11.11.1986
Sameinað þing: 14. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 745 í B-deild Alþingistíðinda. (615)

59. mál, húsnæðissparnaðarreikningar

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vek athygli á því efnislega í sambandi við húsnæðissparnaðarreikninga að vilji hv. fyrirspyrjanda er sá að mjög verði rýmkaðar heimildir til að veita skattaívilnanir í sambandi við bankareikninga, en við sjáum fljótt til hvers það mundi leiða ef sá háttur yrði almennt tekinn upp. Það er augljóst að ef markmiðið er að rýmka þessar heimildir mjög verulega verður að mæta því með því að draga úr þeirri ávöxtun sem er á reikningunum til að koma í veg fyrir mjög víðtæka misnotkun þeirra. Ég vek athygli á þessu en blanda mér að öðru leyti ekki í þessar umræður.