12.11.1986
Neðri deild: 11. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í B-deild Alþingistíðinda. (688)

Skýrsla um viðskipti Útvegsbankans og Hafskips hf.

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég er einn þeirra vafalaust mörgu alþm. sem máttu búa við það í gærkvöld að fá upphringingar frá fjölmiðlum með fyrirspurnum um þessa skýrslu. Og menn spurðu: Hafið þið ekki fengið þessa skýrslu? Það er búið að veifa henni framan í alþjóð. Það er búið að veifa henni framan í sjónvarpsvélar.

Mér finnst að það sé ástæða til að spyrja nákvæmar en þegar hefur verið spurt. Mér finnst að það sé ástæða til að spyrja: Hversu mörg eintök voru af þessari skýrslu í umferð? Hverjir fengu eintök? Og mun ráðherra kanna hvaðan sú skýrsla kom sem veifað var framan í alþjóð og sjónvarpsvélar í gærkvöld?