11.11.1986
Sameinað þing: 14. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í B-deild Alþingistíðinda. (601)

56. mál, lánveitingar Húsnæðisstofnunar ríkisins

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég vil einungis að það komi fram að ég er ekki sammála ráðherra um að í verkamannabústaðakerfinu finnum við kosti kaupleigukerfisins vegna þess að í kaupleigufyrirkomulagi getur fólk valið um kaup og leigu á íbúðum. Það virðist vera mjög brýn þörf á því eins og fram kemur í svörum ráðherra þegar þörfin er upp undir 3000 íbúðir á næstu árum fyrir leiguhúsnæði. Sveitarfélögin verða heldur betur að taka sig á og þá í samvinnu við ríkisvald í þessu efni vegna þess að á s.l. 5–6 árum hafa verið byggðar á vegum sveitarfélaganna eingöngu 67 íbúðir. Á árinu 1983 voru það eingöngu þrjár íbúðir, á árinu 1984 átta íbúðir og á árinu 1985 ein íbúð. Ég vek athygli á þessum tölum þegar upplýsingar liggja fyrir um að nauðsyn er á að sveitarfélög og ríkisvaldið taki sig á í þessu efni.