13.11.1986
Sameinað þing: 16. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 870 í B-deild Alþingistíðinda. (739)

144. mál, viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf.

Valdimar Indriðason:

Herra forseti. Það er farið að líða a dag og þessi skýrsla er búin að vera hér mikið til umræðu sem eðlilegt er og það er auðheyrt á mörgum ræðumanna að þeir líta á hana sem stóra sannleik, en því miður get ég ekki lýst því yfir fyrir mína parta því það eru þættir í henni sem ég þekki allt of vel til þess og ég get ekki annað en gagnrýnt þá.

Auðvitað er sjálfsagt og ég er fyrir það þakklátur að fá þessa skýrslu að mörgu leyti einmitt fyrir það að við getum áttað okkur á ýmsum hlutum í okkar kerfi sem mættu betur fara. Ég er alls ekki að halda því fram að Útvegsbankinn sé hvítþveginn af öllum málum sem þar fara fram. Hins vegar verðum við að lesa þetta með nokkuð opnum huga án þess að draga beinar ályktanir af því sem þarna er sagt. Lítum t.d. á bls. 72 þar sem talað er um bankastjórana. Það er harður dómur sem stendur þar, með leyfi forseta, í næstneðstu greininni:

„Að dómi nefndarinnar er það engum vafa undirorpið að bankastjórar Útvegsbankans bera meginábyrgð á þeim áföllum sem bankinn varð fyrir við gjaldþrot Hafskips, enda þótt bankastjórarnir eigi sér líka nokkrar málsbætur.“

Þeir bera meginsök á öllu, segir skýrslan. Þetta finnst mér harður dómur af þeim aðilum sem um þetta fjalla. Við skulum gera okkur það ljóst, það hefur komið fram hér í umræðunum, að þessir þrír bankastjórar, sem þarna er um að ræða, eru menn sem eru búnir að starfa þarna um skamman tíma Halldór Guðbjarnason frá því í maí 1983, Ólafur Helgason og Lárus Jónsson frá því í júní 1984.

Það kom fram í umræðunni einnig að þessir menn gerðu ekkert til að reyna að beygja af þeirri braut sem allir sáu að fyrirtækið var komið á. Þetta kom fram sérstaklega áðan hjá hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur og skal ég fara nokkrum orðum um þetta.

Skýrslan segir að staða Hafskips 1983 hafi verið slæm. Reikningar sem við fáum í bankaráðinu 1984 um mitt sumar, endurskoðaðir, frá Hafskipi, segja okkur að það sé rekstrarhagnaður á fyrirtækinu um 22,5 millj. og fylgja áætlanir með um frekari starfsemi. Það er rétt að við létum ekki sérstaka endurskoðendur fara ofan í að endurskoða löggiltan endurskoðanda við fyrirtækið. Hvernig værum við stödd þá í okkar þjóðfélagi ef við gætum ekki treyst löggiltum mönnum í þessum störfum? Ég læt þetta koma fram hér til að skýra nokkuð og sem afsökun í leiðinni fyrir því hvað við vorum bláeygir í þessum efnum. Þessu geta menn lært af vegna seinni tíma. Það má ekki treysta öllum hlutum.

Þegar líður á haustið sjáum við að áætlanir standast alls ekki. Það er þá sem nýju bankastjórarnir taka sig til. Í desembermánuði 1984 kalla þeir fyrir sig forsvarsmenn Hafskips og segja að þetta gangi ekki lengur. Annaðhvort verði fyrirtækið stöðvað eða þá að þeir komi því í annarra manna eign. Forustumenn Hafskips fóru þá og leituðu hófanna um samninga við Eimskip. Það var ekki bankinn sem það gerði heldur þeir sjálfir. Þeir samningar gengu ekki. Þeir komu og báðu um meiri fyrirgreiðslu og því var gersamlega neitað. Það var gerð krafa um það því að það blasti við gjaldþrot ef ekkert var gert. Það kom einnig fram áðan hjá hv. þm. Ólafi Þórðarsyni að menn eiga stundum um erfiða kosti að velja. Þetta er rétt. Það blasir við þér: Á ég heldur að taka þann möguleika að lána mönnum í viðbót einhverja upphæð en að tapa nokkur hundruð milljónum eins og málið blasti við? Það var samþykkt að lána þeim viðbót, ef þeir gætu aukið hlutaféð um 80 millj., til þess að þeir gætu haldið áfram út á þær áætlanir sem þeir gerðu sjálfir og voru mjög bjartsýnar. Þetta var samþykkt á hluthafafundi hjá þeim og það voru sterkir menn, vil ég segja, sem komu með ábyrgðir fyrir hlutafjárloforðum.

Ég tek við formennsku bankaráðs 16. jan. 1985 og við fáum reikningana frá bankanum í júnímánuði 1985. Þá fáum við reikningana fyrir 1984 og milliuppgjör og áætlanir sem voru fyrir 1985. Þær áætlanir sýndu okkur að það var full bjartsýni á því, það var kölluð óskhyggja í dag og hefur sjálfsagt verið það, að þetta mundi ganga upp. Við bíðum í einn mánuð. 17. júlí 1985 var mælirinn fullur. Þá sögðum við algert stopp. Þá var farið á stúfana að leita eftir að koma þessu fyrirtæki í annarra manna eigu. Það var aftur leitað til Eimskips en það gekk treglega. Það gekk ekki, náðist ekki samkomulag. Bankastjórnin fór svo í þetta sjálf þegar leið á haustið. Það endaði ekki með því að Útvegsbankinn seldi Eimskipafélaginu sem slíku en búið var að lýsa yfir gjaldþroti 6. des. áður en hægt var að ná samkomulagi. Þann punkt vil ég aðeins minnast á vegna þess að við munum það þm. að í þingsölum í fyrra um þetta leyti var mikil umræða um Hafskipsmálið. Ég fullyrði í þessum stól að hefðum við fengið að vera í friði þá með það að selja fyrirtækið og koma því í verð hefði það munað, ég fullyrði það, 150 millj. hefðu ekki fjölmiðlar og hv. Alþingi hent þetta eins mikið á lofti og gert var þá. Það gerspillti öllum sölumöguleikum. Skeytunum rigndi yfir að utan, verðin féllu. Það var beint strik niður. Endaði á að hlutir sem við gátum sennilega selt á 12,5 millj. dollara eða jafnvel 15 hröpuðu niður í 7,5 millj. dollara. Þetta urðum við að búa við í fyrrahaust. Svo er sagt að við höfum ekkert gert.

Það er ósköp eðlilegt, þegar búið er að lesa þessa skýrslu, að álykta að við höfðum verið bláeygir og ekki staðið að málum eins og átti að gera. Það legg ég ekki dóm á sjálfur. En þannig blöstu málin við. Það má dæma okkur alla sem að þessu stóðum þegar að því kemur, en það er ekki hlutur skýrslunnar að segja til um hvaða dóm hver og einn skal hljóta.

Í sambandi við bankaráðið, sem er fjallað allítarlega um á bls. 78 en ég ætla ekki að lesa sérstaklega fyrir þingheim, það er búið að gera í dag, er því blákalt haldið fram að bankaráðsmenn, af því að þeir eru kosnir af pólitískum flokkum, hljóti þeir að vinna samkvæmt og eftir fyrirskipunum sinna pólitísku flokka. Þessu mótmæli ég alfarið hér. Þetta kalla ég dylgjur. Þann tíma sem ég hef verið í þessu og þeir menn sem með mér hafa unnið höfum við ekki í einu einasta tilviki verið beittir þrýstingi, ekki ég af Sjálfstfl., ekki Jóhann Einvarðsson af Framsfl., ekki Garðar Sigurðsson af Alþb. og ekki Kristmann Karlsson af Sjálfstfl. og ég veit ekki heldur til þess með Þór Guðmundsson af Alþfl. Ég vildi gjarnan að þessir menn fengju að svara þeim sökum sem hér eru bornar á þá, að þeir hljóti að vinna eftir pólitískri línu og þrýstihagsmunahópum utan úr bæ, annars gætum við ekki verið þarna. Ég bið þm. að ræða varlega um slík mál áður en þeir kynnast þeim betur. Þessir menn eru fjarverandi. Ég er einn til að svara fyrir þá. Þetta er algerlega rangt. Það fullyrði ég hér.

Það kom fram í umræðunum fyrr í dag að bókun á málum Hafskips hafi ekki sést í bókum bankaráðs ég man ekki hvaða tíma — allverulegan tíma, er sagt. Þetta má vel vera rétt. Ég hef ekki skoðað það svo, ætla ekkert að vefengja það hér. En það er atriði sem mætti taka til athugunar þegar þetta er betur skoðað af þeim sem setja reglugerð um þessa starfsemi alla að það sé ítarlegar bókað í bankaráðum. En ég fullyrði að þessi mál voru oft rædd fram til 1985 a.m.k. meðan ég átti sæti í bankaráði. Bankastjórar og fulltrúar frá hagdeild bankans komu og gerðu skil á ýmsum þáttum. Það kom einnig fram, það er í skýrslunni, að það hefði ekki neitt komið frá hagdeild bankans frá 1981 þar til í mars 1985. Ég ætla ekki að verja forvera minn að þessu leyti, en ég held að það sé fyrst og fremst skortur á því að þarna hafi verið bókað eins mikið og skyldi. Þess vegna má fá slíka átkomu til að gera allt tortryggilegt.

Þá kem ég að bankaráðinu aftur og einmitt að lokaorðum hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur: Við eigum að velja fólk úr atvinnulífinu til að stjórna bankamálum og öðrum stofnunum þjóðfélagsins. Í þessum dúr var þetta. Það er ekki orðrétt hjá mér. Þess vegna vil ég spyrja hv. þm.: Er það blettur á mér að ég hef verið 27 ár framkvæmdastjóri fyrir atvinnufyrirtæki? Er það blettur á mér að ég skuli vera settur í bankaráð Útvegsbankans? Fyrirtækin sem ég hef stjórnað hafa aldrei skipt við Útvegsbankann. Og eitt í viðbót. Það er ekkert einasta útibú frá Útvegsbankanum í Vesturlandskjördæmi. Er maðurinn á götunni betur fær um þetta en ég af því ég hef álpast inn á þing? Er ég óhæfur af því að ég er á þingi? Svona röksemdir skil ég ekki og mótmæli þeim algerlega.

Ég ætla ekki, held ég, að eyða fleiri orðum að þessu. Það er búið að segja það mikið. En margt má segja um þetta í viðbót. Ég tek undir að það er ýmislegt sem má laga og ég mun beita mér fyrir því eins og ég get við viðskrh., ræða um það betur. Það mætti laga ýmislegt í bankakerfinu og ekki síst ríkisbankakerfinu. Ég vona að hinir ríkisbankarnir séu í mjög góðu lagi. Ég dreg það ekki í efa. En það eru ýmsir liðir sem þar mættu betur fara. Hámarkslán t.d. hafa ekki verið ákveðin í þessum bönkum að ég best veit, enda væri það erfitt viðureignar, en sjálfsagt að athuga.

En ég held að ég láti máli mínu lokið. Ég hef gefið stuttar skýringar á því hvernig staðan er. Ég vona að hv. þm., a.m.k. Kvennalistans, hafi fengið svör við því sem að mér var beint áðan.