11.11.1986
Sameinað þing: 14. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í B-deild Alþingistíðinda. (610)

59. mál, húsnæðissparnaðarreikningar

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég finn að því að þetta mál skuli tekið fyrir án þess að hæstv. fjmrh. sé viðstaddur og jafnframt finn ég að því að þessari fsp. skuli beint til hæstv. félmrh. en ekki hæstv. fjmrh. Húsnæðissparnaðarreikningarnir heyra undir fjmrn. og það frv. sem hér um ræðir var á sínum tíma flutt af hæstv. fjmrh. Ég biðst afsökunar á því að hafa ekki veitt þessu athygli fyrr, en það er enginn vafi á því að sú meðferð sem þessi fsp. fær er ekki í samræmi við þær venjur, sem mótast hafa, að hv. þm. beini fsp. sínum til þess ráðherra sem fer með þann málaflokk sem varðar fsp. hverju sinni. Það er að vísu svo að þessi hv. þm. hefur verið frjálslegur í þessum efnum. Þess vegna er rétt eftirleiðis, herra forseti, að hafa gát á því til hvaða ráðherra hv. þm. beinir fsp. sínum.

Ég vil jafnframt segja það, herra forseti, að efnislega er hæpið að þessi fsp. sé þingleg þar sem efni hennar er í stuttu máli að beina því til hæstv. félmrh. hvort hann og hæstv. fjmrh. hafi komið sér saman um að hafa annan hátt á um framkvæmd laga um húsnæðissparnaðarreikninga en kveðið er á um efnislega í lögunum sjálfum. Það er alveg ljóst og ég hef sagt það áður hér á Alþingi að þeir menn sem sömdu frv. um húsnæðissparnaðarreikninga höfðu einungis í huga að um eigin íbúðir væri að ræða, annaðhvort kaup á íbúðum ellegar um meiri háttar endurbætur að ræða og þá skyldi féð vera laust. Ég vil þess vegna fagna því að þessi hv. þm. skuli í lok máls síns hafa komist að þeirri niðurstöðu að eðlilegast væri fyrir alþm. að flytja frv. til l. um breytingar á lögum ef hann vill breyta efnisatriðum laganna fremur en hitt að spyrja einstaka ráðherra að því hvað þeim finnist um lögin.

Þetta vil ég að fram komi en, herra forseti, eins og háttað er fyrirspurnatímum, eins knappir og þeir eru, gefst ekki tími til efnislegra umræðna að þessu sinni og ég vil ekki misnota heimildir þingsins til umræðna um þingsköp með því að fara inn í efnisatriði þessa máls.