12.11.1986
Neðri deild: 11. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í B-deild Alþingistíðinda. (691)

Skýrsla um viðskipti Útvegsbankans og Hafskips hf.

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður.

Ekki er um það deilt að þessi nefnd er skipuð eða tilnefnd skv. lögum frá Alþingi. Ekki heldur um það að skv. skýrum ákvæðum 4. gr. umræddra laga ber að skila skýrslu til viðskrh. sem geri Alþingi grein fyrir störfum og niðurstöðum nefndarinnar.

Spurt var: Hverjir voru viðtakendur þeirra 20 eintaka sem hæstv. viðskrh. ákvað að afhenda að mér skilst á mánudaginn? Og hæstv. ráðh. svarar: Ráðherrar í ríkisstjórn, Seðlabanki Íslands, af því að hann hefur um málið fjallað, bankaeftirlit ríkisins, varaformaður Sjálfstfl. og Útvegsbanki Íslands sem vissulega varðar þetta mál, m.ö.o.: ýmsir handhafar framkvæmdarvalds og ýmsar stofnanir. Þess vegna spyr ég, hæstv. viðskrh.: Stendur ekki skýrum stöfum hér að viðskrh. er falið lögum samkvæmt að gera Alþingi grein fyrir störfum og niðurstöðum nefndarinnar? Ég spyr enn: Hvers vegna, hæstv. viðskrh., er það svo að á þessum viðtakendalista skýrslunnar er ekki að finna nöfn a.m.k. formanna þingflokka eða formanna stjórnmálaflokka því að þeim hefði vafalaust verið í lófa lagið að kynna þetta mál þá í þingflokkum sínum? Hvers vegna, hæstv. viðskrh., er ekki farið samkvæmt ákvæðum þessara laga um að virða Alþingi þess í máli af þessu tagi, sem sett er lögum samkvæmt, að Alþingi fái vitneskju um þetta mál, jafnvel áður en það verður afhent ýmsum stofnunum framkvæmdavaldsins hvað þá heldur ýmsum fjölmiðlum?

Mér finnst, herra forseti, að það sé ekki nóg að harma trúnaðarbrest og leka. Ég tek undir það sjónarmið að hæstv. ráðh. eigi að birta lista yfir þessa viðtakendur, að hann eigi að gera gangskör að því að rannsaka hver þessara aðila það er sem rofið hefur trúnað og brugðist þar með trúnaði Alþingis líka og í þriðja lagi vil ég árétta að mér finnst að hæstv. ráðh. hafi orðið á að því leyti að um leið og hann afhenti fyrstu eintök skýrslunnar hefði hann átt að virða Alþingi þess að í þeim hópi viðtakenda væru formenn þingflokka í það minnsta.