12.11.1986
Neðri deild: 11. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 809 í B-deild Alþingistíðinda. (693)

Skýrsla um viðskipti Útvegsbankans og Hafskips hf.

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég skal virða þau tilmæli að verða stuttorður um þetta mál.

Það er ljóst að umræður um efnisatriði þessarar skýrslu verða í Sþ., eins og fram kom í máli hæstv. viðskrh. og efni stöðu til þegar samþykkt voru hér á þingi lög þess efnis að hæstv. ráðh. skipaði nefnd til að fara ofan í málefni Útvegsbankans og Hafskips og annarra skyldra mála.

Ég tek undir með þeim sem hér hafa komið og lýst því yfir að það er alvarlegt mál þegar það gerist að trúnaður er brotinn eins og hér hefur verið lýst. Ég vil hins vegar segja að ég tel að viðbrögð hæstv. ráðh. hafi verið mjög eðlileg. Í máli eins og þessu bar honum að sjálfsögðu að leggja skýrsluna fyrir hæstv. ríkisstjórn og síðan fyrir Alþingi í beinu framhaldi. Nú er komið fram að þetta hefur gerst á afar stuttum tíma, jafnvel styttri tíma en oft er þegar um er að ræða málefni sem ríkisstjórn og einstakir ráðherrar bera ábyrgð á.

Ég fékk þessa skýrslu í hendur á mánudagskveldi að loknum þingflokksfundi í Sjálfstfl. þar sem hæstv. ráðh. gerði þingflokknum grein fyrir því að þessi skýrsla hefði fram komið og sagði að hún yrði lögð fram á ríkisstjórnarfundi daginn eftir. Í gær, þriðjudag, hringdi í mig einn starfsmaður sjónvarpsins, þ.e. gamla sjónvarpsins, ég ætlaði að segja gamla, góða sjónvarpsins, en segi gamla sjónvarpsins, þ.e. Ríkisútvarpsins, og ég skal gjarnan nafngreina þann mann. Hann heitir Hallur Hallsson og er fréttamaður á þeirri stöð. Hann spurði hvort ég hefði skýrsluna undir höndum og ég sagði að svo væri. Hann spurði hvort hann gæti fengið skýrsluna og ég sagði: Því miður. Þetta er trúnaðarmál. Ég get ekki látið þessa skýrslu af hendi en vísa á hæstv. viðskrh. Hann gaf í skyn að það mundi þá verða leitað annarra ráða til að ná í þessa skýrslu. Skilst mér að hún hafi komið fram bæði í fréttum frá ríkissjónvarpinu, eins hjá Stöð 2 og ef ég veit rétt einnig hjá Ríkisútvarpinu í gær. Þó skal ég ekki fullyrða um það. Má vera að það hafi verið eftir að þetta birtist í sjónvarpsstöðvunum báðum.

Það er alvarlegt þegar þetta gerist, en þetta rifjar upp fyrir mér að þetta mál, sem hefur verið viðkvæmt umfjöllunarmál í nokkuð langan tíma, var á síðum dagblaða og kom fram í fréttum sjónvarps og útvarps oft í sumar og þá var því blákalt haldið fram í framhaldi af umfjöllun þessara ríkisfjölmiðla og færðar nokkrar líkur fyrir því að heimildarmenn frétta væru úr sjálfri ríkisstjórninni. Þetta vil ég að komi fram því að þetta er alkunna og um þetta var rætt í sumar. Ég veit að hér inni í þingsal eru fleiri sem geta staðfest að þessi grunur var fyrir hendi. Þetta þýðir einfaldlega að því miður virðist vera svo að trúnaðarbrestur með þessum hætti eigi sér stað í hæstv. ríkisstjórn sjálfri. Af hvaða ástæðum það er skal ég ósagt látið, en því miður held ég að þetta dæmi, sem er ekki einsdæmi, hljóti að verða til þess að menn verði að íhuga mjög vandlega hvernig fara á með skjöl sem merkt eru „Trúnaðarmál“. Það hlýtur að vera stórmál fyrir íslenska stjórnsýslu, ekki síst fyrir hæstv. ríkisstjórn, að reglur um þessi efni séu virtar. Ef það gerist ekki sé a.m.k. reynt að koma í veg fyrir slíkt. Það eru til aðferðir með yfirstimplunum sem koma í veg fyrir að menn geti ljósritað án þess að sjáist hvaðan heimildin sé, en það er nokkuð hart að það þurfi að gerast í okkar litla landi.

Ég tek einnig undir það, sem kom fram hjá hæstv. viðskrh., að það er full ástæða til þess í framhaldi af þessu að formenn stjórnarandstöðuflokkanna fái sem allra fyrst í sínar hendur þær tillögur sem nú liggja fyrir frá Seðlabanka Íslands og varða framhaldslíf Útvegsbankans og nýja skipan í viðskiptabankamálum þjóðarinnar. Ég tel það sjálfsagt mál til þess a.m.k. að fyrirbyggja að þau mál birtist í heilu lagi hjá fréttastofum opinberra fjölmiðla eða í dagblöðum og að hægt sé að fjalla um þessi mál í þingflokkum, enda hefur komið fram á þessum fundi að formönnum stjórnarandstöðunnar hefur verið treystandi.

En þetta rifjar líka annað upp. Það er að á hverju hausti er dreift í þinginu plaggi sem er stefnuræða forsrh. og merkt er trúnaðarmál. Hæstv. forsrh. er bundinn af þeirri ræðu þegar hann kemur í þingið. Nánast er það undantekningarlaust að einum eða tveimur dögum síðar birtist þessi ræða í heilu líki í einhverju dagblaðanna. Ég man ekki hvort það gerðist í haust, en ég man að það gerðist í fyrra og líka í hitteðfyrra. Þetta er enn fremur trúnaðarbrot og eyðileggur þær leikreglur sem við verðum að fylgja ef skjöl eiga að geta gengið milli þeirra manna sem njóta sérstaks trúnaðar.

Herra forseti. Ég biðst afsökunar á því að hafa orðið nokkuð langorður, en mér fannst þessar umræður gefa tilefni til þess að við ræddum nokkuð um reglur um trúnaðarmál.