13.11.1986
Sameinað þing: 16. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í B-deild Alþingistíðinda. (742)

144. mál, viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf.

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég skal ekki fara með langt mál. Hér hefur margt verið rætt og þessi skýrsla gefur að sjálfsögðu tilefni til margvíslegra íhugunarefna. En ég vil segja það fyrst að mér þykir þess gæta í málflutningi sumra þm. og nú seinast hjá hæstv. ráðh. að menn skjóti sér á bak við að menn eigi að bíða eftir því að gá hvort sé um lögbrot að ræða hjá þeim aðilum sem hérna eru til umfjöllunar og þá fyrst og fremst bankastjórn Útvegsbankans.

Auðvitað er það ekki hlutverk Alþingis að dómfella menn fyrir lögbrot eða sakargiftir af því tagi, en í mínum huga er það ekki það mál sem er á dagskrá. Það vill nefnilega þannig til að við erum í sæti atvinnurekandans. Við erum með menn í vinnu. Það er eðlilegt og sjálfsagt og reyndar skylda Alþingis, tel ég, að dæma frammistöðu þeirra sem það hefur í vinnu, dæma frammistöðu þeirra sem það hefur trúað til mikilla verka. Og spurningin er: Stóðu þeir sig eða stóðu þeir sig ekki? Samkvæmt þeirri skýrslu sem hér liggur fyrir er niðurstaðan þar sú að þeir hafi ekki staðið sig. Og það er þetta sem er vissulega mikið umhugsunarefni og er sjálfsagt umræðuefni hér og menn mega ekki blanda því saman við spurninguna um refsivert athæfi eða lögbrot af einhverju tagi. En það er jafnframt skylda Alþingis að líta til með þeim sem það hefur í vinnu og hafa skoðun á því hvort þeir standi sig eða standi sig ekki.

Þessi skýrsla er unnin að sérstakri ósk Alþingis. Hún er auðvitað bara álit þriggja manna. En þeir hafa væntanlega vandað sig eins vel og þeir gátu.

Það er ekki endanlegur dómur. Það er Alþingis að ákveða hvort það álit, sem þarna kemur fram, sé rétt eða ekki. En ég tel það skyldu alþm. að gera upp við sig hvort þeir telja að það álit sem þarna er sett fram um störf þessara aðila sé nægilega vel rökstutt eða ekki eða hvort það þarfnist frekari athugunar áður en menn kveða upp dóm sinn um hvernig mennirnir hafa staðið sig.

En það er annað atriði sem mig langar að drepa á. Manni verður það umhugsunarefni við að lesa þessa skýrslu hvort hér sé um einstakt fyrirbæri að ræða, Hafskip, eða hvort víðar kunni að vera pottur brotinn. Hæstv. ráðh. gerði það að umræðuefni að vitaskuld væru gjaldþrot hér og hvar í þjóðfélaginu. Það er ekki nema eðlilegt í okkar þjóðfélagi að slíkt komi fyrir. Það er öryggisventill á því hagkerfi sem við búum við. Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvort það geti verið að fleiri stórviðskiptaaðilar ríkisbankanna, svo við höldum okkur eingöngu við þá, hafi hlotið lánafyrirgreiðslu sem sé að einhverju leyti í hátt við það sem hér hefur gerst, þ.e. þar sem tryggingar séu ónógar eða ógætilega að farið. Það ganga annað veifið sögur um að svo sé. Lestur þessarar skýrslu vekur upp þá hugsun hvort svo kunni að vera. Ég tók eftir því að einhverjir þm. orðuðu það svo að þetta væri aðeins fyrsta vers, málin væru ekki tæmd. Ég veit ekki hvort þeir voru að hugsa um að einhverjir yrðu dæmdir fyrir lögbrot. En ég get alveg eins hugsað áfram: Eru einhver mál af þessu tagi í farvatninu, annaðhvort í Útvegsbankanum eða einhverjum öðrum banka? Ég vildi beina þeirri fsp. til hæstv. viðskrh. hvort hann telji að svo geti verið eða líklegt sé að svo sé eða hvort hann telji það ólíklegt eða hvort hann muni láta kanna það sérstaklega eða hafi látið kanna það sérstaklega. Það væri vissulega alvarlegt.