11.11.1986
Sameinað þing: 14. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í B-deild Alþingistíðinda. (632)

134. mál, búseta í heimabyggð

Fyrirspyrjandi (Guðni Ágústsson):

Herra forseti. Af augljósum ástæðum beinir fyrirspyrjandi fsp. sinni til hæstv. forsrh. sem forustumanns ríkisstjórnarinnar.

Hæstv. forsrh. Árið 1965 vann Félagsvísindastofnun Háskólans merka athugun fyrir Húsnæðisstofnun ríkisins og félmrn. Þar kom fram mjög eindreginn vilji ungs fólks að búa í heimabyggð sinni sé þess kostur og fengi þetta unga fólk starf við sitt hæfi. Þetta er staðfest á bls. 25 í umræddri skýrslu.

Á síðasta þingi var unnin gagnmerk skýrsla á vegum byggðanefndar þingflokkanna um þróun byggðar, atvinnulífs og stjórnkerfis. Þar kom fram að að mati nefndarinnar eru nú þáttaskil í byggðaþróun. Helstu rök voru þau m.a. að ný störf, sem til verða í atvinnulífinu, eru yfirgnæfandi á sviði þjónustugreina sem vaxa nú mest á höfuðborgarsvæðinu.

Byggðaflóttinn á sér margar orsakir, en allir hugsandi menn sjá að slíkt gengur ekki til lengdar. Því er ekki óeðlilegt þótt spurt sé eftir viðbrögðum ríkisstjórnar þegar neyðaróp berst frá ungu fólki í gegnum víðtæka könnun. Reykjavík er öflug höfuðborg og á að vera það, en það fer að dofna yfir þjóðríkinu ef fólkið sogast á þennan eina stað landsins.

Jöfn þróun í byggð landsins er þjóðhagslega mikilvæg, framför landsins alls. Það er mikilvægt að greina ástæður byggðaflóttans og hefja aðgerðir sem treysti afkomu fólks úti á landsbyggðinni. Hætt er við að skipta verði verkefninu í tvennt, í langtímamarkmið og bráðabirgðaúrlausnir. Langtímamarkmiðin mundu snúast um að færa þjónustuna til fólksins úti á landsbyggðinni og ætla má að þriðja stjórnsýslustigið mundi leysa stóran vanda. Bráðabirgðaúrlausnir ættu að snúast um það að jafna þegar ýmsa þætti sem skapa flóttann í dag, svo sem það að úti á landsbyggðinni eru laun lægri, orkukostnaður meiri, svo og skortir fjölbreyttara atvinnulíf og víða þarf að efla skóla og ýmsa öryggisþætti mannlífsins.

Hæstv. forsrh. Ég þarf ekki að lýsa þessari þróun hér. Hitt er svo ljóst að haldi þessi þróun áfram, sem allt bendir til verði ekki snúist til varnar af fullri einurð, mun íslenska þjóðin stefna inn í krappari lífskjör á næstu árum.

Ég treysti velvilja og framsýni ríkisstjórnarinnar og vænti þess að þegar hafi ríkisstjórnin einhverjar áætlanir um aðgerðir í þessu mikla hagsmunamáli unga fólksins að fá að lifa og starfa þar sem lífsrótin óx úr grasi.