10.11.1986
Efri deild: 10. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 685 í B-deild Alþingistíðinda. (551)

89. mál, grunnskóli

Flm. (Salome Þorkelsdóttir):

Herra forseti. Ég hafði ekki alveg lokið máli mínu á seinasta fundi þegar honum var frestað. Ég mun nú reyna að taka þráðinn upp að nýju og nefna þau atriði sem komu fram í umræðum og mér gafst ekki tími til að minnast á.

Ég var þar komin að ég var að ræða þau atriði sem hv. 5. landsk. þm. hafði minnst á í sinni ræðu. Auk þess sem ég hef áður nefnt vék hv. 5. landsk. þm. að skólamáltíðum eða máltíðum nemenda í grunnskólum og taldi að nær væri að taka slík mál upp heldur en það sem varðar þetta frv. sem hér er flutt.

Ég tek undir þýðingu þess þáttar sem varðar skólana, þ.e. nestismál skólabarna, en þau voru einmitt einn af þeim þáttum sem vinnuhópurinn fjallaði ítarlega um og lagði ríka áherslu á, en til þess að bæta úr í þeim efnum þarf ekki lagabreytingu. Það er eitt af þessum framkvæmdar- og skipulagsatriðum sem má lagfæra í skólastarfi án þess að lagabreytingar komi til.

Í tillögum vinnuhópsins er lagt til að það sé gefinn kostur á nestispökkum eða máltíðum á skólatíma. Sem betur fer er nú aukinn skilningur á þýðingu þess að tryggja nemendum holla og góða næringu á skólatíma. Það verður að horfast í augu við þá staðreynd að hinir breyttu þjóðfélagshættir hafa leitt til þess að undirstöðugóðum heimilismáltíðum hefur fækkað, sérstaklega á morgnana og í hádeginu, og oft virðist sjoppufæði koma í staðinn. Það er ekki skemmtileg tilhugsun að þurfa að horfast í augu við þetta en þetta eru staðreyndir sem blasa við og ekki er hægt að mæla í móti.

Hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa reynt að bregðast við þessum vanda með skólamáltíðum. Við erum rétt að byrja að bregðast við honum. Það er rétt að geta þess að í mörgum skólum er lögð áhersla á að leysa þennan mikilvæga þátt á hagkvæman hátt. Það er boðið upp á nestispakka og jafnvel raðið starfsfólk sem sér um að smyrja brauð í skólanum til þess að reyna að beina því mataræði sem börnin fá inn á hollari brautir.

Það er líka ástæða til að geta þess að það hefur verið gert átak til að auka mjólkurneyslu skólabarna, m.a. með því að auka niðurgreiðslu á skólamjólk um 3 kr. á hvern pela eða 1/4 úr lítra. En það kom fram þegar vinnuhópurinn var að kanna þessi mál að mjólkin þótti dýr að kaupa hana í skólanum og jafnvel nestispakkarnir sem hægt er að kaupa.

Það mætti spyrja sig hvort það sé þýðingarmeira að greiða niður vinnustaðamáltíðir eins og alls staðar er tíðkað eða að tryggja börnunum sem eru að vaxa úr grasi holla næringu á þeirra vinnustað sem er skólinn. E.t.v. ættum við að hafa endaskipti á hlutunum og færa vinnustaðamáltíðir hinna fullorðnu, sem margir hverjir þyldu nú vel að minnka svolítið við sig, inn í skólana. En þetta var nú kannske útúrdúr.

Það má líka benda á að til eru samanburðartölur um fjölda skemmdra tanna 12 ára barna í nokkrum löndum, Noregi, Finnlandi, Hollandi, Bretlandi, Bandaríkjunum og Íslandi. Og þar kemur fram að munurinn er frá 2,7 skemmdum tönnum í 12 ára börnum í Bandaríkjunum til 4,4 sem eru í Noregi á móti 8 hér á Íslandi sem er tvisvar sinnum meira en í nokkru hinna landanna sem ég nefndi. Hæsta hlutfallið var 4,4 í Noregi og svo koma á Íslandi 8 skemmdar tennur 12 ára barna. Þetta segir væntanlega nokkra sögu um nauðsyn þess að leggja ríka áherslu á holla næringu skólabarna.

Ég vil þakka hv. 11. þm. Reykv. fyrir hennar stuðning og Kvennalistans við frv. Hún er því miður ekki á þessum fundi þar sem hún er farin út af þingi en mér kom sá stuðningur vissulega ekkert á óvart því að, eins og hún nefndi réttilega, þá átti hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir sæti í þessari nefnd og stóð að þeim tillögum sem vinnuhópurinn lagði fram í sínum skýrslum.

Hv. 9. þm. Reykv. nefndi umferðarhættuna við skólana og þetta var einn af þeim þáttum sem mikið var ræddur innan vinnuhópsins og m.a. var bent á þýðingu þess að smærri grenndarskólar fyrir yngstu árgangana, 6–9 ára, gætu bætt þarna úr þar sem væri hægt að koma því við að staðsetja smærri skóla í grennd við heimili nemenda í íbúðarhverfunum.

Hv. 5. þm. Vesturl. kom inn á misjafna aðstöðu, dreifbýli og þéttbýli. Ég gat þess sérstaklega að aðstæður væru misjafnar og úti á landsbyggðinni væri sums staðar enginn grundvöllur fyrir stofnun skólaráðs, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, enda gert ráð fyrir undanþágum í slíkum tilfellum.

Ég held að hv. 5. þm. Vesturl. hafi einnig nefnt þýðingu upplýsingastreymis til heimila frá skólum og öfugt. Það er einnig mikilvægur þáttur sem lögð er áhersla a í tillögum vinnuhópsins og það er sérstaklega ánægjulegt að geta þess að nú þegar hefur verið tekið myndarlega á í þeim efnum skólastarfsins í mörgum skólum, bæði hér á suðvesturhorninu og eins víða út um land, og til mikillar fyrirmyndar, enda er þessi þáttur eitt af þessum skipulagsatriðum sem ekki kalla á lagabreytingu eins og flest það sem ég hef komið inn á.

Eins og ég gat um í upphafi fjallar þetta frv. um eina þáttinn sem nefndin gerir tillögur um sem kallar á lagabreytingu og þess vegna er þetta frv. flutt. Það voru, eins og ég hef væntanlega greint frá, fjölmargir þættir sem komu fram í umræðunum sem var ítarlega fjallað um og gerðar tillögur um úrbætur á en ekki ástæða til að flytja um frv. Og vegna þeirra umræðna sem urðu hér um kjaramál og m.a. hv. 5. landsk. þm. kom inn á langar mig að lokum að lesa það sem stendur í lokaorðum skýrslu vinnuhópsins, með leyfi forseta:

„Vinnuhópurinn vill að lokum leggja sérstaka áherslu á þá ábyrgð sem lögð er á kennara í starfi þeirra. Gæði þess uppeldis, þroska og þeirrar fræðslu sem kennurum er ætlað að sinna ráðast af hæfni þeirra, alúð við kennslustarf og umhyggju fyrir velferð nemenda. Tryggja verður með öllu móti að hæft fólk veljist til slíkra ábyrgðarstarfa og geti einbeitt sér að því að leysa þau sem best af hendi. Kaup og kjör kennara og aðstæður sem þeim eru búnar verða því að vera í samræmi við þær miklu kröfur sem gerðar eru til þeirra og þeir sjálfir gera til sín sem samverkamenn foreldra um uppeldi og fræðslu.“