10.11.1986
Neðri deild: 10. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í B-deild Alþingistíðinda. (574)

71. mál, dagvistarheimili fyrir börn

Flm. (Kristín S. Kvaran):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm. sem hafa séð ástæðu til þess að taka þátt í umræðum um þetta mál og hef nú reyndar gert það, held ég, einu sinni áður að þakka fyrir það, og þakka líka fyrir frá því í fyrra. Ég verð að segja það að ég virkilega fagna því tækifæri sem þessi umræða hefur gefið þannig að hægt sé að horfa á málin frá öllum hliðum. Að sjálfsögðu geta allir haft sína skoðun á þessu máli og ég vil bara segja að það er vel. En það hlýtur eðli málsins samkvæmt að vera skylda mín sem 1. flm. þessa frv. að leiðrétta augljósar rangfærslur og ranghugmyndir um það. Það liggja síður en svo nokkur sárindi að baki þó svo ég leyfi mér slíkt. Það þýðir auðvitað ekkert að tala um aukningu á dagvistarheimilum í sambandi við þetta frv. á meðan við vitum að það fæst ekki starfsfólk, hvorki með menntun né menntunarlaust, og nú síðast eru allar fóstrur að segja upp frá 1. nóv.

Þær fóstrur sem ég hef átt viðræður við, og ég er búin að segja þetta reyndar áður við þessa umræðu, þeim finnst í raun og sannleika að það mundi að vissu leyti verða kjarabót fyrir þær ef það fengist bætt aðstaða á dagvistarheimilunum, og bætt aðstaða skapast m.a. með því að það verði ekki um stöðugan gegnumgang af fólki að ræða. Það rétt byrjar og svo hættir það vegna þess að það finnur sig ekki í þessu starfi og það hefur ekki hæfileika eða getu til þess að gegna þessum störfum.

Ég verð að segja það einnig og enn og aftur að nákvæmlega sömu rökum, sem hér hefur verið beitt gegn þessu frv., var beitt gegn stofnun sjúkraliðaskóla á sínum tíma. Það kom reyndar fram í máli hv. síðasta ræðumanns og hann rakti það mál mjög vel. Það hefur sýnt sig í dag að það er full þörf á þessum skóla og þessi starfsstétt hefur fyllilega sannað gildi sitt.

En í sambandi við orð hv. 7. landsk. þm. um það að ég væri e.t.v. sem 1. flm. eitthvað hrædd um að hv. þm. Kvennalistans gætu stöðvað málið, þá er það ekki þess vegna sem ég vil leiðrétta ranghugmyndir um þetta mál, heldur vegna þess að mér finnst leitt til þess að vita að þær skuli stöðugt, eða réttara sagt þessi eini hv. þm. svo að ég hafi þetta ekki í fleirtölu, klifa á sömu hugsanaskekkjunni varðandi þetta mál, þ.e. að hugmyndin að þessu frv. sé sú — sem hún er alls ekki — að fósturliðum sé ætlað að taka yfir störf fóstra. Það er síður en svo. (KH: Ég efast ekki um að hugmynd ykkar er önnur, en ég óttast það.) Já, en hún er það sem sagt ekki og örugglega verður hún það ekki, ekki frekar en að sjúkraliðar hafa ekki tekið yfir störf hjúkrunarkvenna fram að þessu.