13.11.1986
Sameinað þing: 16. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 865 í B-deild Alþingistíðinda. (737)

144. mál, viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf.

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég byrja á að þakka ráðherra fyrir þá skýrslu sem hann hefur hér lagt fram og er til umræðu. Ég tel að hún sé um margt athyglisverð og umhugsunarverð.

Ég hef hlustað þó nokkuð á mál manna um hvaða lærdóm megi af henni draga og satt best að segja gerast allundarlegir hlutir í þeim málflutningi.

Hv. 4. landsk. þm. fullyrðir að þar sem bankaráðsmenn þurfi að lúta bankaleynd sé óhæfa að Alþingi kjósi þá þar sem þeir geti ekki gert grein fyrir stöðu mála hér á þingi. Með sömu rökum væri þá hægt að segja að það væri óhæfa að kjósa menn í utanrmn. Þeir eru látnir þegja þar yfir mikilsverðum upplýsingum sem þeir fá í staðinn fyrir að gera Alþingi grein fyrir þeim. Ástæðan er sú að það er talin nauðsyn að þannig sé að málum staðið. Og ég veit ekki betur en allir stjórnmálaflokkar á Íslandi hafi litið svo á að þannig ætti þetta að vera. Ég tel að það sé eðlilegt að þeir þm., og ég að sjálfsögðu ekki undanskilinn, leiti eftir því að sú leynd verði þá rofin fyrst og almennum þm. og þjóðinni verði trúað fyrir málum utanrmn. að fullu ef menn eru að tala um að afnema hér leynd. Hlýtur það ekki að vera fyrsta skrefið?

Ég held að það blasi við og hljóti að vera rökrétt að líta svo á að ábyrgð Alþingis byggist á þeirri lagasetningu sem ríkið hefur sett og hún byggist á kosningu bankaráðanna sem þó er dálítið skondið að setja upp þannig að það sé Alþingi sem kýs bankaráðin. Fulltrúarnir eru kosnir á Alþingi. Á þessu er nokkur munur. Þá hlýtur hver og einn að bera ábyrgð á þeim fulltrúum sem hann hefur kosið. Ég er reiðubúinn að segja af mér þingmennsku ef dómstólar komast að þeirri niðurstöðu að Jóhann Einvarðsson hafi í starfi sínu í bankaráði Útvegsbankans gerst brotlegur við íslensk lög. En ég vil fá dóm dómstóla, enda eiga þeir að dæma samkvæmt stjórnarskránni. Hitt vænti ég að verði upplýst hér og nú hvað Arnbjörn Kristinsson prentsmiðjustjóri braut af sér og að formaður Alþfl. liggi ekki á því að upplýsa þingheim um það hvers vegna hann var settur af, hvað hann braut af sér, yfir hverju hann þagði. Hvað vissi hann og kom ekki á framfæri við Alþfl. sem hann átti að gera?

Herra forseti. Ég tel eðlilegt að formaður Alþfl. komi í salinn og geri grein fyrir þessu, hlusti á þessa hluti, því að eini maðurinn sem hefur verið dæmdur til þessa er Arnbjörn Kristinsson, maður úr atvinnulífinu, prentsmiðjustjóri, ekki gjörspilltur stjórnmálamaður.

Hér hefur því verið haldið fram af hv. 5. þm. Reykv. að aðallærdómurinn sem megi draga af því sem gerst hefur sé að ríkisbankar eigi ekki að vera til, það eigi að vera hlutafélagsbankar. Og alveg sérstaklega, vegna þess að ég veit að hv. 5. þm. Reykv. er nokkuð góður í Íslandssögu, nokkuð vel að sér í Íslandssögunni, held ég að það sé óhjákvæmilegt að spyrja hann nokkurra spurninga varðandi þetta.

Eins og allir vita var starfandi í þessu landi banki sem bar nafnið Íslandsbanki hf. Hann starfaði nákvæmlega í anda þess sem hv. 5. þm. Reykv. telur að banki eigi að starfa. Hann var hlutafélagsbanki, hann var í eign þó nokkuð margra, hann var í eign manna sem hugsuðu um að fá arð af þeim peningum sem voru í bankanum. En hvað gerðist? Það urðu gjaldþrot og með leyfi forseta vil ég minna á að Ólafur Björnsson prófessor ritaði bók sem ber nafnið „Saga Íslandsbanka hf. og Útvegsbanka Íslands 1904–1980.“ Þetta er góð bók.

Það hefði kannske ekki verið svo óeðlilegt að þeir sem nú kveða upp dóm yfir ríkisbönkunum sem gersamlega óhæfum kynntu sér þessa bók. Það fóru nefnilega fyrirtæki á höfuðið þó að þau væru í viðskiptum við Íslandsbanka og þau urðu til að skaða bankann. Undur og stórmerki! Hvernig mátti það gerast að hlutafélagabanki, alfullkominn banki, yrði fyrir slíkum skaða? Fulltrúar arðsins, auðsins sátu yfir því að velja menn í bankastjórastöður og heimtuðu arð út úr bankanum, meira að segja þegar reksturinn gekk illa. Þeir sátu uppi með stórkostuleg gjaldþrot.

Hér er, með leyfi forseta, á bls. 35 kaflafyrirsögn sem ber heitið „Syrtir í álinn fyrir Íslandsbanka. Gjaldþrot Milljónafélagsins.“ Þetta er miklu flottara nafn en nokkurn tíma Hafskip hf. Hvenær gerðist það að þeir sem töldu sig eiga að leiðbeina öðrum, kenna þeim hvað læra mætti af sögunni, teldu að það væri nóg að taka fyrir tíu ára tímabil? Það yrði hálfskrýtin útkoma í söguskýringum ef slíkt væri lagt til grundvallar. Nei, ætli það sé ekki staðreynd að hlutafélagabankar um alla Evrópu hafa farið á höfuðið. En hverjir hafa þá tapað fé? Það var almenningur í þessum löndum, það var fólkið sjálft, fátækir verkamenn sem höfðu trúað þessum bönkum fyrir sínu fé, millistéttarfólk sem varð að öreigum við þessi gjaldþrot um alla Evrópu á svipuðum tíma, í heimskreppunni miklu.

En fjármálamennirnir höfðu valsað með þetta fé. Er það það sem við fyrst og fremst hörmum hér í dag að þannig skyldi hafa til tekist að það séu ekki sparifjáreigendur Útvegsbankans sem töpuðu öllu sínu? Er það það sem hv. 5. þm. Reykv. grætur í dag, að fólkið sem sparaði fé í þessum banka fær það greitt og það er tryggt? Er hann að harma að þeir skyldu ekki hafa orðið fyrir þessum skelli?

Ég hygg að það væri rétt að hann læsi þessa bók um sögu Íslandsbanka og Útvegsbankans og kynnti sér hverjir voru fyrstu bankastjórarnir í nýreistum Útvegsbanka. (Gripið fram í: Hann heitir nú í höfuðið á honum.) Hann heitir í höfuðið á þeim manni, upplýsir einn þm. í salnum. Skyldi það nafn hafa orðið honum til falls eða vegsemdar í þessu lífi? Ætli sá sem réði því að hann fékk það nafn hafi ekki metið það svo að það yrði honum til vegsemdar?

Nei, nú er staðan sú að hann telur að þeir sem þá sátu yfir taflinu og tóku þær ákvarðanir sem teknar voru hafi verið menn sem vissu ekkert hvað þeir voru að gera og komi á gerspilltu bankakerfi. Það er niðurstaðan. Ætli hann fari ekki að skila nafninu? Auðvitað væri það rökrétt, það minnsta sem hægt væri að gera í stöðunni.

Ég vara við því að menn komi hér upp og dragi þær ályktanir að ríkisbankar séu úrelt form. Hitt hlýtur Alþingi Íslendinga að verða að gera. Þar hljóta menn að verða að setjast niður og brjóta um það heilann og komast að niðurstöðu, og þá þm. hver og einn: Hvað er það sem hægt er að kveða skýrar á um í bankalöggjöfinni til að koma í veg fyrir það, hvort heldur er hjá einkabönkum eða ríkisbönkum, að stórfelld gjaldþrot eigi sér stað? Og þar kemur fram eitt atriði sem hefur komið fram hér í umræðu. Það er spurningin hvort ekki verði að takmarka útlán til einstakra aðila, að þau megi aldrei fara yfir visst hlutfall af fjármunum bankans. Þetta hlýtur að verða atriði sem þarf að skoða.

Ég tel að það sé ekki verkefni Alþingis að annast dómstörf og ég tel að það hljóti að verða að koma í ljós, það hefur ekki enn verið neitt endanlegt í þeim efnum, hvort þetta mál er búið eða hvort ríkissaksóknari á eftir að höfða mál á hendur einhverjum mönnum vegna þess gjaldþrots sem varð. Auðvitað hljótum við að ætla að þetta mál verði rannsakað ofan í kjölinn eins og hægt er. Hitt vil ég fullyrða að það sem stendur á bls. 77 hlýtur mjög oft að koma upp þegar bankastjórar þurfa að meta hvort þeir eigi að halda áfram að lána fyrirtæki eða hvort þeir eigi að stöðva lánveitingar og gera það upp. Þar segir svo í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Bankastjórarnir stóðu löngum frammi fyrir þeim vanda í viðskiptum við Hafskip að velja á milli þess að hætta lánveitingum til félagsins og stöðva rekstur þess eða gera það gjaldþrota, og eiga þá víst nokkurt tap fyrir bankann, ellegar að halda áfram áhættusömum lánveitingum í von um batnandi hag félagsins. Þetta kom greinilega fram árin 1973 og 1978 þegar ákveðið var að bjarga félaginu. Það er skiljanlegt að bankinn vilji halda tryggð við gamalgróinn viðskiptavin og knýi hann ekki til uppgjafar eða gjaldþrots nema brýna nauðsyn beri til, en valið í þessum efnum er vandasamt.“ — Þarna er slegið úr og í á vissan hátt.

Alþingi Íslendinga ræður litlu um rekstrargrundvöll fyrir alþjóðlegum siglingum og Útvegsbankinn ræður litlu um rekstrargrundvöll fyrir alþjóðlegum siglingum. Þar getur orðið breyting á örstuttum tíma á þann veg að það sem líta mátti á sem sæmileg veð getur orðið verðlítið eða verðlaust á morgun. Þetta verða menn að hafa í huga. Hins vegar hefur Alþingi með lagasetningu, eins og t.d. þeirri lagasetningu að stöðva innflutning á fiskiskipum til landsins, haft þau áhrif að fiskiskip hér á landi eru komin hátt yfir heimsmarkaðsverð. Lítil skip eru á hærra verði en margfalt, margfalt stærri flutningaskip. Það skyldi þó ekki vera að ástæðan fyrir þessu hefði að hluta til verið sú að menn vildu tryggja veð sem voru í þessum skipum og gjaldþrot sem hefðu ella blasað við.

Herra forseti. Ég tel að hjá því verði ekki komist þegar umræðurnar hefjast um hvað nú beri að gera í stöðunni að ræða það á nýjan leik hér í þingsölum hvort hlutafélagsbankar og einkabankar séu lausn á öllum vanda. Mér er ekki kunnugt um að það séu nein lög í þessu landi sem banni hlutafélagsbönkunum að stækka og verða stórir. En er ekki eðlilegt að þeir sjái sjálfir um að stækka og verða stórir? Auðvitað er ágreiningurinn fyrst og fremst um það atriði og hvort söguskýringin eigi að verða á þann veg að lýðræðið sé nánast óhæft til að bera ábyrgð á fjármálum hjá þjóðinni.