12.11.1986
Neðri deild: 11. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í B-deild Alþingistíðinda. (687)

Skýrsla um viðskipti Útvegsbankans og Hafskips hf.

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Út af fyrirspurn hv. 5. þm. Reykv., þá er saga þessarar skýrslu ákaflega stutt og fljótrakin. Hún barst mér í hendur á mánudagsmorgun og átti ég viðræður við tvo nefndarmanna, sá þriðji var farinn til útlanda, og þann dag sendi ég skýrsluna til ráðherra í ríkisstjórninni. Jafnframt sendi ég skýrsluna seinni part dagsins ásamt bréfi til forseta sameinaðs þings og óskaði eftir því að Alþingi léti prenta skýrsluna og að henni yrði útbýtt til þm. Skýrslurnar, sem var dreift á mánudaginn, voru allar stimplaðar trúnaðarmál. Blaðamenn óskuðu margir hverjir eftir því að fá eintak af skýrslunni í gær og á mánudagseftirmiðdag. Ég neitaði því alfarið og sagði að störf þessarar nefndar byggðust á lögum sem Alþingi hefði samþykkt um að Hæstiréttur tilnefndi þrjá menn til þessarar vinnu og þeir ættu að skila viðskrh. skýrslunni og hann síðan að skýra Alþingi frá því. Ég tók strax, samdægurs, þá ákvörðun að skila skýrslunni í heilu lagi alveg eins og hún birtist mér með undirskriftum nefndarmanna þannig að ekkert væri að fela.

Það kom mjög á mig í gærkvöld þegar ég sá fréttamann í sjónvarpinu vera að sýna sjónvarpsáhorfendum þessa skýrslu. Svarið við fyrirspurninni er að hér er um trúnaðarbrot að ræða, greinilegt trúnaðarbrot. En hver það er sem hefur framið það veit ég ekki.

Ég hef vanist því allt fram undir þessa daga að menn færu varlega með trúnaðarmál. Ég friðaði blaðamenn og fjölmiðlamenn með því að það yrði ekki langt að bíða eftir því að þeir fengju þessa skýrslu og þá væri hægt að sinna efnismeðferð hennar, enda eru ekki liðnir nema tveir sólarhringar frá því að mér barst skýrslan í hendur og þangað til hún er kominn á borð allra alþm. Ég hygg að það sé ekki hægt að segja annað en að það hafi gengið allvel.