17.11.1986
Neðri deild: 12. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 919 í B-deild Alþingistíðinda. (777)

150. mál, Skattadómur og rannsókn skattsvikamála

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Fyrir nokkru var fjallað ítarlega um það í dómsmrn. hvernig ná mætti betri árangri í meðferð efnahagsbrota, eins og þau eru nefnd, og þar undir falla að sjálfsögðu brot á skattalögum. Það varð niðurstaðan af þeirri athugun að gera allmikið átak til að koma þeim málum í betra horf og er það að nokkru leyti rakið í grg. þess frv. sem hv. 3. þm. Reykv. var að mæla hér fyrir. Niðurstaðan af þessum athugunum varð m.a. sú að ekki skyldu settir upp sérstakir dómstólar eða sérstakar stofnanir, hvorki til rannsókna né dóma á þessum málaflokki.

Hv. flm. rakti það að hann hefði sjálfur verið andvígur slíku og nefndi eitt atriði sem er neikvætt, þ.e. ef sama málið tengist fleiri en einum brotaflokki. Til viðbótar vil ég nefna það að vegna okkar fámennis og þar sem málafjöldi á einstökum sviðum er misjafn frá ári til árs þá er það heppilegra að geta notað stærri stofnun til að fjalla um málin þegar álag verður mikið, þá er hægt að beita meira starfsliði heldur en væri starfandi við sérstakan dómstól. Niðurstaðan af þessari athugun varð sú að hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins yrði komið upp sérstakri deild sem fjallaði um þessi mál og rannsóknarlögreglumönnum fjölgað í því skyni. Ég þori að fullyrða að árangurinn af þessari breyttu skipan er þegar kominn í ljós. Hann hefur komið í ljós við rannsókn þeirra umfangsmiklu brotamála á þessu sviði sem því miður hafa komið upp síðan þessi skipan var tekin upp. Ég hygg að óhætt sé að fullyrða að rannsókn þessara mála hafi gengið betur en menn þorðu fyrir fram að vona, vegna þess hversu umfangsmikil þau eru, og betur en áður hefur gerst í slíkum málum.

Jafnframt þessu var ákveðið að fjölga um einn sakadómara og þá með það í huga að hægt væri að fela einum manni, og það hefur verið gert, sérstaklega þennan málaflokk, en hins vegar er þar ekki búin til nein sérstök deild af þeirri ástæðu sem ég gat um áðan, að álag er misjafnt í einstökum málaflokkum og því ekki heppilegt að binda það algjörlega niður. Einnig var sakadómurum fjölgað og þar var það eins, að gert var ráð fyrir því að einhverjum af sakadómurum yrði falið sérstaklega að fjalla um þessi mál, þó að þar sé um fleiri starfsmenn að ræða og því hægt að skipta þeim á milli fleiri þegar álag verður mikið.

Ég held því að það sé rétt að það komi enn betur í ljós hvort þessi skipan, sem ég hef rakið og ég hef beitt mér fyrir, nái ekki því markmiði sem ætlast er til að þetta frv. geri, og nái þá því markmiði á þann hátt sem hv. 3. þm. Reykv. sagði sjálfur að hann hefði talið hingað til að væri æskilegt að hafa þessa skipan á þeim málum.

Þá vil ég víkja að einu atriði í sambandi við skýrslu þá sem hann gat um að nefnd á vegum fjmrh. hefði skipað og skilaði áliti á síðasta sumri í sambandi við skattsvik. Í tillögu nefndarinnar var vikið að einu atriði sem sérstaklega beindist að dómsmrn. Þar var um að ræða breytingu á almennum hegningarlögum til þess að meira tillit yrði tekið til þessara ákvæða en ef það væri eingöngu innan skattalaga. Frv. um þetta hefur verið samið. Það hefur verið lagt fyrir ríkisstjórnina og afgreitt þar með heimild til að leggja það fyrir þingflokka stjórnarinnar. Þar er það til meðferðar nú og ég vonast til þess að það taki ekki langan tíma svo að hægt verði að leggja það fram á Alþingi innan mjög skamms tíma. Einnig er gert ráð fyrir að það ákvæði nái þá til brota á lögum um bókhald en að öðru leyti mun ég á þessu stigi ekki fjalla nánar um það frv. þar sem ég vonast til að fá tækifæri til þess hér innan skamms.

Ég vil svo að lokum, vegna niðurlagsorða hv. þm., benda á það að þau eru orðin þó nokkur frv. sem ég hef flutt á vegum dómsmrn. þegar á þessu þingi og vonast til þess að njóta stuðnings hv. þm. og hans flokks við að vinna að framgangi þeirra því að sum þeirra eru mjög viðamikil. Ég held að flest eða öll þeirra séu ekki ágreiningsmál milli flokka og vonast því til að þau fái góða afgreiðslu.