17.11.1986
Efri deild: 12. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 911 í B-deild Alþingistíðinda. (771)

141. mál, kosningar til Alþingis

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Það er ekki mjög algengt að umræður hér í hv. deild snúist á þann hátt sem sú umræða sem hér hefur átt sér stað hefur snúist, þ.e. að hingað komi upp hver þm. á fætur öðrum og lýsi því yfir að fyrri skoðun hans hafi verið röng, það sem hann hafi barist fyrir fyrir nokkrum árum standist ekki og hafi ekki staðist tímans tönn.

Þær lýsingar, sem hér hafa komið fram í sambandi við prófkjörin, eru frekast á þann máta að maður gæti látið sér detta í hug að sú aðferð til að velja forustumenn þjóðarinnar sé þegar fyrir bí. Hér hafa menn komið upp hver á fætur öðrum og lýst prófkjörunum með þeim ósköpum og tíundað þeirra vankanta að ég get varla ímyndað mér annað en að þar sé að vissu leyti verið að lýsa ákveðinni afstöðu almennings í landinu gagnvart þeim vanköntum sem þau prófkjör, sem í gangi hafa verið og eru í gangi, hafa verið búin til að færa kjósendum aðstöðu til að velja sína forustumenn á lýðræðislegan máta.

Mér sýnist því miður að frv., sem hér er til umræðu og er mjög gott og gilt og gott að fá til umræðu á hv. Alþingi, leysi ekki þau vandamál sem verið er að tala um, þ.e. að ekki verði hætta á að það verði sárindi og slagur á milli félaga innan hvers flokks eða fjáraustur í sambandi við hvernig lokaniðurstaðan í kosningunum verður þegar á að fara að velja á milli frambjóðendanna. Við erum þá komin á lokastig ákvörðunartökunnar og slagurinn er innan þess hóps sem er í framboði. Við erum þá búin að binda prófkjörin síðustu ákvörðunartökunni. Vont er að hafa prófkjör, að mínu mati, nokkrum mánuðum fyrir kosningar og þau verða sjálfsagt sár og heiftúðleg og ýmsir vankantar koma fram og kannske mjög lítið lýðræði vegna þess að það er ýmsum aðferðum beitt í sambandi við að safna til sín atkvæðum eins og hefur komið fram í umræðunni. Fjársterkir menn hafa betri aðstöðu o.s.frv., það eru ýmsir sem hafa kannske öflug félagasamtök bak við sig og annað eftir því. En þegar þessi átök eiga sér stað á kjördaginn sjálfan er ég ansi hræddur um að það verði enn þá grimmari átök og við séum ekki að búa til neitt betri aðferð nema síður sé en þá sem við höfum verið að reyna undanfarin ár.

Inn í þessa umræðu fléttast svo þær fullyrðingar, sem alltaf hafa verið í gangi og voru eitt af aðalatriðunum þegar verið var að koma prófkjörunum á, að það væru fámennar valdaklíkur í flokkunum sem fengju að ráða því hverjir væru settir á listana. Hv. 6. landsk. þm. sagði að hann hefði haft þá skoðun í upphafi, en eftir orðum hans að dæma virtist sem þessi skoðun væri ekki alveg eins ákveðin í hans huga nú, að í ákvörðun með gamla laginu með uppstillingarnefnd og á þann hátt sem var áður en prófkjör kom til sögunnar hafi verið sérstaklega mikið einræði fólgið. Vitaskuld var þar fulltrúaval á sama máta og við erum fulltrúakjörnir fulltrúar og eigum að ráða ákveðnum hlutum og ráðum ákveðnum hlutum í lagasamþykkt fyrir þjóðina. Þá var uppstillingarnefnd falið það vald að velja menn á lista.

Það hefur fylgt líka að þegar hefur verið rætt um þetta hafa flokkarnir einhvern veginn verið dregnir niður um leið, þessi vondu samtök í þjóðfélaginu. En hvað eru pólitískir flokkar annað en. . . (Forseti: Forseti vill ekki eyðileggja þessa ágætu ræðu fyrir hv. þm., en benda honum á að nú er fundartími liðinn. Þá er spurning hvort hann vilji ekki fresta ræðunni og taka upp þráðinn ef hann er ekki alveg að ljúka.)

Umræðu frestað.