég til að frv. verði að þessari umræðu lokinni vísað til 2. umr. og þeirrar nefndar.