17.11.1986
Efri deild: 12. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 898 í B-deild Alþingistíðinda. (759)

153. mál, Iðntæknistofnun Íslands

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins koma hér upp og lýsa yfir eindregnu fylgi við þetta frv. Ég fagna því alveg sérstaklega því hér er gengið þvert á hina svokölluðu frjálshyggjustefnu í þessum málum sem gengur öll út á það að þurrka út öll áhrif ríkis og ríkisstofnana sem allra víðast. Hér er hæstv. iðnrh. blessunarlega að leggja til að ríkisstofnun, þarfri og ágætri, sem hann rakti hér áðan, verði heimiluð þátttaka í fyrirtækjum og atvinnulífi og hann leiðir að því í grg. og í ágætri ræðu gild rök að hér sé farið inn á rétta braut með þátttöku þessarar ríkisstofnunar, m.a. vegna þess að hún sér um rannsóknir og þróun ýmissa verkefna og getur svo einbeitt sér að því að taka þátt í framkvæmd þeirra sömu verkefna í „praxís“, ef svo má segja.

Hér er raunverulega lögð til ákveðin aukning á hlutdeild ríkisins í atvinnulífinu, sér í lagi varðandi nýjungar, þar sem farið er inn á nýjar brautir, beinar tilraunir jafnvel í atvinnurekstri eins og hæstv. iðnrh. kom inn á, nýjar atvinnugreinar sem oft eiga erfitt uppdráttar, eins og hann tók fram, og þurfa virkilega á stuðningi að halda. Þá er vitanlega rétt og gott að fara til ríkisins og fá þar nauðsynlega aðstoð. Ég vona að þarna verði farið inn á nýjar brautir og Iðntæknistofnun taki þátt í þessum verkefnum og að þau verkefni leiði til góðs. Það verður vonandi ekki farið út í nein ævintýri, a.m.k. ekki nema þau ævintýri sem enda vel. Þetta frv. á því minn stuðning allan.