11.11.1986
Sameinað þing: 15. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í B-deild Alþingistíðinda. (646)

65. mál, réttur launafólks til námsleyfa

Þórður Skúlason:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs hér um þessa þáltill. um rétt launafólks til námsleyfa af sérstaklega gefnu tilefni. Málið er þannig vaxið að er ég var að leggja af stað til Reykjavíkur til að taka setu hér á hinu virðulega Alþingi hitti ég ungan mann og er hann vissi af för minni og erindi hingað suður bað hann mig endilega að leggja einu máli lið er hann hafði sérstakan áhuga á og hafði lesið um í dagblöðum. Og það er einmitt það mál sem hér er til umfjöllunar nú.

Þessi ungi maður, sem nú er á fertugsaldri, lagði ekki stund á framhaldsmenntun að grunnskólanámi loknu. Hugur hans stefndi annað þá eins og raunar var títt um unglinga í sjávarplássum þar sem fátt var um langskólagengið fólk og skólar mun vanbúnari og minna hvetjandi en nú er. Enn þarf þar þó auðvitað margt að bæta í þeim efnum, en það er raunar önnur saga. Eins og margir aðrir fór þessi ungi maður því að barnaskólanámi loknu beint út í atvinnulífið og hefur síðan lagt gjörva hönd að ýmsum hlutum. Nú á fertugs aldri finnur hann hins vegar hjá sér sérstaka hvöt til þess að afla sér meiri menntunar, bæði til að auka þekkingu sína og einnig til að vera betur samkeppnisfær á vinnumarkaði sem gerir sífellt strangari kröfur um menntun.

Ég rek þetta tiltekna dæmi hér vegna þess að ég tel að það eigi sér margar hliðstæður. Í þessu tiltekna dæmi eru aðstæður þó þannig að vinnuveitandi hefur reynt að liðka til og auðvelda starfsmanninum að afla sér frekari menntunar, sem er þó engin skylda og raunar falið í vald oft duttlungafullra atvinnurekenda. Kjörum launamanna á þessu reki, sem mesta löngun og þörf hafa til endurmenntunar, er hins vegar þannig háttað að tæpast er um það að ræða að taka sér löng frí til náms. Flestir hafa stofnað til skulda vegna heimilisstofnunar og húsbygginga og þurfa auk þess að sjá fyrir misjafnlega þurftarfrekum heimilisrekstri. Margir hafa því lagt verulega hart að sér til að afla sér aukinnar menntunar á fullorðinsárum, bæði af námslöngun og þó ekki síst vegna kröfunnar um aukna menntun. Í því sambandi nægir að vitna til allra námskeiðanna í vélstjórnar- og skipstjórnarfræðslu sem haldin hafa verið og fjöldi manna hefur sótt, oft um langan veg og með ærnum kostnaði. En hinir eru líka fjölmargir sem engan kost eiga á að afla sér endurmenntunar hversu hátt sem löngun þeirra og þörf fyrir aukna menntun rís. Þar geta staðið í veginum annaðhvort eða bæði afstaða og aðstæður vinnuveitenda og efnahagslegar aðstæður viðkomandi starfsmanna.

Í þeirri till. sem hér er til umræðu er bent á leiðir til lausnar með lögbindingu námsleyfa og stofnun endurmenntunarsjóðs. Því vona ég að till. fái jákvæða og greiða afgreiðslu hér í þinginu.

Herra forseti. Í tengslum við þessa umræðu get ég þó ekki látið hjá líða að benda á smánarlega lítinn stuðning ríkisins við fullorðinsfræðslu. Hann er það naumur nú um þessar mundir að sveitarfélög, sem mörg hver reka fullorðinsfræðsluna við ófullkomnar og erfiðar aðstæður og þröngan efnahag, telja ekki taka því að sækja um fé úr ríkissjóði til þessarar fullorðinsfræðslu.