17.11.1986
Efri deild: 12. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 896 í B-deild Alþingistíðinda. (758)

153. mál, Iðntæknistofnun Íslands

Iðnaðarráðherra (Albert Guðmundsson):

Hæstvirtur forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 41 frá 18. maí 1978, um Iðntæknistofnun Íslands, 153. mál á þskj. 163.

Tilgangur frv. er að veita Iðntæknistofnun Íslands heimild til að eiga minnihlutaaðild að rannsókna- og þróunarfyrirtækjum sem stofnuð eru eða starfrækt til að hagnýta niðurstöður rannsókna- og þróunarverkefna sem stofnunin vinnur að hverju sinni. Það skilyrði er þó sett fyrir slíkri þátttöku að fyrirtæki séu hlutafélög þannig að áhætta ríkisins verði takmörkuð við hlutafjárframlög. Hér er um merk nýmæli að ræða sem ætlað er að auka tengsl stofnunarinnar við atvinnulífið til hagsbóta fyrir báða aðila.

Iðntæknistofnun Íslands starfar skv. lögum nr. 41 frá 6. maí 1978, en með þeim lögum voru Þróunarstofnun Íslands og Rannsóknastofnun iðnaðarins sameinaðar í Iðntæknistofnun Íslands. Iðntæknistofnun Íslands er sjálfstæð stofnun undir yfirstjórn iðnrn. Hlutverk stofnunarinnar er að vinna að tækniþróun og aukinni framleiðni í íslenskum iðnaði með því að veita iðnaðinum sem heild, einstökum greinum hans og iðnfyrirtækjum sérhæfða þjónustu á sviði tækni og stjórnunarmála og stuðla að hagkvæmri nýtingu íslenskra auðlinda til iðnaðar. Stofnuninni er heimilt að veita þjónustu öðrum aðilum sem hafa þörf fyrir þá sérþekkingu er stofnunin hefur yfir að ráða. Hlutverki sínu skal stofnunin gegna m.a. með því að vinna að ráðgjöf og fræðslu, öflun og dreifingu upplýsinga, hagnýtum rannsóknum, tilraunum og prófunum, tæknilegu eftirliti.

Stofnunin skiptist í ellefu deildir sem hverri fyrir sig er stýrt af deildarstjóra og hefur sér til faglegs ráðuneytis ráðgjafarnefnd skipaða fulltrúum fyrirtækja á viðkomandi sviði. Á undanförnum árum hefur verið lögð áhersla á uppbyggingu þekkingar og tækjakosts til að stunda ýmiss konar rannsóknir og prófanir fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Þá hefur fræðslustarf, einkum námskeiðahald, verið stór þáttur í starfsemi stofnunarinnar. Þegar komið hefur að þeim tíma hins vegar að hagnýta rannsóknirnar skortir fyrirtækin oft fé. Því er mikilvægt að Iðntæknistofnun geti lagt sinn rannsóknakostnað fram sem hlutafé þannig að fjárhagslega veikburða fyrirtæki geti við upphaf starfsemi nýtt sitt eigið fé til frekari uppbyggingar og hagnýtrar úrvinnslu hugmynda.

Iðntæknistofnun mun á næstu árum einbeita sér að því að aðhæfa nýja tækni þörfum starfandi iðnaðar og þróa iðnað sem byggist á nýrri tækni. Trétæknideild hefur boðið út á markaði íslenskra rafeindafyrirtækja verkefni um tölvustýringu í tréiðnaði. Raftæknideild er í samvinnu við Iðnþróunarsjóð að hefja verkefni um sjálfvirknivæðingu í matvæla-, efna- og málmiðnaði. Tæknibreytingar auka mikilvægi söfnunar, miðlunar og úrvinnslu upplýsinga. Stofnunin fylgist með þeim nýjungum sem fram koma og miðlar þeim til íslenskra fyrirtækja með útgáfustarfsemi, upplýsingaþjónustu, ráðgjöf og námskeiðahaldi. Á næstu árum verður lögð sérstök áhersla á upplýsingatækni, efnistækni og matvælatækni.

Til marks um umsvif stofnunarinnar á árinu 1985 skal þess getið að starfsmannafjöldi var um 60 manns. Heildargjöld námu 67 millj. kr. og voru sértekjur stofnunarinnar 28,4 millj. kr. Framlag ríkisins var 32,2 millj. kr.

Hæstvirtur forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. iðnn.