15.10.1986
Neðri deild: 3. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í B-deild Alþingistíðinda. (62)

18. mál, kosningar til Alþingis

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er athyglisvert að hv. 2. þm. Reykv. leggur á það áherslu að orðið hafi samkomulag um fyrirkomulag sveitarstjórnarkosninganna og vill ekki rjúfa það, en er hins vegar bersýnilega að búa sig undir að rjúfa samkomulagið í sambandi við fyrirkomulag alþingiskosninganna. Mér finnst lítið samræmi í þessum málflutningi og ég er þeirrar skoðunar að eðlilegt sé að sama reglan gildi bæði í alþingiskosningum og í sveitarstjórnarkosningum. Það er að öllu leyti heppilegast.

Varðandi stjórnarskrárnefndina sem hér var nefnd, þá vil ég ítreka að hún hefur auk stjórnarskrárbreytinga fjallað um hugmyndir um persónukjör og mér er ekki kunnugt um að hún hafi fellt þær athuganir sínar niður. Ég held að það sé óhjákvæmilegt, eins og ég reyndar ræddi í neðrideildarnefndinni í hitteðfyrra þegar ég sat í þessari nefnd, að það verði kannað hvað stjórnarskrárnefndin er að gera í þessu efni þannig að ekki sé um að ræða tvíverknað og margverknað og ætti ekki að vera ofverk manna að reyna að stilla sig saman í þeim efnum.

Nýju lögin hafa bersýnilega haft mikil áhrif nú þegar, nýju kosningalögin. Þau hafa haft þau áhrif að flytja til frambjóðendur úr tveimur kjördæmum, Norðurlandi vestra og Vestfjörðum. Forsenda þess að hæstv. forsrh. Steingrímur Hermannsson fær köllun er sú að það er búið að breyta kosningalögunum. Það er athyglisvert að daginn eftir að forsrh. tilkynnir þetta skuli formaður þingflokks Framsfl. vilja koma í bak formanni sínum og snúa þessu skyndilega við eins og hér er verið að ræða um.

Ég vil nálgast þessi mál með opnum hug og leggja áherslu á tvennt:

Í fyrsta lagi að það verði reynt að stuðla að víðtæku samkomulagi vegna þess að málið er flókið og vegna þess að það skiptir miklu máli fyrir þjóðina að um mál af þessu tagi sé sem víðtækast samkomulag.

Í öðru lagi hef ég lýst því hér yfir, sem hefur verið afstaða okkar Alþýðubandalagsmanna í þessu máli alveg frá upphafi, að við værum tilbúin að taka upp oddatöluregluna sem er mikið einfaldari en sú regla sem er í gildandi kosningalögum. Og spurning mín áðan var sú hvort menn vilja taka upp málið á þeim grundvelli að láta þingið takast á um hvort á að gilda, oddatölureglan eða d'Hondt-reglan eins og hv. þm. Friðrik Sophusson nefndi áðan.

Ég vil svo endurtaka það, sem hér hefur verið sagt af öðrum ræðumönnum, að ef þetta verður ekki búið fyrir jól, ef ákvarðanir hafa ekki verið teknar um breytingar fyrir jól á þessum málum umfram það sem liggur fyrir í þessu frv., eiga menn að gera það upp við sig að það verður kosið eftir gildandi kerfi og þá á að fara í þá kynningarstarfsemi á vegum dómsmrn. sem er óhjákvæmileg í þessu efni. Við eigum hins vegar ekki að gefa mönnum allt of miklar hugmyndir um það að mínu mati á þessu stigi málsins að þessu verði breytt. Ég hef engar tillögur heyrt um breytingar á þessu kosningalagakerfi sem ætla má að geti sameinað verulegan meiri hluta í þinginu. Ég hef engar slíkar tillögur heyrt og mér finnst langlíklegast að það endi með því að menn kjósi eftir gildandi kosningalögum. En það er sjálfsagt að kanna aðra hluti og á þeim forsendum munum við í þingflokki Alþb. kjósa okkar fulltrúa í þær nefndir sem um þessi mál fjalla.