12.11.1986
Efri deild: 11. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í B-deild Alþingistíðinda. (678)

125. mál, opinber innkaup

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Hv. 11. þm. Reykv. vék hér að ákvæðum í 5. gr. frv. þar sem segir að stofnunin ráðstafi eignum ríkisins sem ekki er lengur þörf fyrir. Að sjálfsögðu er það svo að stofnunin ráðstafar engum eignum nema þeim sem ákvarðanir hafa verið teknar um að ríkið losi sig við. Hún hefur, eins og fram kemur í athugasemdum með frv., haft með að gera sölu á ýmsum eignum eins og bílum og fasteignum. En það eru auðvitað viðkomandi ráðuneyti sem taka ákvörðun þar um og fela Framkvæmdastofnuninni framkvæmd þessa verks og um það gilda nú ákveðnar reglur og þær verða auðvitað óbreyttar að þessum lögum samþykktum. Með þessu er ekki verið að fela Innkaupastofnuninni neitt vald heldur einungis að ákveða að hún annist framkvæmd þessara mála. Ákvörðunarvaldið liggur eftir sem áður hjá viðkomandi ráðuneytum eða Alþingi eftir því sem við á.

Að því er varðar þá umræðu sem hér hefur farið fram um útboð er ég þeirrar skoðunar að það sé eðlilegt og rétt að kveða á um að stofnunin skuli viðhafa útboð. Það tryggir að mestrar hagkvæmni sé gætt og eyðir líka óvissu um mat á því hvað hagkvæmast er í hverju falli ef um það eru ekki skýr ákvæði í lögum eða öðrum verklagsreglum hvernig að málum skuli staðið.

Það er nauðsynlegt, vegna þeirra ummæla sem fallið hafa í umræðunni, að árétta að í 6. gr. er sérstaklega tekið fram að hagkvæmasta boði skuli tekið miðað við verð, vörugæði, afgreiðslu og aðra skilmála. Með öðrum orðum það kemur alveg berum orðum fram í frumvarpsgreininni að það er hægt að setja hverja aðra þá skilmála sem stjórnvöld vilja setja til viðmiðunar í þessu efni og þar á meðal þau atriði sem hér hafa verið gerð að umræðuefni, þ.e. afstöðu til innlendrar framleiðslu og innlendrar þjónustu. Um það var gerð ákveðin samþykkt af núverandi ríkisstjórn og frá henni hefur ekki verið horfið. Ég tel eðlilegt að hafa þessi sjónarmið til viðmiðunar. Það verður á hinn bóginn auðvitað að gæta hófs í því efni. Það er ekki unnt að veita innlendum framleiðendum og þeim aðilum innlendum sem annast margs konar þjónustu takmarkalausan forgang að verkefnum fyrir þá sök að þar með er tekið of mikið kostnaðaraðhald í burtu. Eigi að síður er eðlilegt að taka tillit til þessara þátta eins og ríkisstjórnin hefur samþykkt og hefur ekki horfið frá. Þetta frv. gerir ráð fyrir að unnt sé að setja hverja þá skilmála til viðmiðunar þeirri hagkvæmni sem gengið er út frá sem hún kýs. Að því leyti tel ég að ekki sé ástæða til þess að óttast þetta lagaákvæði út frá sjónarmiðum um það að taka innlenda framleiðslu fram yfir erlenda.