12.11.1986
Efri deild: 11. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 795 í B-deild Alþingistíðinda. (676)

125. mál, opinber innkaup

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Einn megintilgangur þessa frv. er að samræma starfsaðferðir þær sem notaðar eru við opinber innkaup og að því leytinu til er þetta frv. tvímælalaust af hinu góða því að ég tel augljóst að með því móti megi ná fram mun meiri hagkvæmni í opinberum innkaupum heldur en nú er.

Tvennt hef ég þó við þetta frv. að athuga. Í fyrsta lagi er kveðið á um það í 6. gr. frv. að þeirri meginreglu skuli fylgja að bjóða út kaup á vörum og þjónustu til rekstrar og fjárfestingar. Ég tel óþarfa að binda það í lög að þessari aðferð skuli beitt við kaup á vörum og þjónustu. Það er fráleitt að binda hendur stofnunarinnar með þessum hætti vegna þess að hún verður að hafa svigrúm til að finna hagstæðustu leiðina hverju sinni og því engin ástæða til að kveða á um það í lagagrein að þessi aðferð skuli notuð öðrum fremur. Ég tel því að þessi kreddusetning sjálfstæðismanna eigi ekki heima í þessum lögum.

Ég vil líka minna á það að í því frv. sem hæstv. fjmrh. mælti fyrir hér áðan, 124. máli, sem er nátengt þessu máli, var ekki talin ástæða til að hafa þetta ákvæði inni og ég tel að hið sama gildi um það frv. sem hér er nú til umræðu.

Hitt atriðið sem ég hef við þetta frv. að athuga er að finna í 5. gr. frv. Mér líst ekki giska vel á síðustu setninguna í þeirri grein. Þar stendur: „Stofnunin ráðstafar eigum ríkisins sem ekki er lengur þörf fyrir.“ Eigur ríkisins eru margvíslegar. M.a. á ríkið ýmsar stofnanir, það á Ríkisútvarpið, það á sjúkrahús, það á hluti í atvinnufyrirtækjum um allt land og ekki líst mér býsna vel á það ef þessi stofnun ættar upp á sitt eindæmi að fara að ráðstafa þessum eignum eins og lagagreinin gæti hljóðað upp á óbreytt og án nánari skilgreiningar. Ég er því hrædd um að við verðum að finna einhverja aðra orðun á þessari setningu í greininni. Ég geri ekki að því skóna að hæstv. fjmrh. sé með þessu að afsala raðstöfunarrétti á eigum ríkisins til þessarar stjórnar. Ég tel að þetta hljóti að vera einhvers konar mistök.

Að lokum vil ég láta í ljós ánægju mína með það að forstjóri þessarar stofnunar skuli vera ráðinn til aðeins fjögurra ára í senn eins og fram kemur í 4. gr. Ég tel að tímabundnar ráðningar í stjórnsýslustöður hjá hinu opinbera séu af hinu góða og að það sé löngu tímabært að taka þá reglu upp sem meginreglu hjá hinu opinbera.