11.11.1986
Sameinað þing: 15. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 774 í B-deild Alþingistíðinda. (658)

93. mál, hagkvæmni útboða

Þórdís Bergsdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessa þáltill. sem hér er komin fram. Eins og stendur í niðurlagi grg. þá er þessi þáltill. komin sérstaklega fyrir þrýsting frá SSA og það er frá samgöngunefnd Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi. Ég á sæti í þeirri nefnd og við höfum fjallað nokkuð ítarlega um þetta mál og það er virkilega ekki ofsögum sagt, sem hv. flm. hefur sagt hér, að þetta er áhyggjuefni manna. Það eru margir sem eiga sína vörubíla sem væru búnir t.d. að selja þá ef þeir hefðu getað en það er ekki um það að ræða því þetta er sama vandamálið um allt land og verð hefur fallið á bílum og tækjum þess vegna.

En ég vil aðeins bæta við það sem hv. flm. sagði að það er fleira sem kemur til. Þegar menn hafa gefist upp í þessari atvinnugrein, og þeir eru nokkuð margir, þá þarf líka að hugsa fyrir verkefnum fyrir þetta fólk og ég held að það mætti taka inn í dæmið þegar þessi úttekt fer fram.