12.11.1986
Efri deild: 11. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 783 í B-deild Alþingistíðinda. (666)

119. mál, umferðarlög

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð. Ég vildi aðeins koma hér upp til þess að taka undir þýðingu þess að þetta frv. fái góða og skjóta afgreiðslu í þessari hv. deild. Eins og hefur komið fram er búið að vinna talsvert verk sem ætti væntanlega að flýta fyrir því að afgreiðsla málsins þurfi ekki að taka svo ýkja langan tíma hér í hv. Ed.

Ég fagna því að inn í þetta frv. eru komin ýmis atriði sem þessi hv. deild, Ed., hefur fjallað um á undanförnum árum og ég hef ásamt fleiri hv. þm. flutt hér í deildinni eins og varðandi ljósatímann sem er skv. 32. gr. Sektarákvæði bílbelta verða væntanlega lögleidd með afgreiðslu þessa frv. og 18. gr. sem varðar skólabifreiðarnar, að tillit sé tekið til merktra skólabifreiða. Þetta er atriði sem var einnig í svokölluðu ljósafrumvarpi sem ég hef ásamt fleirum flutt á undanförnum þingum og við höfum afgreitt í gegnum deildina en hefur ætíð verið svæft í Nd.

Það er ljóst að einhverjar brtt. munu verða fluttar við frv. þegar það kemur úr nefnd sem jafnvel við sem höfum starfað í þessari undirbúningsnefnd munum standa að. Sjálf mun ég væntanlega flytja brtt. varðandi slysarannsóknarnefnd sem ekki er inni í frv. en það bíður þá afgreiðslu þegar það kemur til 2. umr.

Ég fagna því sem hæstv. dómsmrh. sagði um skráningu umferðarslysa og samræmingu á þeim þætti. Þetta er mál sem við höfum verið að vinna að því að fá í gegn, nokkrir aðilar sem hafa verið að vinna að þessum slysavarnamálum, sérstaklega varðandi umferðarslysin. Ég held að það væri nauðsynlegt, verði slík samræmd slysaskráning sett á laggirnar, að tekið verði inn í hana ekki bara lögreglan og slysadeildirnar, heldur einnig tryggingafélögin því að þau búa einnig yfir miklum upplýsingum sem væri gagnlegt að hafa allar á sama stað.

Meginmálið er sem sagt að þetta frv. fái afgreiðslu á þessu þingi. Ég er svo bjartsýn að halda að við þurfum ekki langan tíma í þessari hv. deild. Ef báðar nefndirnar fjalla saman um málið má vel vera að það flýti fyrir, ef allshn. Ed. telur sig þurfa að fara ítarlega í málið, nema hún gæti orðið sammála um að afgreiða það rösklega til Nd., þá gæti það jafnvel orðið enn þá skjótari afgreiðsla að koma frv. fljótar í gegnum þessa hv. deild. En þetta verður væntanlega athugað nánar og ekki skal ég hafa á móti því að það verði samstarf beggja nefndanna ef það tefur ekki málið í sjálfu sér.

Þó að það sé mikilvægt að frv. til umferðarlaga nái fram að ganga er það ekki nægjanlegt. Það þarf að gera átak í þessum efnum til að gjörbreyta hegðun Íslendinga í umferðinni, jafnt ökumanna sem gangandi vegfarenda, þannig að tillitssemi við aðra vegfarendur og kunnátta sem greiði fyrir umferð og auki umferðaröryggi verði sjálfsagður þáttur í daglegri hegðun. Og þessi ráðstefna, sem við sátum í morgun og hv. 2. þm. Austurl. minnti á, var vissulega mjög fróðleg og hefði verið gott fyrir fleiri að vera þar viðstaddir og hlusta á umræður sem þar fóru fram. Þar var mikið rætt t.d. um þann þátt sem snýr að skólunum, hlutverki skólanna varðandi umferðarfræðslu og slysahættuna sem börn eru í. Ég held að þetta hafi verið einn af þessum góðu og jákvæðu þáttum sem ýmsir aðilar í þjóðfélaginu vinna að varðandi umferðaröryggi og það ber vissulega að þakka.