13.11.1986
Sameinað þing: 16. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 844 í B-deild Alþingistíðinda. (731)

144. mál, viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf.

Iðnaðarráðherra (Albert Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess að í þeim umræðum sem eiga eftir að verða megi málið vera rætt málefnalega. Mál það sem hér er á dagskrá er skýrsla hæstv. viðskrh. um viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips sem er þskj. 153.

Það sem ég vil leiðrétta er að hv. 3. þm. Reykv. tók fram í upphafi að í þessari skýrslu hefði nefndin sem hana gerði ekki átt að ræða þátt Alþingis, hún hafi ekki verið sett á laggirnar til þess. Svo vill nú til að bankaráð sem þá sat og ég var formaður fyrir var kjörið af Alþingi svo að Alþingi kemur beint við sögu.

Annað atriði sem ég vil nefna á þessu stigi umræðna eru þær setningar sem hv. 3. þm. Reykv. vitnaði til á bls. 44 í þessari skýrslu undir liðnum 2.5., Viðhorf í Útvegsbankanum. Þar las hann 1. tölul., um stuðning Útvegsbankans við Hafskip o.s.frv., að stuðlað sé að heilbrigðri samkeppni. Hann gerði ekki miklar athugasemdir við það. 2. tölul.: „Forsvarsmenn fyrirtækisins eru dugmiklir og hæfir stjórnendur sem hafa sterkt afl á bak við sig.“ sneri hann upp í eins konar spaugsatriði og las lítið úr þeim skýringum sem fylgja á bls. 45. En ég vil leyfa mér að lesa þær. Með leyfi forseta, hljóða þær á þessa leið:

„Með þeirri staðhæfingu að forsvarsmennirnir hafi sterkt afl á bak við sig er átt við hluthafa og stjórnarmenn Hafskips. Í þeirra hópi voru margir landskunnir athafnamenn úr atvinnu- og viðskiptalífinu. Þar var einnig að finna áhrifamenn í stjórnmálum.“ Við áhrifamenn úr stjórnmálum staldraði hv. 3. þm. Reykv. og lét falla orð um Sjálfstfl. og gerði hann að þessu afli sem stóð að baki bankaráðs Útvegsbankans og þá Hafskips á sínum tíma. Ég vil að það komi fram við þessar umræður, til þess að þær geti verið málefnalegar, að ég var ekki í bankaráði Útvegsbankans sem þm. Sjálfstfl. Ég var ekki beðinn um það af Sjálfstfl. né heldur valinn af Sjálfstfl. í bankaráð Útvegsbankans. Eftir að hafa hafnað ósk ríkisstjórnarinnar tvisvar eða þrisvar sinnum var ég boðaður á fund forsrh. Þar voru staddir fulltrúi frá Framsfl. og frá Alþb. Á þeim fundi gekk ég að því boði, skulum við segja, með þeim fyrirvara að Sjálfstfl. hefði ekkert á móti því, að gerast bankaráðsformaður Útvegsbankans. Sem sagt, ég var fulltrúi þeirrar ríkisstjórnar sem hv. 3. þm. Reykv. Svavar Gestsson og aðrir hans flokksbræður og hans flokkur sat í og stóð að. Ég sé ekki ástæðu til þess að harma það en þetta er staðreyndin. Að vísu hafði Sjálfstfl. ekkert á móti því að ég færi í þessa stjórn en ég var ekki fulltrúi Sjálfstfl. Þetta vil ég að sé alveg á hreinu þannig að þetta pólitíska afl, sem í mér fólst þá, kom ekki að beiðni Sjálfstfl. inn í bankaráð Útvegsbankans. Það var ekki Sjálfstfl. sem slíkur sem gerði mig að formanni. Það var sú ríkisstjórn sem þá sat sem óskaði eftir því að ég færi inn í bankaráð Útvegsbankans.

Á þeim tíma hafði ég verið formaður stjórnar Hafskips um nokkurn tíma en þegar ég tók við því embætti var Hafskip í sömu stöðu og þegar yfir lauk nú á síðasta ári.