11.11.1986
Sameinað þing: 15. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í B-deild Alþingistíðinda. (640)

Skemmdarverk á eignum Hvals hf.

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Við Íslendingar höfum fram að þessu talið að við stæðum ekki í þeim stórræðum á alþjóðavettvangi sem settu okkur í miðpunkt spellvirkja eða hryðjuverka af því tagi sem við höfum séð hér undanfarið. Við höfum líka talið að fjarlægðin yrði okkur til verndar í þeim efnum en við höfum nú séð að svo er ekki. Við stöndum í stórræðum á alþjóðavettvangi augsýnilega vegna vísindaveiða okkar og það er augljóst að við njótum ekki verndar vegna fjarlægðar frá orustuvöllum hinna daglegu mótmælaaðgerða og hryðjuverka sem við sjáum í fréttamyndum frá útlöndum.

Ég vil ekki segja neitt að svo stöddu um frammistöðu íslenskra yfirvalda í þessu máli. Hæstv. forsrh. lýsti því áðan að eins og málið stæði fyrir núna og með þeim skamma tíma sem menn hefðu haft til að skoða það væri ekkert sem benti til að þar hefðu menn staðið slælega að verki.

Hér eru náttúrlega á ferðinni viss sérkenni hins opna og sakleysislega samfélags sem við viljum öll varðveita. En mér sýnist að þar sem við erum komin í beina snertingu við þessi efni hljótum við að athuga alla þætti þessa máls, t.d. möguleika á því að það verði gripið til einhverra aðgerða gegn íslenskum fyrirtækjum eða eignum erlendis. Ef við lítum á í hvaða spor svona mál fara gjarnan er það ekkert ólíklegt að slíkt geti gerst. Ég tek undir að það verði reynt eins og hægt er að láta lög ná yfir menn sem sækja mál á þennan hátt og athugaðir verði allir alþjóðasamningar sem til þess gætu leitt.

Ég vil aðeins að lokum víkja að umræðum sem nú koma upp um innra öryggi. Ég held, eins og hv. síðasti ræðumaður vék að, að við ættum að fara þar varlega. Það sem skiptir máli í þessu sambandi sýnist mér vera, í fyrsta lagi varðandi þetta mál Hvals hf., að öryggiskerfi fyrirtækisins hefur augljóslega verið ónýtt. Það er ein hliðin. Þannig að fyrirtæki sem eru í þessum bransa — ef við getum sagt svo — hljóta náttúrlega að verða að gæta hagsmuna sinna sjálf. Í öðru lagi er mjög brýnt að við gerumst aðilar að alþjóðlegum Upplýsinga- eða aðvörunarkerfum um hryðjuverkastarf og hryðjuverkamenn þannig að við getum takmarkað aðgang þeirra. En við skulum fara með gát þegar við komum að þeim málum sem varða umgang og ferli okkar og gesta okkar um þetta land þannig að við, eins og ég segi, getum áfram varðveitt sérkenni þessa opna og oft og tíðum sakleysislega samfélags.