18.11.1986
Sameinað þing: 17. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 943 í B-deild Alþingistíðinda. (802)

148. mál, hafnamál

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Svar við fyrstu spurningu: Hafnamálastofnun ríkisins lagði áherslu á í tillögum sínum til fjárlaga fyrir árið 1987 að fé yrði veitt á fjárlögum til að byggja yfir líkanstöð stofnunarinnar. Samgrn. tók undir þessa tillögu stofnunarinnar og lagði til við Fjárlaga- og hagsýslustofnun að í fjárlagafrv. fyrir árið 1987 yrði gert ráð fyrir 10 millj. kr. fjárveitingu til byggingar skemmu yfir líkanstöðina. Þrátt fyrir þessa tillögu ráðuneytisins komst þessi liður ekki inn í fjárlagafrv.

Ég hef skrifað fjvn. Alþingis bréf þar sem ég fer þess á leit við nefndina að hún við meðferð og umfjöllun um fjárlagafrv. taki upp í frv. að 10 millj. kr. verði veitt til byggingar húss fyrir líkanstöð Hafnamálastofnunar. Hvort pólitísk samstaða næst um veitingu þessa fjár ræður því hvort Hafnamálastofnun verður fært að starfrækja líkanstöð sína á næstunni.

Svar við 2. spurningu: Samgrn. hafa borist óskir frá hafnarsjóðum um að framkvæmt verði fyrir 800 millj. kr. í almennum höfnum á næsta ári. Ríkishluti framkvæmdanna yrði samkvæmt því um 600 millj. kr. Telja verður að þessar óskir séu að einhverju leyti óraunhæfar þar sem ekki verður séð að hafnarsjóðir geti í öllum tilvikum staðið við sinn hluta í framkvæmdunum. Nákvæm sundurliðun annars vegar á endurnýjunarþörf eldri hafnamannvirkja og hins vegar á þörf á nýjum hafnarmannvirkjum liggur ekki fyrir. Hins vegar er það álit Hafnamálastofnunar að nauðsynlegt sé að framkvæma fyrir um það bil 400 millj. kr. á ári í almennum höfnum og e.t.v. eitthvað meira í 2-3 ár meðan verið er að komast út úr þeim vanda sem skapast hefur síðustu árin. Hér er um að ræða bæði endurnýjun á eldri mannvirkjum sem búin eru með sinn líftíma og endurbætur á mannvirkjum til aðlögunar breyttum kröfum vegna framþróunar í útgerð og flutningatækni.

Hér að framan er einungis gerð grein fyrir nauðsynlegum framkvæmdum við hinar hefðbundnu fiski- og flutningahafnir. Verði ákveðið að byggja hafnir á nýjum stöðum, t.d. iðnaðarhafnir, verður að ætla til þeirra framkvæmda fé umfram þær 400 millj. kr. sem að framan er getið.

Svar við 3. spurningu: Í apríl 1985 lagði Hafnamálastofnun fyrir samgrn. fjögurra ára áætlun um hafnarframkvæmdir árin 1986-1989. Þegar hins vegar kom í ljós hversu fjárveitingar til hafnaframkvæmda fyrir árið 1986 urðu litlar var öllum grundvelli kippt undan áætluninni og hún því ekki lögð fram á Alþingi. Í frv. til fjárlaga fyrir árið 1987 er gert ráð fyrir 160 millj. kr. til stofnkostnaðar hafnarmannvirkja, en samkvæmt bráðabirgðayfirliti yfir hafnaframkvæmdir ársins 1986 má áætla að vangreiddur hluti ríkissjóðs um n.k. áramót verði 115-120 millj. kr. Af þessu sést að ekki hefur verið mikið svig.rúm til nýframkvæmda í höfnum landsins. Það hefur því takmarkaðan tilgang að leggja fram fjögurra ára áætlun um hafnaframkvæmdir fyrr en ákveðið hefur verið að veita auknu fé til þessa málaflokks.

Þær framkvæmdir sem unnið hefur verið að í hafnagerðum seinustu tvö árin hafa að mestu leyti verið nauðsynlegt og tilfallandi viðhald og endurbygging sem í mörgum tilvikum er erfitt að tímasetja nákvæmlega fyrir fram. Þrátt fyrir óvissu með fjárveitingar til hafnaframkvæmda er nú, í skjóli þess að framkvæmdafé hefur verið hækkað nokkuð, hafin í Hafnamálastofnun vinna við undirbúning og gerð langtímaáætlunar um hafnargerðir. Hins vegar gæti fjögurra ára áætlun legið fyrir með skömmum fyrirvara þar sem mörg verk eru til hönnuð og jafnframt mörgum verkum ólokið sem byrjað hefur verið á og hef ég í huga að leggja fram þessa áætlun eftir áramót eða fljótlega eftir að þing kemur þá saman.