15.10.1986
Neðri deild: 3. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í B-deild Alþingistíðinda. (73)

14. mál, atvinnuleysistryggingar

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um það frv. sem ég hér mæli fyrir. Um er að ræða frv. til l. um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar. Markmið frv. er að tryggja að bætur atvinnuleysistrygginga vegna framfærslu barna séu greiddar þar til barn verður 18 ára í stað 17 ára eins og nú er.

Hér er fyrst og fremst um það að ræða, herra forseti, að samræma ákvæði um atvinnuleysistryggingar því sem er í öðrum hliðstæðum lögum og reglum um framfærslu barna og í grg. er vitnað til þessara laga og reglna. Þar er í fyrsta lagi um að ræða barnalögin þar sem réttindi og skyldur framfæranda miðast við 18 ára aldur barns. Í öðru lagi reglur lífeyrissjóða um barnabætur sem einnig eru miðaðar við 18 ára aldur. Í þriðja lagi ákvæði almannatryggingalaga um barnalífeyri, meðlög, mæðralaun og sjúkradagpeninga þar sem bótaréttur og framfærsla eru miðuð við 18 ára aldur barns. Öll þessi ákvæði, sem hér hafa verið tilgreind, kveða annaðhvort á um framfærsluskyldu framfæranda eða bótarétt þeirra til 18 ára aldurs barna.

Af sjálfu leiðir að forsenda fyrir greiðslu atvinnuleysistrygginga og barnabótum til 18 ára aldurs er sú sama. Þar er um að ræða að tryggja framfærslu barna og bótarétt ef atvinnuleysi hindrar framfæranda í því að afla vinnutekna. Frv. þetta felur því fyrst og fremst í sér að löggjafinn lagfæri ákvæði um barnabætur í atvinnuleysistryggingalögum svo að þau samræmist því sem er í öðrum hliðstæðum lögum.

Sú breyting mun hafa sáralítinn kostnað í för með sér fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð. Ég hef látið kanna það hjá Atvinnuleysistryggingasjóði hvað hér væri um mikil útgjöld að ræða. hær upplýsingar sem ég hef fengið eru að heildarútgjöld atvinnuleysistrygginga vegna barnabóta voru rúmar 6,4 millj. kr. á árinu 1985. Hefði frv. þetta, sem ég nú mæli fyrir, þá haft lagagildi, er um að ræða að útgjöld atvinnuleysistrygginga hefðu aukist um 400 þús. vegna ákvæða þessa frv.

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um frv. Ég held satt að segja að það hafi ekki verið ætlan Alþingis að skilja eftir þetta ákvæði að því er varðar atvinnuleysistryggingar. Hér hafi eingöngu misfarist, þegar atvinnuleysistryggingar voru til umræðu í sölum Alþingis árið 1981, að lagfæra þetta ákvæði atvinnuleysistryggingalaganna. Þess vegna treysti ég því að það geti orðið víðtæk samstaða um frv. hér á Alþingi, samstaða um að gera það að lögum.

Herra forseti. Ég legg til að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til hv. heilbr.- og trn.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.