11.11.1986
Sameinað þing: 14. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 732 í B-deild Alþingistíðinda. (590)

45. mál, umsóknir um húsnæðislán

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Sem svar við þessari fsp. á þskj. 45 vil ég upplýsa að frá 1. sept. s.l. til októberloka hafa borist um 3100 nýjar umsóknir til Húsnæðisstofnunarinnar, þar af um 2400 umsóknir um lán til kaupa á eldra húsnæði. Umsóknir frá þeim sem óskuðu eftir flutningi úr gamla kerfinu í nýja kerfið eru ekki taldar með. Því miður er ekki búið að slá nema tæplega 80% af þessum umsóknum inn í tölvu stofnunarinnar og er eftirfarandi skipting milli kjördæma samkvæmt því. Skiptingin miðast við lögheimili umsækjenda: Reykjavík 1091 umsókn, þ.e. 45,3% af umsóknum, Reykjanes 387 umsóknir, 16,1%, Vesturland 197 umsóknir, 8,2%, Vestfirðir 130 umsóknir, 5,4%, Norðurland vestra 76 umsóknir, 3,1%, Norðurland eystra 296 umsóknir, 12,3%, Austurland 93 umsóknir, 3,8% og Suðurland 141 umsókn, 5,8%, þ.e. samtals 2411 sem búið er að slá inn og þetta er hlutfallið. Að sjálfsögðu segja þessar upplýsingar ekkert um hvort allar þessar umsóknir hafa lánsrétt, en það mun líða ca. vika eftir upplýsingum frá stofnuninni þangað til allar þessar umsóknir hafa verið tölvusettar og jafnhliða er unnið að upplýsingum um lánsrétt þessara umsókna.