11.11.1986
Sameinað þing: 15. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 771 í B-deild Alþingistíðinda. (657)

93. mál, hagkvæmni útboða

Flm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 94 hef ég leyft mér að flytja till. til þál. um könnun á hagkvæmni útboða og nánari reglur um framkvæmd þeirra. Ásamt með mér flytja þessa till. hv. þm. Jón Kristjánsson, Skúli Alexandersson, Karvel Pálmason, Steingrímur J. Sigfússon og Davíð Aðalsteinsson. Tillgr. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að gera ítarlega könnun á hagkvæmni útboða og því hvort aðrar leiðir séu heppilegri og æskilegri fyrir byggðarlög og þjóðarheild. Sérstaklega verði athuguð áhrif útboða á byggðaþróun í landinu og samhliða heildarhagkvæmni þeirra verði litið til röskunar á rekstri ýmiss konar þjónustu á landsbyggðinni.

Settar verði nánari og skýrari reglur um útboð á vegum hins opinbera og framkvæmd þeirra á þann veg að smærri verktakar á einstökum svæðum og aðilar heima í héraði hafi sem mesta möguleika á því að taka að sér verkefni í nágrenni sínu. Jafnframt verði undirbúnar reglur sem koma í veg fyrir að einstakir aðilar geti einokað verktakastarfsemina.“

Till. þessi hefur verið flutt líklega í tvígang hér á Alþingi og um tilgang hennar þarf ég ekki að hafa mörg orð. Ég held að hér sé farið fram á hlutlausa úttekt þar sem litið er til allra þátta og ég satt að segja furða mig á því að við skulum ekki háfa getað fengið þessa till. samþykkta, alveg sérstaklega í ljósi þess að þeir, sem helst trúa á það að útboð sé í raun og veru eina leiðin og það sem að eigi að stefna á í sem allra ríkustum mæli, ættu raunverulega að fagna þessari till. og tryggja framgang hennar til þess einmitt að sanna sitt mál um allsherjargildi útboðanna fyrir bæði byggðarlögin í landinu, landsbyggðina, og auðvitað fyrir verkin sjálf sem verið er að vinna og boðin eru út.

Ég held hins vegar að áhyggjuefni gagnvart þessu máli séu næg, þeirra sem ekki hafa þá bundist ofurtrú á það að útboð eigi alltaf og ævinlega að gilda. Það skal tekið fram af hálfu okkar flm. mjög glögglega að við teljum útboð í mörgum greinum eiga fullan rétt á sér. Hitt segjum við svo að það að fylgja útboðastefnu í öllum greinum fram, svo sem verið hefur, er vitanlega ranghverfa þess að fylgja heilbrigðri stefnu í þessum efnum. Ég ætla ekki að minna á mörg þessara áhyggjuefna nú en aðeins að tæpa á því helsta, enda langt liðið á fundartíma.

Í fyrsta lagi hef ég áhyggjur af heimaaðilum sem eiga þjónustutæki þar, þar sem opinberu verkefnin eru viss kjölfesta, í raun og veru sú kjölfesta sem dugir þeim til þess að eiga og halda þessum tækjum til annarrar þjónustu í sinni heimabyggð. Ég held að það sé nauðsyn hvers meðalstórs byggðarlags að búa allvel að vinnuvélum og vörubifreiðum. Það má vitanlega deila um það í hversu ríkum mæli, en alla vega einhverja lágmarksþörf, lágmarksþörf sem ég hygg að verði ekki séð fyrir á næstu árum ef við fylgjum þessari stefnu jafnhart eftir og við höfum gert. Auðvitað segja menn: Af hverju bindast heimaaðilar ekki samtökum um það að bjóða í verkin? Og vissulega má deila á það hvað heimaaðilar hafa verið allt um of sundraðir. En sannleikurinn er hins vegar sá að þeir hafa hreinlega ekki mátt við þeim sterkari og betur búnu. Og ég bendi á það, sem ég held að þurfi nú ekki að koma neinum á óvart, að t.d. virkjanagerðin á Þjórsár-Tungnaársvæðinu er búin að færa verktökum á því svæði í hendur ekki bara þekkingu við framkvæmd verkanna, heldur í raun og veru ekki síður tækin sjálf til eignar, fullkomnari og betri tæki en heimaaðilar yfirleitt geta verið með. Og meðan þessi virkjanagerð var og þessar virkjanir voru í fullum gangi, þá var það auðvitað staðreynd að þessir stóru aðilar nýttu ákveðinn dauðan tíma í framkvæmdum þar til þess að hlaupa í verk út um allt land og kippa þeim frá heimamönnum með undirboðum. Og þá kem ég að undirboðunum.

Ég hef engar smááhyggjur af því hvert undirboðin hafa leitt. Þar hafa hinir verr settu og verr búnu farið þá leið til þess að tryggja sér einhver verkefni að bjóða allt of lágt í verk og niðurstaðan sem við höfum t.d. fyrir okkur eystra og við þekkjum vel hér í þessum sal, bæði hv. 4. þm. Austurl. og hv. 11. landsk. þm., við þekkjum það þaðan að þar eru dæmi um hreina gjaldþrota verktaka allt of víða um svæðið af þeim ástæðum að þeir hafa verið að reyna að berjast fyrir lífi sínu með því að bjóða allt of lágt í verkin. Jafnvel heilt ræktunarsamband, sem ætlaði að bjarga sér á þessum hlutum með undirboði, varð að lúta þessu hlutskipti.

Síðan kemur það til einnig að þeir verktakar sem eru svona illa settir skilja eftir hálfköruð verk. Ég var að líta á eitt þeirra nú á mínum heimaslóðum um daginn, ég veit ekki hvort þar er um gjaldþrota verktaka að ræða, vonandi er það nú ekki, þar sem verktakar hafa tekið að sér verk sem þeir ljúka ekki fyrir veturinn og hindra þar af leiðandi nauðsynlega og eðlilega framkvæmd næsta vor. Það er dapurlegt á að horfa og það er einfaldlega vegna þess að þeir fóru í undirboð tækjalitlir eða tækjalausir. Þarna var um aðkomumenn að ræða sem menn treystu fram yfir heimamenn. Síðan er það að þessir verktakar hlaupa oft frá skuldahala heima í héruðunum. Ég ætla ekkert að fara að rekja einstök dæmi í sambandi við það en ég þekki mörg dæmi þess að austan að vinnuvélaeigendur þar hafa farið inn í þessi verk, vörubílstjórar hafa farið inn í þessi verk. Gistihús þar, hótel og greiðastaðir, hafa setið uppi með ógreidda reikninga og annað eftir því og á þessu vitum við t.d. að Vegagerð ríkisins, sem á sérstaklega hér hlut að máli, ber enga ábyrgð. Það er verktakinn sem ber ábyrgð sem er svo orðinn gjaldþrota og ekki er hægt að sækja neinn hlut til.

Af hverju gera menn þetta? Ég hef stundum undrast það hvað menn eru djarfir í þessu. Ég þekki dæmi um það að austan í vor að heimaaðili var orðinn svo hvekktur á þessum boðum að hann ætlaði að reyna að bjarga sér á verki og bauð í það 55% af kostnaðarverði. Guði sé lof fyrir, þá fékk hann ekki verkið. Hann fékk ekki verkið. En það vildi svo einkennilega til að það kom nokkuð öflugur aðili norðan úr landi og tók þetta verk að sér og bauð 91%, þannig að þessi heimaaðili hefði ekki þurft að vera nema í 90% , ef allt hefði verið réttilega metið, til þess að fá verkið. Undarlegustu hlutir koma því upp. Og hvað verður svo þegar fáir stórir aðilar sitja eftir einir að þessum verkefnum? Þegar Vegagerð ríkisins er búin að selja tæki sín, eins og hún hefur gert í mjög ríkum mæli að undanförnu, og situr uppi með bæði fá og slæm tæki í mörgum tilfellum. Þá snúast nú hlutirnir heldur betur við. Ég veit um dæmi þess að þegar Vegagerð ríkisins hefur selt sín mölunartæki þá hefur næsta útboð á mölun efnis ekki verið undir kostnaðaráætlun heldur yfir eða upp í 115%, um leið og Vegagerðin var búin að selja tækin sín. Og um daginn sá ég ekki betur en að þá væri klæðningardæmi eitthvað af svipaðri stærðargráðu. Ég er hræddur um það að þegar búið verður að ganga frá öllum þessum illa búnu verktökum, sem hafa verið að undirbjóða í þessi verk, þá komi upp einokunaraðstaða eða einhvers konar skiptaregla sem þessir stóru verktakar hafi.

Hvernig ætlar svo Vegagerð ríkisins að fara að þegar um ósköp venjuleg viðhaldsverkefni verður að ræða, aðkallandi vegna ýmissa atvika, við skulum t.d. segja bara náttúruhamfara, skriðufalla, snjóflóða eða einhvers slíks, og Vegagerðin stendur uppi tækjalaus og heimamenn eru vanbúnir eða hættir jafnvel að eiga þessi tæki? Ég hef oft spurt Vegagerðina: Hvað ætlið þið að gera og þeir hrista bara höfuðið, sælir í sinni útboðstrú og segjast hafa um þetta fyrirskipun ofan úr samgönguráðuneyti og það þýði ekkert að vera að sakast um við þá, þeir eigi að bjóða allt út sem boðið verður út hvort sem það er hagkvæmt eða ekki.

Ég hef stundum sagt að það séu ekki öll kurl komin til grafar þó komnar séu ákveðnar prósentur í þessi verk í upphafi, það sé uppgjörið sjálft í lokin sem gildir, og ég er hræddur um, ég fullyrði það nú ekki vegna þess að ég hef ekki um það svo skýr dæmi en ég er hræddur um það, þó ég segi ekki neitt meira, að uppgjörstölurnar fyrir þessi verk séu æði oft ólík kostnaðartölunni eða þeim kostnaðarprósentum sem gefin eru upp í upphafi.

Ég gæti haft um þetta langt mál vegna þess að ég veit svo dapurleg dæmi þess arna þar sem þetta hefur leitt í ógöngur. Og mér þykir þetta alveg sérlega leiðinlegt gagnvart Vegagerð ríkisins vegna þess að Vegagerð ríkisins segir: Við græðum svo mikið á útboðunum. Síðan þegar við komum að því að fara ofan í vegáætlun ársins eftir og ég spyr þá hjá Vegagerðinni: Heyrðu, nú komið þið með gróðann sem við höfðum af útboðunum og sýnið okkur hvað við getum lagt langa vegi fyrir þetta á næsta ári. Þá er þessi peningur bara horfinn allt í einu og við fáum hvergi að sjá hann. Og þá segja þeir hjá Vegagerðinni gjarnan, þeir ágætu menn vegna þess að þar er mjög mikið af góðum mönnum: Ja, það var nú gert meira, þessi útboð hafa orðið til þess að það hefur verið gert meira í vegunum en reiknað var með. Eins og það hafi ekki gerst hjá Vegagerð ríkisins margsinnis áður! Það er alveg undarlegt að ein ríkisstofnun skuli lýsa yfir slíku vantrausti á sjálfa sig og Vegagerð ríkisins gerir með þessum hætti vegna þess að í óteljandi tilvikum hefur Vegagerðin unnið sín verk á þann hagkvæma máta að út úr þeim hefur komið miklu meira en menn reiknuðu með í upphafi. Um það veit ég fjölmörg dæmi af Austurlandi og ég hygg að allir menn geti nefnt dæmi úr kjördæmum sínum af því tagi. Þannig að það er ekkert nýtt að lagðir séu lengri vegir en áætlað var í upphafi fyrir sömu upphæðina.

Ég held þess vegna að það þurfi virkilega að líta á þessi útboð öll og þá hjá Vegagerðinni alveg sérstaklega. Ég heyri það greinilega á hverjum staðnum á fætur öðrum á Austurlandi að ef menn komast ekkert inn í þessi verk og þau eru hrifsuð af þeim, þá treysta þeir sér ekki lengur til þess að eiga þessi tæki. Það eru ekki næg verkefni fyrir þessi tæki þeirra hvort sem það eru vörubifreiðar eða vinnuvélar, næg verkefni af öðru tagi á stöðunum. Auðvitað eiga þeir að búa sig sem best í stakk til þess að taka við þessu en það vita líka allir hvernig þetta kom yfir. Þetta kom sem sagt allt í einu, snöggt, á þann máta að menn voru hreinlega ekki tilbúnir, voru ekki búnir að búa sig í þann stakk sem þeir þurftu að gera heima fyrir til þess að keppa við þá betur búnu verktaka sem búnir voru að öðlast þekkingu og kunnáttu á verkum og eignast sín tæki skuldlaus, t.d. virkjanaaðilar hérna syðra.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð, herra forseti. Ég held að við eigum að skoða byggðasjónarmiðin í sambandi við þetta mjög rækilega og þjóðhagslega hagkvæmni líka. Útboð þar sem útboð eiga við, í stórum verkefnum, í vandasömum verkefnum þar sem þarf sérstaka tækni, sérstaka kunnáttu og sérstaklega góð tæki. En á öðrum stöðum á að reyna að finna aðrar og betri leiðir, þar sem heimamenn geta orðið sem virkastir þátttakendur og um leið eflt og bætt þjónustuna heima fyrir á öllum sviðum með betri tækjabúnaði en þeir hafa í dag, og að varast það að við endum í því að hafa hér fáa, sterka og stóra verktaka sem gína yfir þessum markaði og skipta honum bróðurlega á milli sín eins og hefur gerst í mörgum öðrum greinum. Það geta orðið mörg slys á þeirri vegferð. Til þess að hindra þau slys er þessi till. flutt og að lokinni þessari umræðu vil ég leggja til, herra forseti, að till. verði vísað til hv. allshn.