16.10.1986
Sameinað þing: 4. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í B-deild Alþingistíðinda. (77)

Stefnuræða forsætisráðherra

Svavar Gestsson:

Góðir Íslendingar. Hvaða hugsjón bar uppi stefnuræðu forsætisráðherrans, Steingríms Hermannssonar, hér áðan? Varla er það hugsjón hans að kaupmáttur kauptaxta eigi að vera verri á næsta ári þrátt fyrir einmuna góðæri. Hvar var eldmóðurinn þegar kynnt var stefna ríkisstjórnarinnar sem býr við einstakt góðæri? Ríkisstjórnar sem ætlar að leggja sín mál undir dóm kjósenda eftir nokkra mánuði. Nei, þarna örlaði hvergi á frumlegri hugsun, hugsjón, baráttueldi og þrótti. Sama gamla talnanuddið enn þá einu sinni. En það er reyndar ekki nýlunda að hugsjónir láti lítið á sér kræla í stjórnmálaumræðu, að ekki sé minnst á réttlætiskennd og tilfinningar. Hugsjón þykir ekki fín nú orðið. Hana er ekki hægt að setja á almennan markað og spyrja um markaðsverðið í töflum Kaupþings og Fjárfestingarfélagsins þó sumir reyni að selja sýndarhugsjónir fyrir þingsæti. Tilfinningar bera uppi hugsjónir. Þær eru heldur ekki í hávegum hafðar því það er ekki hægt að kaupa hlutabréf í tilfinningunum. Í pólitík er talað um ískaldar og naktar staðreyndir en ekki heitar tilfinningar og tryggð við málstað og hugsjón. Þegar stjórnmálabaráttan verður hugsjónalaust valdapot snýr almenningur baki við stjórnmálum. Þá er lýðræðið og þingræðið í hættu.

Í því mikla landi Bandaríkjunum tekur innan við helmingur þjóðarinnar þátt í kosningum. Hinn helmingurinn telur stjórnmálin fyrirlitlega iðju. Við skildum þetta fólk þegar við sáum Reagan í herstöðinni á dögunum, sem var átakanlegasti vitnisburður um innihaldslausa popp-pólitík sem við höfum séð á íslenskri grund, og er þá vissulega langt til jafnað, og þó við munum eftir Ámunda og skjólstæðingi hans, að ekki sé minnst á prófkjör íhaldsins í Reykjavík þar sem hver maður eyðir hundruðum þúsunda í að vegsama sjálfan sig. Þannig mega stjórnmálin ekki vera. Þau eru alvarlegt viðfangsefni sem snýst um samfélagið allt og því aðeins náum við árangri að við eigum hugsjón og heita réttlætiskennd.

Þetta þekkjum við íslenskir sósíalistar vel. Það er þess vegna sem við störfum hundruðum saman allt árið, hvern einasta dag. Það er þess vegna sem við lítum á stjórnmálabaráttuna sem félagslegt viðfangsefni en ekki einleik einhverra foringja. Við eigum þá hugsjón að Ísland sé alfrjálst og friðlýst land; að kjörin verði svo góð hér á landi að fólk geti lifað á launum eftir átta tíma vinnu á sólarhring og að vinnuþrældómurinn, sem er einn ljótasti bletturinn á íslenska þjóðfélaginu, verði máður burt; að hvers konar misrétti gagnvart konum verði útrýmt; að börnin búi við góðar uppeldisaðstæður og örugga kennslu kennara sem ganga glaðir til vinnu sinnar þegar vinna þeirra er metin sem vert væri; að heilbrigðisstofnanir taki við okkur þegar vanda ber að höndum án þess að kíkja fyrst í budduna okkar; að aldraðir eigi vísan aðgang að aðhlynningu eins og þeir eiga skilið eftir langan og strangan vinnudag; að fatlaðir búi við jafnrétti og að engum komi til hugar framar að reka blinda menn út af bæjarstjórnarfundum; að húsnæði sé örugg mannréttindi; að við skilum landinu og auðlindunum betri til komandi kynslóða; og síðast en ekki síst að þjóðin öll eigi öfluga íslenska menningu sem því aðeins nær að dafna að við leyfum grasinu að gróa og blómunum að blómstra, skilum menningunni þeim peningum sem teknir eru af henni, bætum skólastarfið í þágu barnanna og eigum líflegan háskóla þar sem innlendir og erlendir fræðimenn geta sótt stuðning og aðstöðu til þess að iðka fræði sín. Þetta er íslensk menningarþjóð, þar sem maður bætist af manni.

Og þetta samfélag getum við eignast aðeins ef við skiptum jafnar því sem við öflum, ef við förum vel með verðmætin og leggjum áherslu á að maðurinn sé í öndvegi en höfnum lögmálum hinnar ísköldu peningahyggju. Og vissulega hefur ekki miðað í átt til hins bjarta framtíðarlands jafnréttis og lýðræðis á síðustu árum. Og fjarri fer því að sjálfstæði þjóðarinnar í efnahagslegu tilliti hafi styrkst á undanförnum árum því erlendar skuldir hafa aukist og herinn hefur þanið út umsvif sín. Það hefur fremur miðað aftur á bak en nokkuð á leið. Því miður. Dæmin eru óteljandi. Ég ætla hér aðeins að nefna þrjú, tvö úr fjárlagafrv., eitt úr þjóðhagsáætluninni.

Fyrsta dæmi: 20 millj. kr. á að verja til uppbyggingar barnaheimila á öllu landinu á næsta ári, en 40 millj. kr. til þess að innrétta brennivínsbúðina í nýja Hagkaupshúsinu.

Annað dæmi: Fjárfesting í almennum iðnaði dregst saman í ár um 10% en fjárfesting í verslum eykst um 10%.

Þriðja dæmi: Fjárlagaliðurinn matvæla- og neyðaraðstoð er strikaður út í frumvarpi næsta árs en hann er í ár 4,8 millj. kr.

Þessi þrjú dæmi nægja. Framtíðin, börnin og uppbygging nýrra atvinnugreina eru vanrækt í þágu skyndigróða verslunarinnar. Lágkúran er kórónuð með því að fella niður aðstoð við sveltandi þjóðir. En svona þarf þetta vissulega ekki að vera. Samkvæmt svartsýnni þjóðhagsspá er gert ráð fyrir að þjóðartekjur aukist enn á næsta ári, að þær hafi í lok næsta árs aukist um 17 milljarða frá 1983 vegna hagstæðra ytri skilyrða. Það jafngildir 300 þús. kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu. Hefur þú fengið 300 þús. kr. fyrir þína fjögurra manna fjölskyldu fyrir sömu vinnu? Auðvitað ekki. Og nú er gert ráð fyrir því að þrátt fyrir góðærið eigi kaupmáttur kauptaxta að minnka á næsta ári. Það kemur auðvitað ekki til greina. En heildartekjum þjóðarbúsins er ekki hægt að leyna. Þær sjást. Við búum við óvenjulegt góðæri. Launamenn féllust á takmarkað kaup meðan syrti að þjóðarbúinu en þeir ætlast til þess að góðærinu verði skilað til fólksins, eins og fram kemur í viðtölum við forustumenn í verkalýðshreyfingunni í Þjóðviljanum í dag.

Alþýðubandalagið varð stærsti andstöðuflokkur íhaldsins í kosningunum s.l. vor, með 24 þús. atkvæði. Alþýðubandalagið ætlar sér að verða enn þá sterkara í kosningunum til Alþingis til þess að geta snúið vörn í sókn. Við ætlum að flytja góðærið til fólksins í landinu. Fólkið hefur skapað góðærið ásamt hagstæðum ytri skilyrðum, þrátt fyrir ríkisstjórnina. Þessu góðæri verður að skila til fólksins með því að sækja vald handa fólkinu sem snýr öfugþróuninni tafarlaust við. Alþýðubandalagið mun leggja áherslu á þessi meginatriði og fylgja þeim fram til sigurs.

Við viljum nýja stefnu í launamálum þar sem stærri hluti teknanna er inni í kauptöxtunum en nú er, sérstaklega í bónusvinnu í fiski. Lægstu taxtarnir verða að hverfa. Þeir eru til skammar. Vinnutíminn verður að styttast kerfisbundið fyrir sömu laun. Uppeldis- og umönnunarstörf verði metin að verðleikum í launakerfinu. Við viljum aðra stefnu í peninga- og vaxtamálum, þak á raunvexti og takmörkun á útlánum bankanna til eyðslugreina. Við viljum nýja byggðastefnu og sjálfstæðari byggðarlög þar sem ákveðið er að ráðstafa stærri hluta verðmætanna en nú er um að ræða. Við höfnum miðstýringu embættismannavaldsins. Við flytjum tillögur um nýja sókn í atvinnulífinu og sýnum fram á möguleika til þess að sækja milljarða og skapa þúsundir nýrra starfstækifæra. Við viljum húsnæðiskerfi sem gerir öllum eignarhaldsformum jafnhátt undir höfði. Við viljum verja og bæta nýja húsnæðislánakerfið, endurskoða og bæta verkamannabústaðakerfið og opna fyrir búseturéttaríbúðir og leiguhúsnæði. Við viljum nýtt skattakerfi og munum leggjum fram sérstakar tillögur um það á þinginu í vetur. Markmiðið er: Einföldun, jöfnuður, réttlæti. Við viljum skattleggja fjármagnstekjur, fækka frádráttarliðum, afnema frádráttafrumskóg fyrirtækjanna og flytja skattbyrðina af launafólki yfir á stóreignamenn og fyrirtæki, m.a. með hærri skattfrelsismörkum tekna einstaklinga en nú er. Við viljum skattadómstól og eflt skattaeftirlit sem sinnir hákörlunum en hættir að eltast við fólkið með tíkallana. Við viljum samfellt lífeyriskerfi og samræmd lífeyrisréttindi fyrir alla landsmenn, en höfnum valdaeinokun í lífeyrissjóðakerfinu. Við viljum alhliða menningarstefnu þar sem fjölmiðlar bera á borð fyrir börnin gott efni en ekki afsiðandi; þar sem barnaheimili og skólar eru víðsýnar uppeldisstofnanir; þar sem Háskóli Íslands er akademísk stofnun á háu stigi; þar sem lánamál námsmanna eru leyst skv. lögunum, eins og þau voru ákveðin af síðustu ríkisstjórn, en við höfnum algerlega kröfum um okurlán handa námsmönnum eins og framsóknaríhaldið gerir nú að tillögu sinni.

Góðir tilheyrendur. Fyrir nokkrum sólarhringum lauk hér í Reykjavík leiðtogafundi stórveldanna. Það var lærdómsríkur tími og sjónvarpið límdi okkur föst allan daginn þegar við fylgdumst með hurðarhúninum í Höfða og við vonuðum að eitthvað jákvætt gerðist í samræmi við hugsjónir okkar um frið og afvopnun. Sjálfsagt líður okkur seint úr minni blaðamannafundur Gorbatsjoffs í Háskólabíói, að ekki sé minnst á skrípaleikinn á vellinum. En minnisstæðastar verða mér samt umræður barnanna í Hlíðaskóla og svo söngur Joan Baez og heimsókn hennar til Halldórs og Auðar á Gljúfrasteini. Þar var sungið um hugsjónina um frið á jörð og þar með frelsi. Æviferill hennar og söngur í 20 ár um friðinn er einnig lýsandi fordæmi fyrir okkur öll hin. Oft gengur baráttan að vísu grátlega seint en þá er að þrauka og gefast ekki upp. Stundum leikur allt í lyndi, þá er eitt augnablik gleðinnar afrakstur af vinnu og aftur vinnu.

Við höfum búið við kaldan vetur peningahyggjunnar á Íslandi í þrjú ár rúm. Þetta er áreiðanlega síðasta þingið sem ríkisstjórn framsóknaríhaldsins fær að sitja. Svo er stjórnarskránni fyrir að þakka. Þess vegna má sjá vonina rætast í vorinu sem kemur á móti okkur eftir áramótin. Sú von þarf að breytast í sigur yfir afturhaldsöflunum. Til að vonin verði að veruleika þarf hugsjón, eld sem yljar og skapar orku til að leysa ný verkefni. Aðalverkefni okkar er að skapa þannig skilyrði hér á landi að fólk vilji byggja þetta land og þeir, sem hafa flúið utan, þeir komi heim til Íslands á ný. Mundu að þetta land átt þú. Ég þakka þeim sem hlýddu.