12.11.1986
Neðri deild: 11. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í B-deild Alþingistíðinda. (695)

Skýrsla um viðskipti Útvegsbankans og Hafskips hf.

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst leyfa mér að segja að ég er ekki tilbúinn til að standa að löggjöf um rannsóknarrétt yfir fjölmiðlum í þessu landi. Þó að ég hafi ýmislegt við þá að athuga er ég ekki tilbúinn að standa að því að setja lög um rannsóknarrétt yfir þeim. Ég held að þar með værum við komnir út á hálan ís sem við vildum ógjarnan fara út á og það væri hættulegt, bæði fyrir Alþingi og stjórnvöld, að standa þannig að málum.

Hitt er sjálfsagt að hvetja menn til að virða trúnaðarmál. Reynslan sýnir því miður að ríkisstjórn Íslands, eins og hún hefur verið skipuð seinustu árin, er ekki treystandi fyrir trúnaðarmálum. Það er sú dapurlega niðurstaða sem ríkisstjórnin stendur frammi fyrir. Það kemur kannske stjórnarandstöðunni ekki sérstaklega á óvart, en hlýtur að vera þeim mun meira umhugsunarefni fyrir ríkisstjórnina sjálfa að henni er ekki treystandi fyrir trúnaðarmálum.

Ég tel að það sé í rauninni þannig að það hefði verið eðlilegt, ég endurtek það, að koma þeim fáu eintökum sem til voru til formanna allra flokka á Alþingi mikið frekar en að dreifa þessu inn á ríkisstjórnarfund miðað við þá reynslu sem menn hafa af ríkisstjórninni í þessum efnum úr því að henni er ekki treystandi og líka vegna þess að Alþingi Íslendinga setti þessi lög og ákvað að rannsóknin skyldi fara fram.

En ég endurtek það, herra forseti, að ég tel ekki að hér hafi það tekið út af fyrir sig neinn feiknatíma að koma þessu í hendur þingsins eða á borð þm. Það er ekki það sem ég er að ræða um heldur hitt að hér hefur tekist óhönduglega til. Þess vegna er æskilegt og nauðsynlegt að umræða um þetta mál fari fram á þinginu hið allra fyrsta án óeðlilegs dráttar. Ég er ekki með neitt óðagot að mínu mati heldur held ég að það sé heppilegast fyrir alla aðila að umræða fari fram um þetta hið allra fyrsta. Ég er fyrir mitt leyti og míns flokks tilbúinn að standa að slíkri umræðu strax á morgun og endurtek óskir mínar til hæstv. forseta Nd. um að hann beiti sér fyrir því að umræða fari fram fljótlega.

Ég vil einnig í tilefni af þessari umræðu taka fram að ég fagna því að hæstv. viðskrh. mun láta stjórnarandstöðuna fá tillögur Seðlabankans um skipulag bankamála og það hvernig staðið verður að endurskipulagningu bankanna hér á landi. Ég get ekki sagt fyrir fram að ég sé ýkja hrifinn af þeim hugmyndum sem ég hef séð blaðafréttir um varðandi þetta mál, en blaðafréttir eru þegar komnar um hvað seðlabankanefndin leggur til, en ég vil engu að síður taka fram fyrir mitt leyti að ég er tilbúinn að taka þátt í því að hér verði teknar ákvarðanir um óhjákvæmilega endurskipulagningu bankakerfisins. Ég tel raunar að það þurfi að gerast á þessum vetri, það megi ekki dragast lengur, og endurtek að ég er tilbúinn fyrir mitt leyti að stuðla að því.

Ég vil svo segja að lokum, þannig að það sé á hreinu, að ég er ekki tilbúinn að setja lög um rannsóknarrétt yfir fjölmiðlum þó að þeir séu sumir vitlausir.