12.11.1986
Efri deild: 11. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 780 í B-deild Alþingistíðinda. (664)

119. mál, umferðarlög

Magnús H. Magnússon:

Hæstv. forseti. Þetta er yfirgripsmikið frv. Ég hef ekki haft tækifæri til að kynna mér það að nokkru marki en ég sé þó strax að margt er þar til mjög mikilla bóta frá núverandi lögum, enda kom það skýrt og greinilega fram í máli hæstv. ráðherra. Ýmislegt þarf þó að skoða betur eins og t.d. samræmingu milli starfa Bifreiðaeftirlits annars vegar og Vinnueftirlits hins vegar, m.a. eftirlit með farandvinnuvélum.

Þetta þinghald verður stutt. Ef ætlunin er að afgreiða málið fyrir þinglok, sem ég tel mjög æskilegt, þyrftu allsherjarnefndir beggja deilda að vinna saman að málinu og taka það strax fyrir. Það þyrfti að afgreiða málið frá þessari hv. deild fyrir miðjan des., ekki seinna, og taka það til 1. umr. í hv. Nd. fyrir þinghlé. Ég tel að samkomulag eigi að gera nú þegar milli stjórnar og stjórnarandstöðu um afgreiðslu málsins. Af hálfu Alþfl. er ekkert því til fyrirstöðu að slíkt samkomulag geti tekist.