11.11.1986
Sameinað þing: 14. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 728 í B-deild Alþingistíðinda. (585)

133. mál, Sjóefnavinnslan á Reykjanesi

Iðnaðarráðherra (Albert Guðmundsson):

Virðulegur forseti. Þessi ræða fyrirspyrjanda kom mér nokkuð á óvart. Miðað við fsp. á þskj. 139 til iðnrh. um Sjóefnavinnsluna og þær spurningar sem þar koma fram er ekki ástæða til að ætla að umræður um samkeppni Sjóefnavinnslunnar við innflutta erlenda framleiðslu né heldur um samkeppni milli einstaklinga og Sjóefnavinnslunnar fari fram.

Ég ætla að halda mig við þær fyrirspurnir sem hv. þm. hefur borið fram á þskj. 139 og svara þeim. Sú fyrsta er:

1. Hversu stóran hlut á ríkið í Sjóefnavinnslunni á Reykjanesi? Og svarið er: Samkvæmt síðasta ársreikningi var innborgað hlutafé í Sjóefnavinnsluna hf. á verðlagi 31. des. 1985 117,8 millj. kr. Af þeirri upphæð er hlutur ríkissjóðs 99,06 millj. kr. eða 84% og hafa þá hlutafjárgreiðslur frá fyrri árum verið uppfærðar skv. lánskjaravísitölu. 16% hlutafjár skiptist á 500 hluthafa, en sveitarfélögin á Suðurnesjum eiga þar langstærstan hlut.

2. Hversu miklir peningar hafa verið lagðir í verksmiðjuna af hálfu ríkisins? Og svar mitt er: Samkvæmt ársreikningi Sjóefnavinnslunnar hf. fyrir árið 1985 nam bókfært verð stofnframkvæmda í árslok 1985 um 434 millj. kr. og er það sem fyrr byggt á framreikningi upphaflegs stofnverðs. Alls námu skuldir og eigið fé Sjóefnavinnslunnar í árslok 1985 um 484 millj. kr. Skuldir fyrirtækisins voru þá samtals 366,4 millj. kr. og þar af voru langtímaskuldir með ríkisábyrgð 353 millj. kr. rúmar eða rúm 96% af skuldum.

3. Stangast ekki þátttaka ríkisins í þessu fyrirtæki á við stefnu ríkisstjórnarinnar um að selja ríkisfyrirtæki og draga úr ríkisumsvifum? Svar mitt er: Á s.l. ári fór fram á vegum iðnrh. ítarleg úttekt á Sjóefnavinnslunni og framtíðarmöguleikum fyrirtækisins. Blasti þá við annars vegar stöðvun framkvæmda og lokun fyrirtækisins eða áframhaldandi uppbygging á grundvelli nýrrar stefnu og endurskoðaðrar áætlunar. Að vandlega athuguðu máli ákváðu fulltrúar ríkissjóðs og aðrir hluthafar að velja seinni kostinn sem miðar að því að gera endanlegt átak til að koma af stað arðbærum rekstri. Ljóst var þá að óbreytt stefna í málefnum fyrirtækisins lofaði ekki góðu og mundi kalla stöðugt á viðbótarrekstrarfé frá ríkissjóði. Með stöðvun og lokun fyrirtækisins hefði hins vegar að engu verið gert áratuga þróunarstarf og uppbygging á athafnasvæði Sjóefnavinnslunnar sem ekki hefði verið ráðist upphaflega í nema með tilstyrk ríkissjóðs.

Ný rekstraráætlun miðar að því að framleiða árlega 6–8 þús. tonn af salti ásamt 1850 tonnum af kolsýru og þurrís og verulegu magni af kísl. Allt bendir til að með því móti fáist viðunandi arður af nýfjárfestingu og einnig eitthvað upp í fyrri uppbyggingar- og þróunarkostnað. Þar með verður bundinn endir á árlegt fjárframlag ríkisins til rekstrar tilraunaverksmiðjunnar og hagkvæmri rekstrareiningu komið á fót með lágmarkstilkostnaði.

Fyrirtækið Sjóefnavinnslan hf. er í raun rammi utan um umfangsmiklar rannsóknir á þróunarstarfsemi. Sjóefnavinnslan hf. er eitt af fáum fyrirtækjum í landinu sem býr yfir þekkingu og tækni til að beisla háhitagufu, en fyrirtækið er hið eina hérlendis sem vinnur efni úr gufu og heitum jarðsjó.

Ný rekstraráætlun miðar ekki einungis við saltframleiðslu heldur nýtingu jarðvarma til iðnaðar á sem breiðustum grundvelli. Í því efni hefur þróunin snúist á sveif með Sjóefnavinnslunni á síðustu misserum. Í fiskverkun eru nú gerðar meiri kröfur til hreinleika saltsins, svo sem við verkun tandurfisks og í síldarsöltun þar sem Reykjanessaltið hefur unnið sér fastan sess. Þá hefur áhugi bæði innlendra og erlendra fyrirtækja á framleiðslu Sjóefnavinnslunnar hf. farið vaxandi, mjög vaxandi upp á síðkastið. Viðskiptasamningar hafa t.d. þegar verið gerðir við nokkur innlend og erlend fyrirtæki. Mikill áhugi ríkir hjá erlendum fyrirtækjum á heilsuvörum frá fyrirtækinu, svo sem heilsusalti og kísl sem húðáburði.

Uppbygging Sjóefnavinnslunnar hf. er í fullu samræmi við markmið núverandi og fyrrverandi ríkisstjórna um áframhaldandi uppbyggingu orkufreks iðnaðar hérlendis. Sú þekking og reynsla sem fæst við rekstur Sjóefnavinnslunnar hf. er nauðsynleg ef nýta á jarðhita í auknum mæli til iðnaðar og mun nýtast hvar sem er á landinu. Líta verður á þátttöku ríkissjóðs í Sjóefnavinnslunni í þessu ljósi.

Enn hafa ekki komið fram einkaaðilar sem sækjast eftir að leysa ríkissjóð af hólmi í félaginu og halda áfram því mikilvæga þróunarstarfi sem þar er unnið. Kæmu þeir aðilar fram sem byðust til þess að losa ríkissjóð út úr Sjóefnavinnslunni hf. með viðunandi hætti væri ekkert því til fyrirstöðu að kanna þann möguleika að semja við þá sömu aðila um áframhaldandi framleiðslu til að auka möguleika á að fullvinna þá vöru sem þar er unnin, í fullri alvöru.

Virðulegi forseti. Vegna þess að nýtt umræðuefni kom upp í framsögu fyrirspyrjanda tek ég fram að það er ærið efni í umræðu út af fyrir sig hvernig Sjóefnavinnslan hefur reynt að ná samkomulagi við umrætt fyrirtæki, kolsýruverksmiðjuna Eim hf., og hvernig þær umræður hafa farið fram og þeim hefur lokið með því að annað íslenskt fyrirtæki tók í staðinn umboð fyrir kolsýru sem framleidd er af Sjóefnavinnslunni og er talin mjög góð vara.