18.11.1986
Sameinað þing: 17. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 934 í B-deild Alþingistíðinda. (788)

48. mál, lífeyrisréttindi fyrir alla landsmenn

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þau svör sem hann hefur komið með við fsp. minni. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að niðurstöður lífeyrisnefndanna komi hér fyrir þingið í vetur, helst í frumvarpsformi. Það ætti ekki að vera neitt að vanbúnaði í þeim efnum ef sautján manna nefndin nær sæmilegu samkomulagi um þau frumvarpsdrög sem nú liggja fyrir frá atta manna nefndinni.

En eins og þm. heyra er hér verið að tala um samræmt lífeyrisréttindakerfi fyrir alla landsmenn. Það er ekki verið að tala um einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn, að öllum sjóðum verði steypt saman í einn, heldur samræmt lífeyrisréttindakerfi. Það er alveg ljóst að ef því kerfi verður komið á mun það þrengja verulega að hinum minnstu lífeyrissjóðum um leið og þetta kerfi sem er verið að ræða um hlýtur að einfalda málin verulega frá því sem nú er. Og jafnframt á að vera unnt með samræmingu lífeyriskerfisins, sem er aðalatriðið, að tryggja betur lífeyri en nú er kostur á í þeim fjölmörgu lífeyrissjóðum sem eru starfandi og eru sumir mjög litlir, máttlitlir, og geta í rauninni ekki tryggt iðgjaldagreiðendum lífeyrisréttindi sem skyldi.

Ég tel að umræðan um lífeyrismálin hafi oft verið býsna mikið í þoku á undanförnum misserum. Menn hafa talað um þessi mál að mér hefur fundist án þess að hafa kafað ofan í þau. Þetta eru flókin mál og þess vegna er brýnt að þetta mál verði lagt fyrir þingið í vetur, helst í frumvarpsformi en auðvitað mætti hugsa sér að til þrautavara væri betra að fá málið inn í skýrsluformi til umræðu en alls ekki því að ég held að óhjákvæmilegt sé að Alþingi taki á þessu máli. Hér er um að ræða gífurlega stórt réttindamál í fyrsta lagi og í öðru lagi gífurlega stórt efnahagsmál, því að hér er um að ræða milljarða króna sem eru undir höndum lífeyrissjóðanna.

Ég vil sem sagt endurtaka þakkir til hæstv. fjmrh. fyrir þau svör sem hann gaf og heita á hann að leggja málið fyrir þingið til alvarlegrar umræðu og helst ákvörðunar á yfirstandandi löggjafarþingi.