11.11.1986
Sameinað þing: 15. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í B-deild Alþingistíðinda. (638)

Skemmdarverk á eignum Hvals hf.

Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda gegni ég störfum dómsmrh. Kom því í minn hlut að óska eftir ítarlegri skýrslu um allan gang málsins og þá skýrslu fékk ég í morgun. Þá þegar, er ég óskaði eftir þeirri skýrslu í gærmorgun, fól ég dómsmrn. að undirbúa nauðsynlega málshöfðun eða málskot til þeirra þjóða sem kynni að þurfa að leita til. Þetta var aftur rætt í ríkisstjórninni í morgun og ég ítrekaði þau fyrirmæli til dómsmrn. að allra nauðsynlegra gagna verði þegar aflað svo að unnt sé að leita til þeirra þjóða sem hér eiga hlut að máli um framsal sakamannanna.

Að vísu vil ég geta þess að mér er tjáð að það sé mjög óalgengt eða a.m.k. geti tekið mjög langan tíma að fá menn framselda frá ýmsum löndum og þá kunni fremur að vera um það að ræða að þeir verði dregnir þar fyrir dóm, enda kom þetta fram í ræðu hv. þm. En þetta verður gert og það er unnið ötullega að því að hafa málið vel undirbúið og sem allra fyrst þannig að unnt sé að fara með þetta til annarra þjóða.

Svo er rétt, sem hv. þm. sagði, að þetta vekur okkur til umhugsunar um eigin öryggismál. Svo vill til að ríkisstjórnin hefur skipað nefnd sem er einmitt að skoða þessi mál. Í þeirri nefnd eru tveir menn frá dómsmrn., tveir frá utanrrn. og ég skipa formann nefndarinnar. Er það Baldur Möller fyrrv. ráðuneytisstjóri. Sú nefnd vinnur nú að þessum málum og hefur fengið m.a. til meðferðar, sem hún reyndar var með á sinni dagskrá. að skoða hvernig fylgst yrði með erlendum mönnum hér á landi.

Ég held að ég megi segja að útlendingaeftirlitið hefur gert það vel eins langt og það hefur náð og hefur það þá verið bundið við þær upplýsingar sem útlendingaeftirlitið hefur fengið frá alþjóðalögreglunni Interpol eða öðrum lögregluyfirvöldum sem útlendingaeftirlitið hefur samband við.

Það er alveg hárrétt, sem kom fram, að það er mikið umhugsunarefni hvernig þessir menn gátu verið hér á landi frá 15. okt. án þess að vera grunaðir. Það var fullvitað um þeirra dvöl hér. Útlendingaeftirlitið hafði fylgst með þeim af öðrum ástæðum. En engar upplýsingar sem lágu fyrir gáfu ástæðu til að ætla að hér væru spellvirkjar á ferð. Þarna er ljóst að bæta þarf á einhvern máta það eftirlit sem nauðsynlegt er. Við erum ekki lausir við slíka hryðjuverkamenn, því miður. Þetta verður jafnframt tekið til mjög alvarlegrar athugunar.