18.11.1986
Sameinað þing: 17. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í B-deild Alþingistíðinda. (795)

126. mál, samningaviðræður tannlækna og Tryggingastofnunar

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég mun svara fsp. hv. þm. eins og þær liggja fyrir. Fyrri fsp. hljóðar svo: „Mun ráðherra beita sér fyrir að fram verði haldið samningaviðræðum Tryggingastofnunar ríkisins og Tannlæknafélags Íslands?" Og síðari fsp. hljóðar svo: „Ef svo er, hvenær er von til þess að samningaviðræður hefjist að nýju?"

Ég kýs að svara báðum spurningunum í einu, enda verða þær ekki með góðum móti aðskildar í svarinu. Eins og alþjóð er kunnugt settu tannlæknar sér einhliða nýja gjaldskrá frá og með 1. ágúst s.l. eftir að slitnað hafði upp úr samningaviðræðum þeirra við Tryggingastofnun ríkisins. Það var skylda ráðuneytisins skv. 44. gr. laga um almannatryggingar að setja sérstaka gjaldskrá þar sem samningur væri ekki fyrir hendi. Það er ekki ætlun mín að rekja þá sögu frekar hér. Þetta var gert og jafnframt var þess farið á leit við aðila að þeir settust niður við samningaborð að nýju. Þetta átti ekki að þýða það að samningaviðræður legðust af.

Í framhaldi af því var ákveðið að fulltrúar beggja samningsaðila færu og skoðuðu með eigin augum og fengju frá fyrstu hendi upplýsingar um samsetningu tannlæknakostnaðar á Norðurlöndum. En það var eitt þeirra atriða sem mjög höfðu verið notuð sem forsenda í kröfugerð. Samninganefnd ríkisins komst að þeirri niðurstöðu að nokkuð væru á reiki upplýsingar um hvaða stærðir væru í þessum forsendum sem tannlæknar höfðu mjög notað og þess vegna var þessi för farin. Skýrslur liggja nú fyrir um árangur þeirrar farar.

Um þetta leyti skipaði ég einnig nefnd fulltrúa ráðuneytisins, Tannlæknafélags Íslands og fjmrn. til þess að kanna hvaða þýðingu niðurfelling tolla og gjalda á rekstrarvörum til tannlækninga hefði til lækkunar á tannlæknakostnaði. Þessi nefnd hefur lokið störfum og skýrsla nefndarinnar hefur verið send hlutaðeigandi aðilum og samningaviðræður halda áfram á allra næstu dögum. Þær lágu niðri á meðan beðið var niðurstaðna frá þessum tveimur aðilum, annars vegar ferðamönnunum og hins vegar þeim sem áttu að athuga þýðingu opinberra gjalda í tannlæknakostnaðinum.

Við þetta má bæta að tvær aðgerðir enn voru framkvæmdar af hálfu ráðuneytisins en þær hafa verið meðal þess sem tannlæknar hafa mjög óskað eftir að gert yrði. Annars vegar var það að lengi hefur staðið á því að Tryggingastofnunin gæfi út eyðublað til þess að sundurgreina kostnað við tannlækningar, samkomulag hafði ekki náðst um það. En á næstu dögum eftir að gjaldskrá ráðuneytisins var sett var eftir fyrirmælum ráðuneytisins gefið út slíkt eyðublað. Nokkur tregða var á því í fyrstu að tannlæknar notuðu það eyðublað almennt, en þeir bættust fleiri og fleiri í þann hóp sem fóru að settum reglum að þessu leyti. Enn fremur hafði verið mikið áhugamál allra þeirra sem að þessum málum koma að auka mjög fræðslu og ýmsar aðgerðir til þess að bæta tannheilsu og fyrirbyggja hinar dýru tannskemmdir. Framlög til þessara starfa hafa verið fjórfölduð úr Tannverndarsjóði og það hefur verið verulegt átak í gangi - ef ég má nota svo slæmt mál að kalla það svo. Það hefur farið mjög mikilvægt starf fram í þessu skyni nú undanfarið og verulega verið tekið á eins og landsmenn hafa væntanlega orðið varir við. Ég tek undir það sem kom fram í ræðu hv. fyrirspyrjanda að tannheilsa Íslendinga er því miður lakari en skyldi, ekki síst meðal ungs fólks, og það er einmitt eitt af því sem við verðum að hyggja mjög vandlega að í forvarnaraðgerðum okkar bæði til að spara fyrir einstaklinga og þjóðarheildina.